Skip to main content
14. maí 2023

Frumkvöðlaverkefni kvenna verðlaunuð í HÍ-AWE-hraðlinum 

Frumkvöðlaverkefni kvenna verðlaunuð í HÍ-AWE-hraðlinum  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viðskiptahugmyndir sem snúa að bragðlaukaþjálfun fyrir börn, hugbúnaðarlausn við þjónustu fatlaðra barna og drónatækni til að rannsaka jörð og óbyggð svæði urðu í þremur efstu sætunum í frumkvöðlahraðli fyrir konur sem Háskóli Íslands stóð að í samstarfi við bandaríska sendiráðið á Íslandi og lauk formlega á föstudag.  
 
Frumkvöðlahraðallinn nefnist Academy for Women Entrepreneurs (AWE) og er í boði víða um heim á vegum  bandarískra stjórnvalda. Markmið hans er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Þetta er í þriðja sinn sem hraðalinn er haldinn hér á landi.  
 
Yfir tuttugu konur voru valdar til þátttöku í hraðlinum sem hófst í seinni hluta febrúar og stóð yfir í tæpar 12 vikur. Allir þátttakendur luku Dreambuilder, vefnámskeiði á vegum Arizona State háskólans í Bandaríkjunum, og tóku jafnframt þátt í vinnulotum sem Háskóli Íslands stóð fyrir. Að auki fengum við í ár um 40 reynslumiklar konur úr atvinnulífinu og fyrrum þátttakendur í hraðlinum til að styðja við keppendurna. Konurnar hafa jafnframt notið leiðsagnar mentoranna Fidu Abu Libdeh, forstjóra og stofnanda GeoSilica, Söndru Mjallar Jónsdóttur Buch, framkvæmdastjóra Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. 

Útskrift og verðlaunaafhending fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands á föstudag að viðstöddum Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og dómnefndum hraðalsins. 
 
Tuttugu þátttakendur útskrifuðust úr hraðlinum og fengu nokkur verðlaun viðurkenningu og verðlaun. Fyrstu verðlaun fyrir bestu viðskiptahugmyndina að upphæð 700 þúsund hlaut verkefnið Bragðlaukaþjálfun. Að verkefninu stendur Anna Sigríður Ólafsdóttir  Viðskiptahugmyndin er ný nálgun á matvendni barna sem byggir á því að nýta öll skynfæri, leiki og heimaverkefni til að upplifa og læra að njóta fjölbreytts matar. Í öðru sæti varð verkefnið Betty sem hlaut 500 þúsund krónur í verðlaunafé. Að verkefninu stendur Elísabet Ásta Ólafsdóttir og er það hugbúnaðarlausn sem ætlað er að gera þjónustu við fötluð börn skilvirkari og bæta samræmingu þjónustuaðila. Í þriðju verðlaun að upphæð 300.000 krónur hlaut verkefnið Jarðargreining sem Morgane Priet-Maheó er með en hugmyndin er að nota drónatækni til að rannsaka óbyggð svæði.  
 
Sérstök verðlaun voru veitt fyrir „bestu lyftukynninguna“ en þar er átt við afar stutta kynningu á verkefninu eftir skil á viðskiptaáætlun. Þau verðlaun að upphæð 300.000 hlaut verkefnið e-toile sem Sigríður Birna Matthíasdóttir stendur að baki og snýr það að vettvangi fyrir stafræna tísku. Að lokum hlaut Jorika Trundóva verðlaunin mestu framfarirnar fyrir verkefnið sitt Pláneta, sem snýst um vörur sem hvetja til náms í gegnum könnun og sköpun og hlaut 200.000 krónur í verðlaun.  

Tuttugu þátttakendur útskrifuðust úr hraðlinum sem hófst í seinni hluta febrúar og stóð yfir í tæpar 12 vikur. Allir þátttakendur luku Dreambuilder, vefnámskeiði á vegum Arizona State háskólans í Bandaríkjunum, og tóku jafnframt þátt í vinnulotum sem Háskóli Íslands stóð fyrir. Að auki fengum við í ár um 40 reynslumiklar konur úr atvinnulífinu og fyrrum þátttakendur í hraðlinum til að styðja við keppendurna.

Í dómnefnd sátu: Marta Björg Hermannsdóttir, formaður dómnefndar og sérfræðingur í áhættustýringum og UFS hjá Eyrir Venture Management, Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands, og Eydís Mary Jónsdóttir, frumkvöðull og forstjóri Zeto ehf og EMZ ehf. 

UM HÍ-AWE 

Háskóli Íslands stendur fyrir AWE-hraðalinum í samvinnu við Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi en AWE-verkefnið er í boði í yfir 80 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda. Markmið hans er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í verkefninu. Aðrir samstarfsaðilar hraðalsins eru FKA-Félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök kvenna af erlendum uppruna (W.O.M.E.N). 
 
Háskóli Íslands óskar öllum þátttakendum í hraðlinum hjartanlega til hamingju með árangurinn og góðs gengis í áframhaldandi þróun á glæsilegum viðskiptahugmyndum. Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi.   

Verðlaunahafarnir í HÍ-AWE frumkvöðlahraðlinum. mynd/Gunnar Sverrisson