Skip to main content
12. júní 2018

Fjöltyngi og tungumálanám barna í brennidepli

Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um fjöltyngi og tungumálanám og kennslu unga barna dagana 13.-15. júní 2018 í Veröld, húsi Vigdísar.

Ráðstefnunni er ætlað að kynna og miðla því sem efst er á baugi í kennslu og rannsóknum á sviði fjölmenningar og tungumálanámi barna í leik- og grunnskóla í Evrópu og víðar.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar eru þrír, þau Roma Chumak-Horbatsch, dósent við Ryerson háskólann í Toronto í Kanada, Francis M. Hult, dósent við Háskólann í Lundi í Svíþjóð, og Gunhild Tomter Alstad, prófessor við INN-háskólann í Noregi (Inland Norway University of Applied Sciences).

Sjá nánar um erindi þeirra HÉR.

Á annað hundrað þátttakendur, hvaðanæva að úr heiminum, munu kynna hugmyndir og verkefni tengd tungumálanámi barna á ráðstefnunni. Flutt verða yfir hundrað erindi um fjölbreytt efni í þrjátíu málstofum. Einnig verða veggspjöld til sýnis og þau kynnt gestum í hádegishléi.

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, mun flytja ávarp við setningu ráðstefnunnar, og Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, mun slíta henni.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast í heild sinni HÉR.

Myndir frá ráðstefnunni.

Veröld, hús Vigdísar, mun iða af lífi dagana 13.-15. júní 2018 en þá verður haldin alþjóðleg ráðstefna um fjöltyngi og tungumálanám og kennslu unga barna.