Skip to main content
4. september 2021

Framkvæmdir að hefjast við nýtt rannsóknahús á svæði Landspítala

Framkvæmdir að hefjast við nýtt rannsóknahús á svæði Landspítala - á vefsíðu Háskóla Íslands

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tók í gær fyrstu skóflustungu að nýju rannsóknahúsi ásamt Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, Unni Brá Konráðsdóttur, formanni stýrihóps Landspítala, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.

Nýtt rannsóknahús, sem mun rísa vestan Læknagarðs Háskóla Íslands, er ein af byggingum í heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut en stækkun Læknagarðs er einnig hluti af uppbyggingunni. 

Rannsóknahúsið er um 17.500 fermetrar að stærð og fjórar hæðir ásamt kjallara, tæknisvæði er á fimmtu hæð og hugmyndir eru einnig um möguleika á þyrlupalli. Í rannsóknahúsi hins nýja spítala sameinast öll rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað.

Teikning af rannsóknahúsi Landspítala sem rísa mun vestan við Læknagarð. MYND/Nýr Landspítali

Starfseiningar í rannsóknahúsi verða lífsýnasafn, meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða- og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði og sýkla- og veirufræði. Starfsemi Blóðbanka mun einnig flytjast í bygginguna. Í tengslum við meinafræðieiningu verður líkhús og krufning og aðstaða fyrir réttarmeinafræði. Rannsóknahúsið tengist meðferðakjarna og öðrum byggingum spítalans með sérstöku rörpóstkerfi og göngum neðanjarðar. Með því munu deildir spítalans geta sent sýni til rannsókna í rannsóknahús á örfáum mínútum.

Jarðvinnu rannsóknahússins mun ljúka í upphafi næsta árs og í framhaldinu hefst uppsteypa. Stutt er einnig í að vinna við bílastæða- og tæknihús hefjist ásamt uppbyggingu bílakjallara á svæðinu. 

Hönnunarhópurinn Corpus eru aðalhönnuðir hússins að honum standa níu innlend og erlend hönnunarfyrirtæki. Aðaluppdrættir hússins liggja nú þegar fyrir og lok hönnunar eru á næsta ári.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tók í gær fyrstu skóflustungu að nýju rannsóknahúsi ásamt Páli Matthíassyni forstjóra Landspítala, Unni Brá Konráðsdóttur, formanni stýrihóps Landspítala, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands. Með þeim á myndinni eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fyrrverandi heilbrigðisráðherrarnir  Álfheiður Ingadóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Kristján Þór Júlíusson og Siv Friðleifsdóttir.