Skip to main content
22. júní 2019

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 22. júní 2019

""

Ávarp Jóns Atla Benediktssonar rektors við brautskráningu kandídata frá Háskóla Íslands í Laugardalshöll 22. júní 2019

Hagur Háskólans er þjóðarhagur Íslands.
Fyrrverandi rektorar, aðstoðarrektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, kæru kandídatar, aðrir góðir gestir.  

Það er sönn ánægja og forréttindi að fá að ávarpa svo glæsilegan hóp af ungu fólki á þessari hátíðarstundu sem við tileinkum framtíðinni.  Kæru kandídatar, þið hafið hvert og eitt sett ykkur krefjandi markmið, unnið markvisst að þeim um árabil, yfirstigið margs konar hindranir, og uppskerið nú eins og til var sáð.  Fyrir hönd alls starfsfólks Háskóla Íslands óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar innilega til hamingju með árangurinn.  Á háskólaárum ykkar, sem ég vona að þið munið ætíð minnast með hlýhug og þakklæti, hafið þið öðlast víðtæka þekkingu, lært nýjar aðferðir og ný vinnubrögð, eflt dómgreind ykkar og siðvit, öðlast dýpri sjálfsþekkingu og bundist vinaböndum sem seint eða aldrei munu slitna.  Þið eruð nú reiðubúin að takast á við nýjar áskoranir og munið þegar fram líða stundir gegna margvíslegum ábyrgðar- og leiðtogahlutverkum á vettvangi atvinnu- og þjóðlífs.  Dvölin í Háskóla Íslands hefur markað djúp spor í lífi ykkar og mótað ykkur til framtíðar.  Það hefur ekki síður verið lærdómsríkt fyrir starfsfólk Háskóla Íslands að vera samferða ykkur þennan áfanga og þökkum við ykkur gott og ánægjulegt samstarf.  

Háskólaárið sem senn lýkur hefur verið okkur öllum gjöfult.  Á skólaárinu 2018-2019 brautskráir Háskóli Íslands alls 2.799 nemendur, 1.512 úr grunnnámi, 1.287 úr framhaldsnámi og viðbótarnámi á meistarastigi og 80 hafa lokið doktorsprófi frá skólanum, æðstu prófgráðu sem háskólar veita.  Nemendum Háskólans fjölgaði umtalsvert á þessu skólaári og stefnir í enn meiri fjölgun á komandi ári.  Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að minnkandi eftirsókn í kennaranám á síðustu árum hefur verið rækilega snúið við með samstilltu átaki Háskólans, stjórnvalda og annarra hagsmunaaðila og stefnir í gríðarlega aðsókn að námi á Menntavísindasviði á komandi skólaári.  Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi kennarastarfsins í okkar samfélagi og er afar brýnt að það sé metið að verðleikum.

Margvíslegt þróunarstarf hefur verið unnið í Háskóla Íslands á skólaárinu.  Þannig eru til dæmis rafræn próf smám saman að leysa af hólmi hefðbundin próf við skólann og lagður hefur verið grunnur að nýju alþjóðlegu og heildstæðu námsumsjónarkerfi sem getur umbylt kennsluháttum á komandi misserum.  Þá er þátttaka Háskóla Íslands í edX-námsnetinu, sem stofnað var til af Harvard-háskóla og MIT um gerð vefkennsluefnis, farin að skila umtalsverðum árangri.  Yfir 10.000 nemendur frá yfir 120 löndum hafa skráð sig til náms í fyrstu netnámskeið okkar og eru þetta langfjölmennustu námskeið sem haldin hafa verið við Háskóla Íslands.  Einnig hefur þjónusta við verðandi háskólanema verið efld og þróaðar formlegar leiðir til að taka við ábendingum nemenda um hvernig bæta megi námið.  Ráðist hefur verið í stórátak til að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur, en innlendar og erlendar kannanir benda til að þar sé verk að vinna.  Þetta eru aðeins fáein dæmi um það gróskumikla umbótastarf sem starfsfólk Háskóla Íslands hefur unnið að á síðasta vetri. 

