Skip to main content
14. september 2020

COVID-19-smit í Háskóla Íslands

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (14. september):

„Kæra samstarfsfólk og nemendur.

Um helgina var staðfest COVID-19 smit hjá starfsmanni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Gripið hefur verið til allra nauðsynlegra ráðstafana í samstarfi við smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis til að hindra útbreiðslu smitsins og gæta þannig fyllsta öryggis starfsfólks og nemenda. Smitrakningarteymið hefur haft samband við alla sem þurfa að fara í sóttkví og eru það rektor og tveir aðrir starfsmenn í Aðalbyggingu. Starfsstöðvar þeirra sem eru í sóttkví hafa verið sótthreinsaðar rækilega. 

Í ljósi stöðunnar er eðlilegt að starfsfólk og nemendur kunni að hafa spurningar og í þeim tilvikum er hvatt til að hafa samband við Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu (mb@hi.is), Ragnhildi Ísaksdóttur, sviðsstjóra mannauðssviðs (ragnhildurisaks@hi.is) eða Snorra Pál Davíðsson, öryggisfulltrúa skólans (spd@hi.is). 

Þetta sýnir okkur að þótt nýsmitum fari til allrar hamingju fækkandi innanlands er faraldrinum langt í frá lokið.  Ég vil því hvetja ykkur öll, kæra samstarfsfólk og nemendur, til að nota rafræna kosti til fundarhalda og fylgja reglum sóttvarnaryfirvalda í einu og öllu. Gætum áfram fyllsta hreinlætis og höldum að minnsta kost eins metra lágmarksbili á milli okkar. Ef við finnum fyrir minnstu einkennum eigum við í öllum tilvikum að halda okkur heima. Einnig vil ég hvetja starfsfólk til að nota fjarfundi eins og kostur er til að lágmarka smithættu. 

Ég minni á að ef starfsfólk finnur fyrir vanlíðan vegna faraldursins er boðið upp á stutt fjarfundarviðtöl við sérfræðinga hjá Auðnast. Tilgangurinn er m.a. að gefa fólki færi á að létta á áhyggjum sínum og þiggja stuðning. Frekari upplýsingar fást hjá mannauðsþjónustu í einingum ykkar eða í Aðalbyggingu.

Þá minni ég á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir nemendur og hvet ég þau ykkar sem finnið til kvíða vegna aðstæðna að bóka tíma á netinu en í sálfræðiþjónustunni er veittur stuðningur í einstaklingsviðtölum.

Gangi ykkur öllum vel í vikunni framundan. 

Með kærri kveðju,

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

""