Skip to main content
9. desember 2021

Framfaraskref með nýjum umboðsmanni doktorsnema

Framfaraskref með nýjum umboðsmanni doktorsnema - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stofnað hefur verið embætti umboðsmanns doktorsnema við Háskóla Íslands sem verður hlutlaus aðili sem veitir doktorsnemum ráðgjöf og aðstoð varðandi lausnir á viðfangsefnum sem tengjast náminu og hugsanlegum vandamálum sem kunna að koma upp. Þetta eru mikilvægar umbætur í anda nýrrar stefnu skólans þar sem markmiðið er að hlúa vel að doktorsnemum  og styðja við trausta umsýslu með náminu.

„Umboðsmaður stuðlar að bættum samskiptum á milli doktorsnema og leiðbeinanda eða doktorsnefndar og leiðbeinir um verkferla í doktorsnáminu eftir því sem við á. Hans hlutverk er enn fremur að tryggja að doktorsnemar séu upplýsir um réttindi þeirra og skyldur. Fyllsta trúnaðar verður gætt í öllum samskiptum umboðsmanns og doktorsnema og málefnin unnin með hagsmuni doktorsnemans að leiðarljósi,“ segir Sveinn Guðmundsson sem ráðinn hefur verið til að sinna þessa nýja hlutverki innan skólans.  

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, segir nýja embættið mikið framfaraskref þar sem aukin áhersla verði lögð á að styrkja umgjörð doktorsnáms við Háskóla Íslands og að veita nemendum markvissari stuðning ef og þegar á þarf að halda.    

Félag doktorsnema og nýdoktora Háskóla Íslands (FeDoN) er meðal þeirra sem óskað hafa eftir embætti af þessum toga við HÍ en umboðsmenn doktorsnema eru víða til staðar í erlendum háskólum. Um er að ræða þróunarverkefni til eins árs en við lok næsta árs mun staða umboðsmanns verða endurmetin, m.a. út frá umfangi og eðli starfsins. 

„Meðal þess sem ég mun gera á næstunni er að kynna mér störf umboðsmanna í öflugum erlendum háskólum með það í huga að þróa starf umboðsmanns við Háskóla Íslands til sem mest gagns fyrir doktorsnema skólans,“ segir Sveinn sem lauk  doktorsprófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2017. Frá því Sveinn lauk námi hefur hann starfað við skólann sem jafnréttisfulltrúi ásamt því að sinna stundakennslu á Félagsvísindasviði HÍ. 

Hægt er að hafa samband við Svein í gegnum netfangið umbodsmadur@hi.is og í síma 525-4193.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu umboðsmanns
 

Sveinn Guðmundsson