Skip to main content
16. nóvember 2017

Betri svefn hlaut Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2017

Betri svefn, netmeðferð við svefnleysi varð hlutskörpust í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru í Hátíðasal skólans í dag. Þrjú önnur verkefni voru einnig verðlaunuð við þetta tilefni og nemur samanlögð upphæð verðlaunafjár fjórum milljónum króna.

Verðlaunin voru nú afhent í  20. sinn en markmið þeirra er að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir frá starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands og tengdum stofnunum. Tillögur hafa borist í samkeppnina frá fólki tengdu hinum fjölbreyttu fræðasviðum skólans undanfarin ár og engin undantekning var á því í ár.

Tuttugu og þrjár umsóknir voru sendar inn í keppnina að þessu sinni og kom það í hlut sérstakrar dómnefndar að fara yfir þær. Við matið horfði dómnefndin meðal annars til nýnæmis og frumleika, hversu fljótt væri unnt að hagnýta hugmyndirnar, hvort hagnýtingin styddi við stefnu og starfsemi Háskóla Íslands, hver ávinningur samfélagsins væri af hugmyndinni og hvernig verðlaunafé myndi nýtast við hagnýtingu verkefnisins.

Fyrstu verðlaun, að upphæð tvær milljónir króna, hlaut verkefnið Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi meðal skjólstæðinga heilsugæslunnar – árangur meðferðar og áhrif á svefnlyfjavísanir. Erla Björnsdóttir, nýdoktor við Læknadeild, leiðir verkefnið en að því hafa einnig unnið Tinna Karen Árnadóttir, læknir á heilsugæslu, Hálfdan Steinþórsson, framkvæmdastjóri Betri svefns, og Petra Lind Sigurðardóttir sálfræðingur.

Verkefnið hverfist í kringum vefsíðuna Betri svefn sem þegar hefur verið komið á fót. Hún hefur að geyma bæði fræðsluefni um m.a. svefn og svefnvenjur og fjarmeðferð við svefnleysi. Bent hefur verið á að svefnvandi er afar algengur og geta afleiðingar hans verið afdrifaríkar fyrir heilsu viðkomandi og um leið kostnaðarsamar fyrir bæði einstaklinginn og samfélagið. Hvergi á Norðurlöndunum er svefnlyfjanotkun meiri en á Íslandi en langvarandi svefnlyfjanotkun þykir afar óæskileg enda mælir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ekki með lyfjum sem fyrsta úrræði við svefnvanda. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að hugræn atferlismeðferð gagnast vel sem meðferðarúrræði við svefnvanda.

Meðferðin sem boðið er upp á inni á vefnum www.betrisvefn.is er fjarmeðferð við svefnleysi, sú fyrsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum. Næsta skref aðstandenda er að starfa með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þannig að skjólstæðingum hennar verði vísað á þessa meðferð og jafnframt að rannsaka hvort slíkt aðgengi að lyfjalausri meðferð geti dregið úr ávísun lyfja en um leið aukið lífsgæði þeirra sem við vandann hafa glímt.

Um verkefnið segir í umsögn dómnefndar: „Vandinn sem glímt er við er alvarlegur og aðferðin sem beitt er auðveldar aðgengi að einstaklingsmiðaðri og rannsóknastuddri þjónustu óháð efnahag og búsetu. Dómnefndinni þykir verkefnið mjög spennandi og telur miklar líkur á að niðurstöður verkefnisins verði hagnýttar samfélaginu til góða.“

Önnur verðlaun, að upphæð ein milljón króna, komu í hlut verkefnisins Skynbelti. Á bak við það stendur þverfaglegur hópur innan og utan Háskóla Íslands, þau Rúnar Unnþórsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild, Árni Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild, Rebekka Hoffmann, doktorsnemi í véla- og iðnaðarverkfræði, Kristján Bjarki Purkhús, aðstoðarmaður á Verkfræðistofnun, Ómar Jóhannesson, Vigdís Vala Valgeirsdóttir, doktorsnemi í sálfræði, og Joely Walford textílhönnuður.

Verkefnið snýst um að hanna belti sem ætlað er að hjálpa þeim sem hafa ekki skynfæri á borð við sjón eða heyrn. Beltið er sett utan um mitti notandans þar sem það nemur upplýsingar úr umhverfinu og miðlar þeim til notanda fyrir tilstilli lítilla mótora sem titra, hver með sínu lagi ef svo má segja – á afar einfölduðu máli. Beltið nýtist einnig þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki notað hefðbundin skynfæri tímabundið. Það getur átt við starfsfólk í ýmsum aðstæðum, eins og við reykköfun eða öryggisgæslu í hávaða. Að lokum má nefna að beltið má nota til þess að bæta upplifun í sýndarveruleika en flest öll belti eða vesti af svipuðum toga sem eru á markaðnum eru einmitt gerð fyrir leiki.

