Skip to main content
4. febrúar 2019

Fimm verkefni nemenda tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

""

Nemendur við Háskóla Íslands koma að öllum fimm öndvegisverkefnunum sem tilnefnd eru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands en þau verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum miðvikudaginn 6. febrúar. Verkefnin eru afar fjölbreytt og snerta bráðar endurinnlagnir á geðdeild, mígreni, hugbúnað sem nýtist við röðun skurðaðgerða, eflingu máls og læsis á frístundaheimilum og þróun á algrími til að finna örvökur í sofandi einstaklingum.

Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2018. Eins og fram kemur á heimasíðu Rannís, sem hefur umsjón með sjóðnum, eiga öndvegisverkefnin það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en þau eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. „Þessi fjölbreytni endurspeglar ennfremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi leggja stund á,“ segir einnig á vef Rannís.

Eftirfarandi verkefni eru tilnefnd til verðlaunanna:
Áhættureiknir fyrir bráðar endurinnlagnir sjúklinga á legudeildir geðsviðs Landspítala
Á geðsviði Landspítala er hlutfall bráðra endurinnlagna (endurinnlagna innan 30 daga frá útskrift) hátt og úrbætur geta verið dýrar. Til að hjálpa meðferðaraðilum að miðla úrbótum á skilvirkan máta var þróaður áhættureiknir til að spá væntum líkum á bráðri endurinnlögn sjúklings við útskrift. Tvö líkön voru þróuð, eitt fyrir sjúklinga í sinni fyrstu innlögn og annað fyrir endurteknar komur. Áhættureiknirinn er einfaldur í notkun og styðst við skýribreytur sem starfsfólk Landspítalans getur hæglega nálgast. 

Verkefnið unnu þeir Brynjólfur Gauti Jónsson og Þórarinn Jónmundsson, nemar við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Ragnar Pétur Ólafsson, dósent við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, Sigrún Helga Lund, tölfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu, og Thor Aspelund, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

Hlutverk heilahimnumastfrumna í mígreni
Mígreni er mjög algengur kvilli sem hefur mikil áhrif á daglegt líf fólks, en um 15% fullorðinna þjást af mígreni og þar af fá um 10% vikuleg köst. Þær meðferðir sem standa til boða í dag hafa ekki borið árangur nema fyrir um helming sjúklinga og frekari rannsókna er því þörf, m.a. til að bera kennsl á lyfjamörk fyrir þróun nýrra lyfja.

Verkefnið hverfist um svokallaðar mastfrumur sem finna má í heilahimnum milli heila og höfuðkúpu. Mastfrumur seyta m.a. svokölluðum örverudrepandi peptíðum og í þessu verkefni var seyting örverudrepandi peptíðsins CRAMP (cathelin related antimicrobial peptide) könnuð en fyrri rannsóknir hafa sýnt að CRAMP virkjar mastfrumur. Það þýðir að mastfruma sem losar CRAMP getur mögulega virkjað sjálfa sig og magnað upp eigið svar. Niðurstöður verkefnisins sýndu að virkjaðar heilahimnumastfrumur seyta CRAMP og það gerðu jafnframt aðrar frumur í heilahimnum. Það er talið benda til þess að CRAMP gegni mikilvægu hlutverki í mígreni og sé gagnlegt lyfjamark í meðferð gegn mígreni en frekari rannsókna á þessu sambandi er þó þörf.

Verkefnið vann Valgerður Jakobína Hjaltalín, nemandi við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Pétur Henry Petersen, dósent við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.
 
Hugbúnaður til aðstoðar við röðun skurðaðgerða
Röðun skurðaðgerða er mikilvægt og flókið verkefni og hingað til hefur skort sérhæfð og notendavæn verkfæri sem taka samtímis tillit til breytileika í lengd skurðaðgerða og legutíma, óvissu um fjölda bráðatilfella og takmarkanir á gjörgæslu- og legurýmum. Markmið þessa verkefnis var að smíða frumgerð að hugbúnaði til aðstoðar við röðun skurðaðgerða á Landspítala. Meginviðfangsefnið var að þróa myndræna framsetningu upplýsinga og gagnvirkt notendaviðmót sem auðveldar vinnu við röðun og getur bætt nýtingu skurðstofa og legurýmis um leið og dregið er úr hættu á frestunum. Afurð verkefnisins er komin í notkun og hefur þegar haft áhrif á verkferli röðunar á Landspítala.

Verkefnið unnu Andri Páll Alfreðsson og Gunnar Kolbeinsson, nemendur við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, og Helgi Hilmarsson, nemi við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson dósent og Tómas Philip Rúnarsson prófessor, báðir við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, og Vigdís Hallgrímsdóttir, verkefnisstjóri á aðgerðasviði Landspítala.

Nýjar leiðir í innleiðingarferli stefnumótunar við eflingu máls og læsis á frístundaheimilum

Markmið verkefnisins var að skoða hvort tækifæri væru til eflingar máls og læsis á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Á grunni rannsóknar var hönnuð og gefin út handbókin Frístundalæsi til að styðja starfsfólk frístundaheimila með fjölbreyttum leiðum til að efla læsi barna. Handbókin stendur öllum til boða endurgjaldslaust.

Helstu niðurstöður verkefnisins benda til þess að margskonar tækifæri séu til staðar á frístundaheimilum til eflingar máls og læsis. Þegar er hafin kynning á verkefninu meðal starfsfólks og stjórnenda frístundaheimila í Reykjavíkurborg og áform eru um að fara út á land einnig. 

Verkefnið unnu þær Fatou N’dure Baboudóttir, nemi við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, og Tinna Björk Helgadóttir, nemi við Stjórnmálafræðideild skólans, í samstarfi við og með stuðningi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Umsjónarmaður verkefnisins var Margrét S. Björnsdóttir, aðjunkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. 

Þróun á algrími til að finna örvökur í sofandi einstaklingum með því að skoða önnur lífmerki en heilarit og sannprófun á aðferð til að greina orsakir kæfisvefns með stóru gagnasafni

Verkefnið fól í sér þróun á nýrri sjálfvirkri greiningaraðferð, sem byggist á gervigreind, til að finna örvökur í svefni. Örvökur eru stutt tímabil í svefni sem einkennast af breytingu í heilavirkni, og er mikilvægt að greina þær til að meta svefngæði og svefntengda sjúkdóma. Í hefðbundinni svefnrannsókn eru tekin upp ýmis lífmerki og eru þau greind af sérfræðingi til að finna meðal annars örvökur. Sjálfvirk greining á örvökum er sérstaklega erfið þar sem einkenni örvaka geta verið ólík milli einstaklinga og töluvert ósamræmi er í greiningum sérfræðinga. Sjálfvirka greiningaraðferðin sem þróuð var í verkefninu felur í sér að vinna úr lífmerkjum, svo sem  öndunarmerkjum og heilalínuriti, og reikna úr þeim ýmsa tölfræðilega eiginleika. 

Verkefnið unnu þau Eysteinn Gunnlaugsson, nemi við Kungliga Tekniska högskolan í Svíþjóð, Hanna Ragnarsdóttir, nemi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, Heiðar Már Þráinsson, nemi við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands og Róbert Ingi Huldarsson, nemi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Halla Helgadóttir og Jón Skírnir Ágústsson, yfirmenn á rannsóknarsviði Nox Medical.

Eitt þessara verkefna hlýtur Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands á miðvikudag en þetta verður í 24. sinn sem verðlaunin eru veitt.

Nánari upplýsingar um verkefnin má nálgast á vef Rannís.

frá háskólasvæðinu