Skip to main content
4. apríl 2023

Fjármagna þarf háskólastigið betur

Fjármagna þarf háskólastigið betur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskólar, fjármögnun þeirra og staða innanlands og alþjóðlega hefur verið mjög í umræðunni hérlendis undanfarnar vikur. Um nýliðna helgi var Jón Atli Benediktsson í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni þar sem hann ræddi m.a. framtíðarsýn skólans, stefnumál og fjármögnun. Í viðtalinu sagði Jón Atli að Háskólinn skrapaði botninn hvað fjármögnun varðaði sem væri auðvitað mjög alvarlegur hlutur. Hann fagnaði þó sérstaklega viðbótarfjármögnun til háskólastigsins í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar en hann tiltók að við Íslendingar værum samt ekki að ná meðaltali þess sem háskólar njóta innan OECD.

Í viðtalinu ræddi hann einnig áherslur sem fram hafa komið í viðtölum við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra háskólamála, í fjölmiðlum síðustu dagana en í þeim hefur verið vikið að erfiðri stöðu íslenska háskólakerfisins.

Jón Atli svaraði því til að meginþunginn í málflutningi ráðherra lyti að brýnni nauðsyn þess að fjármagna háskólakerfið betur. „Ég styð það heils hugar,“ sagði háskólarektor en hann benti á að vanfjármögnun væri stærsta mein alls háskólakerfisins á Íslandi.

Ör framþróun síðustu tvo áratugi

Háskólarektor hefur ítrekað bent á að gríðarleg framþróun hafi orðið í starfi HÍ undanfarin tuttugu ár og að met hafi verið slegin í fjölda nemenda og brautskráninga. Rektor hefur bent á að á þessum síðustu tveimur áratugum hafi Háskólinn orðið fullburða alþjóðlegur rannsóknaháskóli þar sem rannsóknaumsvif hafa aukist mjög og brautskráningar doktora hafi hvorki meira né minna en tuttugu- og tvöfaldast. Einnig hafi fjöldi erlendra nemenda við skólann fimmfaldast en þeir eru nú um 2000.

Í viðtalinu við Kristján Kristjánsson á Bylgjunni talaði hann á mjög svipuðum nótum. Hann sagði að doktorsnám við skólann hefði stutt verulega við rannsóknir innan hans á öllum sviðum. Jón Atli tiltók að skólinn sé með um sex hundruð doktorsnema og þar á pari við Norðurlöndin en doktorsnámið er að hans sögn gjarnan stutt sérstaklega með sjálfsaflafé.

Í viðtalinu benti háskólarektor enn fremur á að Vísindagarðar hefðu verið stofnaðir ekki alls fyrir löngu með nýsköpun að leiðarljósi og öflug tengsl við atvinnulíf. Samhliða uppbyggingu þeirra hefði orðið enn öflugri uppsveifla en áður á sviði nýsköpunar en rektor sagði að nýsköpunarhugsun væri miklu sterkari í starfi skólans en áður. Því til stuðnings nefndi hann það sérstaklega að ein króna til háskólanna skilaði sér áttföld út í samfélagið í formi alls kyns umbóta.

Matskerfi á stöðu háskólanna gagnleg en gölluð

Undanfarið hefur talsverð umræða verið um stöðu íslenskra háskóla á alþjóðlegum matslistum sem eiga að varpa ljósi á gæði kennslu og rannsókna innan þeirra.

Jón Atli svaraði því til í viðtalinu að HÍ nyti mikils trausts hér heima sem erlendis. Sigurför háskólanna undanfarin ár lægi ekki síst í því að þeir væru leiðandi á sumum rannsóknasviðum og í erlendu samstarfi. Þannig væri t.d. HÍ leiðandi innan alþjóðlegs nets háskóla, sem nefnist Aurora, sem væri dyggilega stutt af Evrópusambandinu til að umbreyta háskólastarfi í allri álfunni. Þá má geta þess að Jón Atli gegnir sjálfur formennsku í Samstarfsnefnd norrænna háskóla en Íslendingar leiða hana nú í fyrsta skipti.

Jón Atli fór yfir hvaða aðferðir eru notaðar við að meta háskóla á þessum alþjóðlegu matslistum – hann ræddi galla þeirra og kosti og tók það fram að það væri mikilvægt háskólum að vera á listunum með hliðsjón af því að efla erlent samstarf – ekki síst á sviði rannsókna. Hann tók það þó skýrt fram að aðferðafræðin við matið væri bjöguð eins og mörg mannanna verk. Rektor nefndi það sérstaklega að drjúgur partur af matinu á einum listanum liggi í viðhorfskönnun sem gerð er meðal háskóla um allan heim þar sem HÍ sé t.d. lítt þekktur.

Jón Atli sagði að Times Higher Ranking, sem er einn virtasti matslisti í heimi, væri t. a m. að breyta aðferðafræði sinni vegna gagnrýni sem fram hefði komið á listann á síðustu árum.

Rektor sagði að Háskóli Íslands væri alhliða háskóli þar sem öll fræðasviðin fimm væru afar mikilvæg og að skólinn legði mikla áherslu á þverfræðileikann. „Okkar sterkustu greinar - og þar höfum við eitthvað sem tengist menningu, sögu, samfélagi og tungu - þetta mælist ekki mjög vel á þessum listum.“

Minni rannsóknaafköst á sviði klínískra heilbrigðisvísinda

Varðandi breytingar á röðun HÍ nefndi Jón Atli það sérstaklega að rannsóknir hefðu dregist saman á sviði klínískra heilbrigðisvísinda og skýrði það að hluta með því gríðarlegu álagi sem hefði verið á starfsfólk Landspítala sem er einn helsti samstarfsaðili HÍ á sviði rannsókna. Þau sem stundi rannsóknir samhliða praktískum störfum þar hefðu þannig ekki náð að sinna vísindastarfi með sama hætti og áður. Jón Atli sagði að Landspítalinn væri í raun stærsta kennslustofa Háskóla Íslands og því væri gríðarlega mikilvægt að efla hann.  

Sameiningar?

Þegar Kristján Kristjánsson, þáttastjórnandi í Sprengisandi, vék spjallinu að mögulegri sameiningu háskóla sagði Jón Atli að HÍ væri vissulega tilbúinn að ræða slíkt enda væri samstarfið á milli háskólanna allra mjög gott en aðalatriðið væri að reka hér gott háskólakerfi sem skilaði miklu til íslensks samfélags.  

„Háskóli Íslands er ekki fílabeinsturn,“ sagði Háskólarektor í viðtalinu, „við hlustum á samfélagið og reynum stanslaust að svara þeirri spurningu hvernig skólinn þjóni samfélaginu sem best.“

Jón Atli Benediktsson