„Dómnefndin telur verkefnið sameina öflugt rannsóknastarf, möguleika á hagnýtingu og samfélagslegan ávinning. Verkefnið hefur verið þróað í samstarfi við alþjóðlega samstarfsaðila sem og innlenda hagsmunaaðila og ber árangurinn þess merki,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar.

Tvö verkefni fengu að þessu sinni þriðju verðlaun og aðstandendur þeirra hvorir um sig 500 þúsund krónur í verðlaunafé. Annað þeirra nefnist Næring móður og barns en hitt TARASÓL - þróun sólarverjandi efna úr þörungum.

Teymið á bak við Næringu móður og barns leiðir Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, en aðrir sem hafa lagt mikið af mörkum eru Laufey Hrólfsdóttir, doktorsnemi í næringarfræði, Þórhallur Ingi Halldórsson og Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessorar við Matvæla- og næringarfræðideild, Hildur Harðardóttir, dósent við Læknadeild, og Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir sérfræðiljósmóðir.

Í kringum rannsóknarstarfið sem verkefnið er byggt á hefur verið stofnað fyrirtæki með sama heiti. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fyrstu 1000 dagar lífsins, sem spanna þá meðgöngu og fyrstu tvö ár ævinnar, séu gríðarlega mikilvægir er kemur að næringu. Fósturskeiðið er eitt viðkvæmasta tímabil lífsins og snýst verkefnið um að nýta þá þekkingu sem er til staðar til að auðvelda verðandi mæðrum að velja hollan mat, sér og ófæddu barni sínu til góðs. Opnuð var vefsíðan www.nmb.is með það fyrir augum að annars vegar veita fræðslu um næringu og vöxt snemma á lífsleiðinni og hins vegar að bjóða verðandi mæðrum upp á einstaklingsmiðaða endurgjöf. Einstaklingsmiðuð næringarmeðferð sem þessi gengur skrefinu lengra en hefðbundnar ráðleggingar sem byggjast á almennri upplýsingagjöf og mætir þörf fyrir þjónustu sem ekki er fyrir hendi í íslensku heilbrigðiskerfi.

Dómnefndin segir verkefnið hafa afar sterka samfélagslega skírskotun og augljósa hagnýtingarmöguleika. „Skimunarlistinn og upplýsingarnar á vefnum eru afrakstur mikilla rannsókna og er það aðstandendum vefsins til sóma hversu vel er að upplýsingamiðluninni staðið. Verkefnið er gott dæmi um að verið sé að nýta afrakstur rannsókna innan Háskóla Íslands til að hafa áhrif þar sem miklu munar um þær.“

Að verkefninu TARASÓL - þróun sólarverjandi efna úr þörungum standa Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Kristberg Kristbergsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, Ragnhildur Einarsdóttir, doktorsnemi í matvælafræði, Kristján Einar Guðmundsson og Ágúst Kvaran, prófessor við Raunvísindadeild.

Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að þær sólarvarnir sem nú eru á markaði geti haft skaðleg áhrif á líkamann. Verkefnið sem hér um ræðir snýst um að þróa nýja sólarverjandi húðvöru sem er örugg og án skaðlegra efna. Nýnæmi TARASÓL felst annars vegar í þróun og einangrun sólarverjandi efna úr þörungum en rannsóknir sýna að sum þeirra lífvirku efna sem í þeim eru geti nýst vel til að verja húð fyrir skaðlegum áhrifum sólarljóss. Hins vegar felst nýnæmi í því að nýta náttúrulegar ferjur til að lengja líftíma efnanna og miða að því að þau komist á réttan stað í húðinni. Einnig er unnið að því að þróa aðferð til að opna ferjurnar eftir ákveðinn tíma í sólarljósi.

„Dómnefndin telur að verkefnið hafi verulega möguleika til að hagnýta rannsóknir sem hafa farið fram innan Háskóla Íslands til að mæta eftirspurn í samfélaginu. Verkefnið er lýsandi dæmi um hvernig frjó hugsun og vísindaleg aðferð geta í sameiningu skapað afurð sem bregst við vanda og skapar gæði fyrir bæði notendur og þá sem að vörunni standa,“ segir í umsögn dómnefndar.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, fyrirtækisins Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en síðastnefndu aðilarnir leggja sigurvegurum m.a. til sérfræðiráðgjöf auk þess að taka þátt í dómnefndarstörfum.

Vinningshafar Hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands ásamt formanni dómnefndar og rektor Háskóla Íslands