Kæru kandídatar, hugsjónir eru hreyfiafl umbóta, eins og glæst saga Háskóla Íslands síðastliðin 108 ár sýnir ljóslega.  Hið sama má segja um okkar unga lýðveldi sem fagnaði 75 ára afmæli síðastliðinn mánudag.  Hin fámenna og fátæka þjóð Íslendinga átti sér þá stóru hugsjón að vilja eignast háskóla meðal háskóla heimsins og að verða sjálfstæð þjóð meðal þjóða heimsins.  Án hugsjóna og stefnufestu blasir við stöðnun og afturför.  Þjóðskáld okkar, Jónas Hallgrímsson, víkur að þessu í kvæði sínu Ísland er hann segir: „Það er svo bágt að standa í stað, / og mönnunum munar / annaðhvort aftur á bak / ellegar nokkuð á leið“.  

Ein birtingarmynd þeirra almennu sanninda sem Jónas gerir hér að yrkisefni er að háskólar búa við samkeppni – vaxandi innlenda og erlenda samkeppni um nemendur, starfsfólk, styrki og fjárveitingar – og það er einfaldlega ekki í boði að láta staðar numið og sætta sig við fenginn hlut.  Til að halda í við aðrar þjóðir og bæta samkeppnisstöðu okkar verðum við sífellt að sækja fram.  En hugsjónir verða líka að vera jarðtengdar eigi þær að hvetja til góðra verka.  Þær þurfa að byggjast á raunsönnu mati á aðstæðum hverju sinni.  Í ræðu sem ég flutti fyrir fjórum árum er ég tók við embætti rektors lýsti ég hugsjón Háskóla Íslands og byggði þá meðal annars á fjölmörgum samtölum við starfsfólk og stúdenta skólans.  Lýsingin er svohljóðandi: „Háskóli Íslands er alhliða kennslu- og rannsóknaháskóli í fremstu röð á alþjóðlegum vettvangi sem hefur ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag og er einn af drifkröftum íslensks atvinnulífs.  Á öllum fræðasviðum sínum býður skólinn upp á prófgráður sem standast alþjóðlegan samanburð.  Akademískt frelsi og virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum liggja til grundvallar öllu starfi skólans.“  Víðtæk sátt er um þessa sýn innan Háskóla Íslands.  Háskólinn er í senn framsækinn alhliða kennsluháskóli og alþjóðlegur rannsóknaháskóli.  Þannig þjónar hann best íslensku samfélagi, leggur mest til atvinnulífsins, er aflvaki nýsköpunar og stuðlar að farsæld til framtíðar. 

Góðir gestir.  Nánast í viku hverri erum við minnt á ávinninginn sem samfélagið hefur af nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi.  Fyrr í þessum mánuði fluttu fjölmiðlar fréttir af því að hlutabréf í Marel hefðu verið tekin til viðskipta hjá Euronext-kauphöllinni í Amsterdam.  Af því tilefni var þess getið að hjá fyrirtækinu starfa um sex þúsund manns í 30 löndum við að þjónusta viðskiptavini í 180 ríkjum.  Markaðsvirði fyrirtækisins er nú um 420 milljarðar króna.  Vart þarf að taka fram að fyrirtæki á borð við Marel skapa gríðarlega fjölbreytt tækifæri fyrir háskólamenntaða einstaklinga úr ólíkum greinum.  Jafnframt minntu fjölmiðlar á að Marel ætti rætur að rekja til grunnrannsókna vísindasamfélagsins, að fyrirtækið hefði orðið til við það að frumkvöðlar við Háskóla Íslands og aðilar úr sjávarútvegi lögðu saman krafta sína.  Það er brýnt að halda þessu á lofti og að þeir fái að njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.  Miklu skiptir að við sköpum umhverfi þar sem frumkvöðlar Háskólans og aðilar úr atvinnulífinu fái tækifæri til að hagnýta hugvitið öllum til hagsbóta.  Hagur Háskólans er þjóðarhagur Íslands.

