Skip to main content
18. desember 2020

Gleðilega hátíð

Gleðilega hátíð  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (18. desember):

„Nú eru lokapróf haustmisseris að baki og vil ég færa ykkur bestu þakkir fyrir árvekni, þolgæði og sveigjanleika sem skipt hefur sköpum við þær aðstæður sem markað hafa starf okkar hartnær allt þetta ár. Ársins 2020 mun um langa framtíð verða minnst fyrir veirufaraldurinn sem herjað hefur á heimsbyggðina. 

Farsóttin hefur ekki aðeins ógnað lífi og heilsu heldur hefur hún einnig skekið hagkerfi heimsins og sett daglegt líf flestra úr skorðum. Loka þurfti Háskóla Íslands að mestu og færðist starfið að miklu leyti í stafrænan heim. Þessi róttæku og snöggu umskipti hafa sannarlega reynt mikið á okkur öll. Það er aðdáunarvert hvernig þið, nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands, hafið brugðist fumlaust og faglega við þessum krefjandi aðstæðum. Án fórnfýsi ykkar, seiglu og samstöðu hefði ekki tekist að verja skólastarfið og halda uppi gæðum þess eins vel og raun ber vitni. Fyrir það vil ég þakka af heilum hug. 

En nýtt ár færir okkur von um betri tíð. Nú hillir loks undir bólusetningu til að kveða veirufaraldurinn niður. Vonandi getum við áður en langt um líður tekið fagnandi á móti öllum í byggingum Háskólans.

Þótt Háskóli Íslands horfi til framtíðar til að tryggja samkeppnishæfni, hagsæld og lífsgæði þjóðarinnar þá er okkur hollt að horfa aftur og minnast þeirra þátta sem hafa fært okkur þangað sem við nú stöndum. Á komandi ári fögnum við því að Háskóli Íslands hafi verið drifkraftur atvinnulífs og framfara í 110 ár. Þeir frumkvöðlar sem hófu háskólastarf hér við ysta haf og kröpp kjör eiga ævarandi þakkir þessarar þjóðar skildar fyrir það sem Háskólinn hefur fært henni. Þekkingin er og verður gjaldmiðill sem sífellt eykur gildi sitt.

Nú fer sól senn hækkandi en stysti dagur ársins er á mánudaginn kemur. Listakonan Björk orti um sólstöðurnar í margvíddaverkinu Biophilia þar sem hún kannaði m.a. tengsl náttúru, tónlistar, tækni og vísinda. Þar líkir Björk okkur við ljósbera sem njótum útgeislunar frá öðrum. Senn fer hátíð að höndum ein og þá gefst okkur flestum þrátt fyrir allt færi á að bera ljósið til annarra, leiða hugann að því sem mestu skiptir, ástvinum okkar og fjölskyldu.

Kæru nemendur og samstarfsfólk, gleðilega hátíð og farsælt nýtt ár.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Aðalbygging