Skip to main content
28. október 2016

Fyrsta heiðursviðurkenning MNÍ

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands veitti í fyrsta skipti heiðursviðurkenningu á Matvæladaginn 20. október 2016. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor emeritus, fékk heiðursviðurkenningu MNÍ fyrir lofsvert framtak í þágu matvæla- og næringarrannsókna á Íslandi.

Ágústa hefur verið brautryðjandi á mörgum sviðum. Rúmlega þrítug varð hún ein af fyrstu matvælafræðingum til að útskrifast frá Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í erfðatækni og próteinefnafræði frá Háskólanum í Virginia árið 1988. Árið 1993 var hún skipuð fyrsti prófessorinn í matvælafræði við Háskóla Íslands. Með skipuninni varð Ágústa fyrst kvenna til að verða skipuð prófessor við raunvísindadeild HÍ. 

Hún hélt áfram að vera brautryðjandi. Árið 1994 útskrifaði hún fyrsta meistaranemann í matvælafræði og árið 2006 annan doktorsnemann í matvælafræði. Þannig varð hún fyrirmynd annarra kennara í matvælafræði í rannsóknatengdu framhaldsnámi, ekki bara í rannsóknum heldur líka í hvernig nýta mætti niðurstöður rannsókna til nýsköpunar. 

Ágústa og Dr. Jón Bragi Bjarnason heitinn sýndu mikla þrautseigju í nýtingu á þorskensímum til framleiðslu á bragðefnum, smyrslum og læknavörum, 20-30 ára úthald skilaði árangri. Mörg sprotafyrirtæki sem beitt hafa líftækni við vinnslu aukafurða og til verðmætasköpunar við vinnslu á fiski hafa fylgt í kjölfarið.  

Í fyrra hlaut fyrirtækið Zymetech, sem byggist á rannsóknum Ágústu og Jóns Braga, Nýsköpunarverðlaun Íslands sem eru veitt til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsókna- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. 

Loks er vert að minnast á allt félagsstarfið og stjórnunarstörfin sem Ágústa hefur sinnt. Þar er listinn ótrúlega langur. Þannig hefur Águsta verið ómetanlegur tengiliður rannsókna og nýsköpunar. Eða eins og haft var eftir Ágústu í tilefni af fyrstu nýsköpunarráðstefnu Heilbrigðisvísindasvið í fyrra: „Nýsköpun er langt og strangt ferli og sumir hlutar þess geta varla orðið að veruleika ef ekki er vakin athygli á hugmyndum innan háskóla.“ 

Laufey Steingrímsdóttir og Ágústa Guðmundsdóttir
Laufey Steingrímsdóttir og Ágústa Guðmundsdóttir