Skip to main content
29. apríl 2022

Broskallar vinna með Hringfaranum að því að fjölga háskólanemum í Afríku

Broskallar vinna með Hringfaranum að því að fjölga háskólanemum í Afríku - á vefsíðu Háskóla Íslands

Styrktarfélagið Broskallar, sem hverfist í kringum kennslukerfi í raunvísindum sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa þróað, tók á dögunum við fimm milljóna króna styrk frá Hringfaranum Kristjáni Gíslasyni sem nýttur verður til þess að hjálpa nemendum á fátækustu svæðum Afríku að komast í háskóla. Fyrir tilstilli styrktarfélagsins, bakhjarla þess og kennslukerfisins gátu nemendur í Kenía m.a. sótt sér menntun þrátt fyrir að skólum í landinu hefði verið lokað vegna kórónuveirufaraldursins.

Kennslukerfið nefnist tutor-web og hefur að geyma kennsluefni, m.a. í stærðfræði, tölfræði og tölvunarfræði, ásamt æfingum sem aðstoða nemendur við að tileinka sér námsefnið. Kerfið þróuðu Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ, og Anna Helga Jónsdóttir, dósent við sömu deild, í samstarfi við tölvunarfræðinga. Það hefur undanfarinn áratug verið nýtt í tölfræði- og stærðfræðikennslu bæði í Háskóla Íslands og framhaldsskólum hér á landi og sömuleiðis í skólum í Kenía í gegnum verkefnið „Menntun í ferðatösku“ (e. Education in a suitcase) sem sett var á laggirnar í samstarfi við þarlenda fræðimenn.

Gunnar Stefanson

Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ og upphafsmaður broskallaverkefnisins. MYND/Kristinn Ingvarsson

Umbun í formi Broskallamyntar

Tutor-web hefur að geyma umbunarkerfi sem felst í því að nemendur sem standa sig vel í verkefnum vinna sér inn rafmyntina Broskalla  (e. SmileyCoin) sem hægt er að geyma í rafrænu veski og nýta má til að kaupa vöru eða þjónustu af ýmsu tagi. Styrktarfélagið Broskallar heldur utan um þessa afleiðu tutor-web verkefnisins og er Háskóli Íslands meðal bakhjarla þess og á fulltrúa í stjórn styrktarfélagsins. 

„Styrktarfélagið Broskallar safnar fé til að hjálpa nemendum í fátækrahverfum í Afríku, mest í Kenía, til að komast í háskóla með því að gefa þeim tækifæri til að æfa sig og ná þannig þeirri kunnáttu sem þarf til að standast inntökupróf í háskóla. Önnur hliðarstarfsemi er Smiley Invest ehf. stofnað til að auðvelda fjárfestum að styðja við starfsemina í Kenía með því að kaupa Broskalla á markaði. Félagið á þegar einn milljarð Broskalla og á reglulega fundi með fjárfestum til að ná fleiri bakhjörlum,“ útskýrir Gunnar og bætir við að notkun tutor-web kerfisins og Broskallanna hafi verið geysilega mikil.

nemendur

Kenískir nemendur glíma við verkefni í tutor-web kerfinu. MYND/Broskallar

Starfsemin í Kenía fer fram í gegnum verkefnið „Menntun í ferðatösku“ en það inniheldur spjaldtölvur fyrir nemendur og þjón (server) sem geymir námsefni tutor-web. Það er ekki síst hugsað fyrir framhalds- og háskóla þar sem netaðgangur er takmarkaður og rafmagn óstöðugt. „Styrktarfélagið gaf upphaflega spjaldtölvur í skóla og veitti þannig nemendum aðgang að kennsluefni í kennslukerfinu tutor-web, en þar er m.a. að finna æfingar í námsefni til stúdentsprófs í Kenía,“ segir Anna Helga.

Kerfið nýttist vel í kórónuveirufaraldrinum

Keníumenn fóru ekki frekar en Íslendingar varhluta af kórónuveirufaraldrinum síðustu tvö ár en í Kenía var m.a. gripið til þess ráðs að loka skólum í heilt ár vegna útbreiðslu veirunnar. „Þá færðum við starfsemina í almenningsbókasöfn sem voru ekki lokuð. Þá fá söfnin nokkrar spjaldtölvur sem þau lána nemendum og nemendur fá Broskalla fyrir verkefni sem þau leysa á tölvunum í gegnum tutor-web. Fyrir rafmyntina geta nemendur keypt smávöru eins og ávexti, snarl, matvöru, skafmiða fyrir gagnamagn, dömubindi, matvörur fyrir fjölskyldur sem eiga ekki fyrir mat og jafnvel spjaldtölvuna sjálfa,“ útskýrir Gunnar og bætir við að bókasafnsaðferðin sé nú notuð á um 20 stöðum í Kenía og notendur um 1500 talsins.

nemendur

Nemendur með matvöru sem keypt er fyrir Broskalla. MYND/Broskallar

Gunnar bendir á að eitt af vandamálum styrktarfélaga í Afríku sé að tryggja að það fé sem safnast fari á rétta staði í Afríkulöndum en með því að nota rafmynt og svokallaðar bálkakeðjur megi tryggja það. „Hver spjaldtölva er t.d. merkt með sínum QR-kóða og nýjar eru ekki sendar á bókasafn nema eldri hafi verið seldar fyrir Broskalla,“ útskýrir hann og bætir við að ekkert kerfi í heiminum sé sambærilegt tutor-web og engin umbun sambærileg við Broskalla sé til í öðrum vefkerfum.

