Skip to main content
5. febrúar 2020

Cynthia Enloe sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Mála- og menningardeild

Cynthia Enloe sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Mála- og menningardeild - á vefsíðu Háskóla Íslands

Cynthia Enloe, rannsóknaprófessor við Clark-háskóla í Bandaríkjunum, hefur verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Enloe er heimsþekkt fyrir femíníska greiningu sína á hernaðarhyggju, stjórnmálum og hnattvæðingu og hefur stundað rannsóknir víða um heim, þar á meðal í Írak, Afganistan og ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu. Hún hefur verið gestakennari við Alþjóðlega Jafnréttisskólann (GEST) á hverju ári frá stofnun hans og er framlag hennar til uppbyggingar skólans margþætt. Með starfi sínu hefur hún haft umtalsverð áhrif á fræðimenn og grasrótarstarf á sviði jafnréttismála hér á landi og í samstarfslöndum skólans. (Hér er hægt að skoða myndir frá athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu 4. febrúar).

Cynthia er höfundur fimmtán bóka, m.a. Maneuvers: The International Politics of Militarizing Women's Lives (2000), The Curious Feminist (2004) og Nimo's War, Emma’s War: Making Feminist Sense of the Iraq War (2010). Nýjasta bók hennar er The Big Push: Exposing and Challenging Persistent Patriarchy (2017).  Þar má greina áhrif af reynslu hennar á Íslandi, en hún segist m.a. hafa fengið innblástur frá Jafnréttisskólanum auk þess sem málverk eftir Karólínu Lárusdóttur prýðir bókarkápuna. Í bókinni Investigating Crashes and Crises as if Women Mattered  (2013) vísar hún m.a. í íslenska bankahrunið og er einn kaflinn að stórum hluta tileinkaður Íslandi. Hann birtist í íslenskri þýðingu í ritröð RIKK, Fléttur, árið 2014.

Cynthia Enloe er prófessor emeritus við deild alþjóðlegra þróunar-, samfélags- og umhverfismála (IDCE) í Clark-háskólanum í Worcester, Massachusetts, en staða hennar heyrir undir stjórnmálafræði- og kvenna- og kynjafræðisvið háskólans. Hún hefur m.a. gegnt Fulbright- stöðu í Malasíu og Gvæjana, stöðu gestaprófessors í Japan, á Bretlandi, í Kanada, Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Verk hennar hafa verið þýdd á íslensku,  spænsku, tyrknesku, frönsku, portúgölsku, japönsku, kóresku, tékknesku, sænsku og þýsku. Enloe á sæti í ritnefnd International Feminist Journal of Politics, Security Dialogue, Women, Politics and Policy, International Political Sociology, Critical Military Studies og Politics and Gender og er félagi í fjölþjóðlegum hópi fræðimanna í Alþjóðasambandi kvenna fyrir friði og frelsi (Women‘s International League for Peace and Freedom –  WILPF). Loks hefur hún hlotið margvíslegar viðurkenningar alþjóðlegra fræðisamtaka fyrir störf sín og árið 2017 var hún valin í virtan hóp baráttufólks sem fær nafn sitt skráð á „vegg arfleifðar um kynbundið réttlæti“ (e. Gender Justice Legacy Wall) sem er í húsakynnum Alþjóðadómstólsins í Haag.

"Cynthia Enloe og gestir í Hátíðasal Háskóla Íslands."
"Cynthia Enloe og gestir í Hátíðasal Háskóla Íslands."
"Cynthia Enloe og gestir í Hátíðasal Háskóla Íslands."
"Cynthia Enloe í Hátíðasal Háskóla Íslands."