Skip to main content
12. nóvember 2020

Forvarnarverkefnið Hugur og heilsa gefur góða raun 

Forvarnarverkefnið Hugur og heilsa gefur góða raun  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Alvarleg geðlægð eða þunglyndi er í þriðja sæti yfir þá sjúkdóma sem valda mestri efnahagslegri byrði í heiminum að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og árið 2030 er því spáð að hún verði dýrasti sjúkdómur tekjuhárra ríkja. Því fyrr sem alvarleg geðlægð gerir vart við sig, þeim mun líklegri eru endurteknar lotur geðlægðar síðar,” segir Eiríkur Örn Arnarson, prófessor emeritus og sérfræðingur í klínískri sálfræði. Hann hefur þróað forvarnarnámskeiðið Hug og heilsu sem ætlað er að draga úr líkum á alvarlegri geðlægð eða óyndi ungmenna.

Eiríkur kynnti verkefnið í erindi á Nýsköpunarviku 2020 sem Háskóli Íslands tók þátt í, en verkefnið er afrakstur ítarlegra rannsókna hans og samstarfsfélaga. Verkefnið hverfist um þunglyndi eða það sem á fræðimáli kallast alvarleg geðlægð (e. major depressive disorder). Hún tekur á sig ýmsar myndir í mismunandi aðstæðum, t.d. í tengslum við skammdegi, meðgöngu, barnsburð og líkamlega sjúkdóma.

Kynninguna má nálgast hér

Alvarleg geðlægð vaxandi vandamál

Til þess að greinast með alvarlega geðlægð þarf viðkomandi að hafa upplifað að minnsta kosti eina geðlægðarlotu og uppfylla að minnsta kosti fimm af níu afmörkuðum einkennum breytinga á líðan og hegðun. Meðal þessara einkenna eru depurð, áhugaleysi, markverð þyngdaraukning eða þyngdartap, svefnleysi, tilfinning um gagnsleysi, einbeitingarskortur og endurteknar hugsanir um dauða eða sjálfsvíg. Þá þarf einstaklingurinn einnig að hafa fundið fyrir mikilli vanlíðan eða verulega skertri starfshæfni.

Eiríkur bendir á að rannsóknir hafi sýnt að tíðni alvarlegrar geðlægðar meðal ungmenna fari vaxandi. „Geðlægð greinist yfirleitt ekki fyrr en um 14–15 ára aldur en þá verður vendipunktur þannig að um 18 ára aldur hafa um 15% ungmenna uppfyllt skilyrði fyrir alvarlegri geðlægðarlotu. Rannsóknir sýna enn fremur að mörg einkenni geðlægðar sextán ára unglinga spá í senn fyrir um nýgengi alvarlegrar geðlægðar og félagslega örðugleika við 24 ára aldur,“ segir Eiríkur.

Markverður árangur náðst með forvarnarnámskeiðinu hér og erlendis

Til þess að reyna að byrgja brunninn og vinna gegn þessari þróun bjuggu Eiríkur og samstarfsfélagar til forvarnarnámskeið sem byggist á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og er ætlað að spyrna við þróun alvarlegrar lotu geðlægðar hjá ungmennum. Leitað var samstarfs við grunnskóla í sex sveitarfélögum víða á landinu og nemendur í umræddum skólum skimaðir fyrir einkennum geðlægðar með sérstökum spurningalistum. Þeim nemendum sem voru með mörg einkenni geðlægðar án þess að hafa greinst með hana var boðin þátttaka í forvarnarnámskeiðinu, sem stóð í 10 vikur.

„Við fylgdum svo hópnum eftir, í lok námskeiðs, hálfu ári og ári síðar, og bárum hann saman við hóp sem ekki hafði setið námskeiðið en var að öðru leyti sambærilegur. Það reyndist marktækur munur á hópunum því þau sem ekki höfðu sótt námskeiðið reyndust fimm sinnum líklegri til að hafa þróað með sér meiri háttar geðlægðarlotu eða óyndi en þau sem höfðu setið námskeiðið,“ segir Eiríkur.

Námskeiðið hefur einnig verið rannsakað í Portúgal og var nánast sami árangur þar, að sögn Eiríks, og þá standa enn fremur yfir rannsóknir á gildi forvarnarnámskeiðsins í borgum í Grikklandi og Svíþjóð. „Sé litið til afleiðinga af alvarlegri geðlægð og óyndi, sem eru auknar líkur á bakslagi og að alvarleg geðlægð taki sig upp á ný, er ljóst hversu mikilvægt það er að grípa í taumana og reyna að koma í veg fyrir fyrstu lotu alvarlegrar geðlægðar hjá ungmennum. Jafnvel minnsti bati vegur þungt á vogarskálum einstaklinga og þjóða,“ bendir Eiríkur á.

Eiríkur ræddi hugmyndina á bak við Hug og heilsu í Morgunútvarpinu á Rás 2 á dögunum og þar sagði hann aðspurður að hann myndi vilja sjá fræðsluefnið tekið upp í skólum hér á landi. „Það er þegar verið að gera talsvert mikið. Landlæknir er með heilsueflingu en það er efni sem nær til alls skólans. Þetta verkefni hér beinist að þeim sem þegar eru komin með einkenni og þarf að aðstoða sérstaklega,“ sagði Eiríkur. Upptöku af viðtalinu má nálgast hér.  
 

Eiríkur Örn Arnarson