Skip to main content
23. maí 2024

ERC-styrkhafar við HÍ fá verðlaun fyrir frumkvæði og forystu

ERC-styrkhafar við HÍ fá verðlaun  fyrir frumkvæði og forystu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðstandendur þeirra rannsóknarverkefna innan Háskóla Íslands sem hlotið hafa veglega styrki frá Evrópska rannsóknaráðinu (European Research Council, ERC) á undanförnum árum hljóta að þessu sinni verðlaun skólans fyrir frumkvæði og forystu. Verðlaunin voru afhent af Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, á ársfundi skólans núna í morgun. Árangur vísindafólksins sem varð verðlaunað hefur verið afar glæsilegur og í samræmi við þau markmið HÍ að afla stórra rannsóknarstyrkja eins og ERC-styrkja. Með slíkum styrkjum er skotið enn frekari stoðum undir öflugt vísindastarf á Íslandi og í alþjóðlegu samstarfi.

„ERC-styrkirnir eru afar eftirsóttir og aðeins veittir framúrskarandi vísindafólki,“ sagði Jón Atli við verðlaunaafhendinguna í morgun. „Öllum er frjálst að sækja um slíka styrki en krefjandi forval fer fram áður en umsækjendur komast í þrengri hóp. Háskóli Íslands hefur á síðustu árum lagt aukna áherslu á að veita umsækjendum um rannsóknastyrki markvissan stuðning og er árangurshlutfall skólans til marks um að sú vinna sé að skila sér.“

Verðlaunin voru nú afhent í sjötta sinn. Þau eru veitt hópum eða teymum sem þykja hafa sýnt  sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu framúrskarandi starfs innan skólans. Handhafar verðlaunanna eru valdir í sameiningu af rektor og forsetum allra fimm fræðasviða Háskóla Íslands.

Hörð samkeppni um ERC-styrkina

Meginmarkmið ERC er að hvetja til hágæðagrunnrannsókna í Evrópu og samkeppni um styrki frá ráðinu er gríðarhörð. Árlega berast þúsundir umsókna en aðeins lítill hluti þeirra fær styrk. Átta vísindamenn sem starfa við eða tengjast Háskóla Íslands hafa á undanförnum árum fengið slíka styrki ásamt rannsóknarhópum sínum. Þeir starfa á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands.
Verðlaunahafarnir eru:

Anton Karl Ingason
Dósent í íslenskri málfræði og máltækni
ERC-styrkur til að skýra hvernig málnotkun fólks breytist á lífsleiðinni 
Fjáhæð styrks í evrum: 1,5 milljónir

Bernharð Örn Pálsson
Gestaprófessor við HÍ í kerfislíffræði
ERC-styrkur til að stofna rannsóknasetur í kerfislíffræði við HÍ
Fjáhæð styrks í evrum: 2,4 milljónir

David Loc Daniel Reimer
Prófessor í félagsfræði menntunar 
ERC-styrkur til að auka jöfnuð í menntakerfum í ýmsum löndum
Fjáhæð styrks í evrum: 2 milljónir

Jón Emil Guðmundsson
Lektor í stjarneðlisfræði
ERC-styrkur til koma upp háþróaðri
tilraunaaðstöðu í HÍ til að hanna örbylgjusjónauka framtíðarinnar
Fjáhæð styrks í evrum: 2 milljónir

Pétur Orri Heiðarsson
Dósent í lífefnafæði
ERC-styrkur: Frá stökum 
lífsameindum til 
frumuforritunar
Fjárhæð styrks í evrum: 1,5 milljónir

Sigurður Yngvi Kristinsson
Prófessor í blóðsjúkdómafræði
Tveir ERC-styrkir vegna verkefnisins Blóðskimun til bjargar – Þjóðarátak gegn mergæxlum
Fjáhæð styrkja í evrum: 2 milljónir og 1,5 milljónir

Unnur Anna Valdimarsdóttir
Prófessor í faraldsfræði
ERC-styrkur til að rannsaka
áhrif áfalla á heilsufar 
Fjáhæð styrks í evrum:  2 milljónir 

Þórhallur Magnússon
Rannsóknaprófessor í í tilraunakenndum hugvísindum
ERC-styrkur fyrir snjallhljóðfæri:
Að skilja gervigreind 21. aldar gegnum skapandi tónlistartækni 
Fjárhæð styrks í evrum: 2 milljónir

Verðlaunahafar í Hátíðasal skólans