Skip to main content
26. nóvember 2021

Fullveldisdagurinn framundan í HÍ

Fullveldisdagurinn framundan í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (26. nóvember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Nú er sá tími hafinn þegar nemendur uppskera eftir alla þá miklu vinnu sem fylgir námi á haustmisseri. Lokapróf í Háskóla Íslands fara nú í fjórða sinn fram við aðstæður sem við gátum ekki ímyndað okkur að kæmu til fyrir tveimur árum. Mikið álag fylgir prófum við venjulegar aðstæður og eins og nú háttar getur verið enn vandasamara að takast á við undirbúninginn og prófin sjálf. Á heimasíðu HÍ má finna ýmis hollráð frá sálfræðingum skólans sem kunna að gagnast ykkur, kæru nemendur, við undirbúning prófanna. Þar er ekki síst lögð áhersla á að viðhalda daglegri rútínu, huga að eigin líðan og hreyfa sig reglulega.  

Ég hvet ykkur líka öll til að kynna ykkur vandlega upplýsingar um prófin á vefsíðu skólans þar sem algengum spurningum varðandi þau er svarað. Ég óska ykkur öllum góðs gengis í prófunum, kæru nemendur.

Í næstu viku tekur desember við með ljósum og lífi sem helgast af anda jólanna. Fyrsta dag desember ár hvert fagna stúdentar Háskólans sérstaklega fullveldi íslensku þjóðarinnar. Í sambandslögunum sem tóku gildi hinn 1. desember árið 1918 kom m.a. fram viðurkenning Dana á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Sjö árum áður hafði íslenska þjóðin stofnað Háskóla Íslands, sem var birting þess mikla metnaðar sem þjóðin bar í brjósti til að ráða sér sjálf og mennta fólk á eigin forsendum til þátttöku í þeirri mikilvægu vegferð sem enn stendur – að efla velferð og bæta stöðugt lífskjör okkar Íslendinga.

Stúdentar ganga á miðvikudaginn kemur að leiði frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar í Hólavallagarði og leggja þar blómsveig en barátta Jóns forseta fyrir sjálfstæði Íslendinga er í raun samofin baráttunni fyrir stofnun Háskóla Íslands. Þetta tvennt verður ekki aðskilið. Við erum iðulega upptekin af andránni – því sem er í deiglunni – enda er það okkur nauðsynlegt til að takast á við þær áskoranir sem fylgja samtímanum og um leið útgangspunktur ferðar okkar inn í framtíðina. En við megum ekki gleyma öllum þeim sem færðu okkur af litlum efnum í fortíðinni lykilinn að því sem við njótum í nútímanum. 

Á fullveldisdaginn halda guðfræðinemar skólans sína árlegu hátíðarguðþjónustu og einnig verður haldin hátíð brautskráðra doktora í streymi í Hátíðasal. Þá afhendum við gullmerki Háskóla Íslands öllum þeim sem lokið hafa doktorsvörn undanfarna tólf mánuði. Doktorsnám hefur eflst gríðarlega við skólann undanfarin ár enda er það mikilvægur liður í fjölbreyttum rannsóknum sem skila ekki einungis vísindunum miklum ávinningi heldur samfélaginu öllu. Það er markmið okkar að hlúa enn betur að doktorsnemum skólans á næstu misserum og stuðla að fjármögnun námsins. Það er skólanum mikilvægt að draga inn þekkingu að utan í doktorsnámi og því hvetjum við doktorsnema okkar áfram til alþjóðlegs samstarfs. Það má þó ekki gleyma því að fjöldi doktorsnema kemur erlendis frá til náms við HÍ og auðgar hér mannlíf og starf samhliða því að víkka sýn okkar í rannsóknum.

Ég minni starfsfólk á að taka þátt í könnun um stofnun ársins sem Gallup hefur sent og hver og einn fengið í tölvupósti. Þessi könnun veitir gagnlegar upplýsingar um styrkleika og áskoranir í starfsumhverfi skólans. Tilgangur könnunarinnar er að veita stjórnendum tæki til að vinna að umbótum á stjórnun og starfsumhverfi starfsfólks. Það er því mikilvægt að þátttaka innan skólans verði góð.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Hugum áfram að eigin sóttvörnum og fylgjum án undantekninga sóttvarnareglum Landlæknis. Þiggjum bóluefni þegar þau bjóðast því þau eru mikilvægur þáttur í að efla varnir okkar allra gegn COVID-19. 

Dagarnir líða og nú um helgina er fyrsti sunnudagur í aðventu. Skáldkonan Vilborg Dagbjartsdóttir lýsti tímanum á þann veg að hún þræddi dagana eins og skínandi perlur upp á óslitinn silfurþráð. Vilborg kvaddi okkur fyrr í haust en hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands og nam jafnframt leiklist og síðar bókasafnsfræði hér við Háskóla Íslands. Hún var sannarlega ein af þeim fjölmörgu nemendum skólans sem fóru héðan til að hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag.

Förum að öllu með gát. Góða helgi.

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Háskólatorg