Skip to main content
30. apríl 2020

Endurskoðun samkomubanns

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Með samstilltu átaki hefur náðst afar stór áfangi í baráttunni við heimsfaraldurinn sem nú geisar. Næstkomandi mánudag tekur gildi tilslökun á samkomubanni síðustu vikna sem hefur haft gríðarleg áhrif á allar athafnir okkar. Við megum þó alls ekki gleyma okkur því þótt sigur hafi unnist í mikilvægri orrustu með seiglu og samstöðu þá er stríðið ekki enn að baki. Munum að við erum öll Almannavarnir og berum ábyrgð sem einstaklingar á að lífsnauðsynlegum reglum sé fylgt.

Frá og með 4. maí verða byggingar Háskóla Íslands almennt opnar nemendum og starfsfólki eins og lýst er á COVID-19 síðu skólans. Til að draga úr smithættu er fjöldi sæta á Háskólatorgi, í lesrýmum og tölvuverum takmarkaður samkvæmt tveggja metra reglunni. Jafnframt er hámarksfjöldi í einstökum rýmum takmarkaður við 50 manns. Þetta fyrirkomulag gildir í öllum byggingum Háskólans. 

Ég hvet ykkur til að kynna ykkur vel upplýsingar frá neyðarstjórn skólans um aðgengi og vinnutilhögun en þar er m.a. starfsfólki með undirliggjandi sjúkdóma og í áhættuhópum bent á að vinna heima. 

Í síðustu viku var tilkynnt um að brautskráning kandídata fari fram laugardaginn 27. Júní, en nánari upplýsingar um tilhögun brautskráningarinnar og afhendingu prófskírteina verða sendar út á næstunni.

Vinna stendur yfir við útfærslu sumarnáms og sumarstarfa nemenda. Í því skyni verður m.a. send út vefkönnun til starfsfólks til að kortleggja möguleika á sumarstörfum. 

Ég vil ítreka þakkir mínar til nemenda og starfsfólks fyrir hversu vel hefur tekist til með prófahald en það hófst með nýju lagi sl. föstudag. Ég óska nemendum áfram góðs gengis í prófunum.

Veðrið hefur verið einstakt síðustu dagana hér í höfuðborginni og hefur það haft góð áhrif á andlega líðan. Margir finna til léttis í sólskini vorsins og söng fuglanna sem eru hingað komnir, margir langt að. „Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu“, orti Jónas Hallgrímsson. Enn er samt bið á að við sjálf getum flogið yfir hafið á þann hátt sem okkur lystir. Við lesum daglega fréttir af uppsögnum og erfiðleikum í rekstri. Þetta hefur gríðarleg áhrif á líf margra og bætist ofan á annað síðustu vikurnar. Höfum í huga að við erum í tímabundnum erfiðleikum. Seigla og samstillt átak allra mun skila okkur áfram á grunni traustrar menntunar og rannsókna. 

Njótið helgarinnar, kæru nemendur og samstarfsfólk, eins og unnt er þrátt fyrir aukið álag. Höfum alltaf augun á öllu því góða sem gefur lífinu gildi. 

Með kærri kveðju,

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Nemendur á leið í skóla