Í kórónuveirufaraldrinum færðu Gunnar og samstarfsfólk starfið í Kenía inn á almenningsbókasöfn. „Þá fá söfnin nokkrar spjaldtölvur sem þau lána nemendum og nemendur fá Broskalla fyrir verkefni sem þau leysa á tölvunum í gegnum tutor-web. Fyrir rafmyntina geta nemendur keypt smávöru eins og ávexti, snarl, matvöru, skafmiða fyrir gagnamagn, dömubindi, matvörur fyrir fjölskyldur sem eiga ekki fyrir mat og jafnvel spjaldtölvuna sjálfa,“ útskýrir Gunnar

Hringfarinn styrkir verkefnið með ýmsum hætti 

Hringfarinn Kristján Gíslason ætti að vera flestum landsmönnum kunnur en hann hefur vakið mikla athygli fyrir þætti sem hann hefur unnið um hringferð sína um jörðina og sýndir hafa verið á RÚV. Á ferð sinni um Kenía heimsótti Kristján nokkra þátttakendur í Broskallaverkefninu og gerði því góð skil, bæði í bókinni Andlit Afríku sem kom nýverið út og í fjórða þætti sjónvarpsraðarinnar um Afríkuferðina. Kristján og kona hans, Ásdís Baldursdóttir, hafa enn fremur sett á fót styktarsjóð sem ætlað er að styðja við ýmis málefni, bæði hér heima og úti í heimi.

Kristján og Ásdís

Hringfarinn Kristján Gíslason ásamt konu sinni, Ásdísi Baldursdóttur, við afhendingu styrkja í Iðnó á dögunum. MYND/Facebook-síða Hringfarans

Sjóður þeirra hefur þegar styrkt tækjakaup fyrir tvö bókasafnanna í Kenía og á dögunum bættu þau um betur og styrktu Broskallaverkefnið um fimm milljónir króna. Markmiðið með stuðningnum er ekki síst að það nái til fleiri staða sem Kristján heimsótti á ferð sinni um endilanga Afríku. Kristján og Ásdís afhentu forsprökkum Styrktarfélagsins Broskalla styrkinn fyrir síðustu helgi. 

kona

Ung kona í Kenía með spjaldtölvu sem keypt er með Brosköllum sem fengust fyrir að reikna dæmi. MYND/Broskallar

„Hringfarinn hefur líka tengt saman hjálparstarf ólíkra íslenskra samtaka, t.d. vinnur Styrktarfélagið Broskallar nú með ABC Barnahjálp og Íslensku barnahjálpinni þannig að skóli og heimavist á þeirra vegum hafa fullan aðgang að efni kennslukerfisins í gegnum spjaldtölvur sem Styrktarfélagið Broskallar útvegar fyrir tilstilli Hringfarans. Með þessu samstarfi getum við hjálpað enn fleiri nemendum á fátækustu svæðum heims að komast inn í háskóla,“ segir Anna Helga enn fremur. 

Kennslukerfið til fleiri landa Afríku

Verkefni Styrktarfélagsins Broskalla hefur einnig stuðlað að auknum tækifærum fyrir stúlkur til náms í í Kenía. Í Moyale, sem er fátækt og hrjóstrugt svæði við landamæri Eþíópíu, gripu bókasafnsverðir t.d. til íhlutunarverkefnis til að fjölga stúlkum. „Kvenkyns bókavörður var ráðinn og hún tók að sér að ganga hús úr húsi til að útskýra fyrir foreldrum að dætrum þeirra væri óhætt að heimsækja bókasafnið. Við þetta fór hlutfall stúlkna úr 0 í 30%. Þar hafa enn fremur yfir 200 nemendur keypt spjaldtölvur fyrir Broskalla,“ segir Anna Helga. 

Anna Helga Jónsdóttir

Anna Helga Jónsdóttir, dósent við Raunvísindadeild. MYND/Kristinn Ingvarsson

Auk þess hefur kerfið verið tekið upp í skólum í flóttamannabúðum í Ifo og samið hefur verið um að það verið líka nýtt á bókasafni í Kakuma-búðunum í Turkana-fylki. Frekari landvinningar eru fyrirhugaðir á næstunni. „Verkefninu verður komið á laggirnir í þremur nýjum löndum í ár og næsta ári með styrkjum frá Hringfaranum, fyrst í Eþíópíu en síðan Malaví og Rúanda. ABC Barnahjálp hefur enn fremur ákveðið að prófa kerfið í Búrkína Fasó og þá leitar utanríkisráðuneytið leiða til að koma kerfinu í notkun í Úganda,“ segir Gunnar að endingu um þetta mikilvæga verkefni.

Gunnar Stefánsson ásamt Hringfaranum Kristjáni Gíslasyni við afhendingu styrkjanna á dögunum. MYND/Facebook-síða Hringfarans