Um allan heim er nú í vaxandi mæli horft til framlags háskóla til samfélaganna sem þeir starfa fyrir og fóstra þá.  Á þetta hefur Háskóli Íslands lagt þunga áherslu allt frá stofnun skólans árið 1911.  Það var því ánægjuefni þegar þær fréttir bárust nú í vetur að staðfest hefði verið með alþjóðlegri mælingu að Háskóli Íslands væri í hópi fremstu háskóla heims þegar litið væri til áhrifa starfsemi hans á samfélagið.  Var þetta í fyrsta sinn sem matsfyrirtækið Times Higher Education World University Rankings birti samanburð á samfélagsáhrifum háskóla sem byggist á sjálbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er góð viðbót við fyrri mælingar er beinst hafa einkum að rannsóknum og kennslu.  Þessi árangur var síðan staðfestur enn frekar nú í vor þegar Háskóli Íslands komst á lista U-Multirank yfir þá 25 háskóla sem standa fremstir á alþjóðavísu varðandi samstarf við atvinnulíf og erlenda háskóla á sviði rannsókna.  Þetta eru ávextir stefnumörkunar Háskóla Íslands til skemmri og lengri tíma, en skólinn hefur alla þessa öld sett sér metnaðarfulla stefnu til fimm ára í senn, nú síðast fyrir árin 2016-2021.

Kæru kandídatar, sóknaráætlun Háskóla Íslands hefur skilað sér í gróskumiklu háskólastarfi og aukinni virðingu þjóðskólans á alþjóðlegum vettvangi.  Sannast þar hin fleygu orð Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og velgjörðarmanns Háskóla Íslands, að „þekking skapar orðspor þjóða“.  Þessi árangur Háskólans hefur jafnframt tryggt að prófgráður ykkar eru mikils metnar í öllum fremstu háskólum heims og þær opna ykkur jafnframt leið að spennandi störfum innan lands og utan.  

Við mótun næstu heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2021-2026 hljótum við að horfa sérstaklega til síbreytilegra væntinga nemenda, þarfa atvinnu- og þjóðlífs, og þeirra stórkostlegu áskorana sem blasa við jarðarbúum.  Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er margþætt.  Við þurfum að halda áfram að efla grunnrannsóknir og alþjóðlegt samstarf, stuðla að öflugu námssamfélagi, auka umhverfisvitund okkar, og gera Háskóla Íslands að enn betri vinnustað.  En við þurfum umfram allt að gæta þess að standa vörð um menntahugsjónina og þau gildi sem liggja til grundvallar öllu háskólastarfi.  Menntahugsjón háskóla hvílir á þeirri sannfæringu að nám hafi gildi í sjálfu sér – að við leitum sannleikans sannleikans vegna og þroskans þroskans vegna.  Ef háskólar rækta ekki þessa hugsjón er hætt við að hún dofni eða glatist í heimi sem krefst sífellt meiri skilvirkni og stundarhagnaðar.  Í þessu felst frumskuldbinding okkar sem háskólaborgara.  Þar skipta jafnrétti og virðing fyrir öðru fólki, samfélaginu og náttúrunni miklu máli, en ekki síður barátta fyrir tjáningarfrelsi og akademísku frelsi.  Til að standa undir nafni verða háskólar að skapa andrúmsloft sem hvetur til gagnrýninnar og opinnar umræðu, þar sem fólk er óhrætt við að láta skoðanir sínar í ljós, jafnvel þegar þær eru óvinsælar eða fara á móti straumnum.

Menntahugsjónin felur líka í sér skilning á því hversu ólíkar aðstæður okkar eru, hve breytileg við erum að upplagi og hversu fjölbreytilegir hæfileikar okkar eru.  Eins og þið þekkið úr námi ykkar er markmið okkar ekki að steypa alla í sama mót, eða að styðjast við eina forskrift um vel menntaðan einstakling.  Því er mikilvægt að veita nemendum svigrúm til að gera tilraunir, prófa sig áfram, gera mistök, læra af þeim og halda óhikað áfram.  Við erum allskonar og það er gott!  Óttinn við mistök og framtaksleysi grefur undan þroska og hindrar frumkvöðlastarf og nýsköpun.

Kæru kandídatar.  Ég hef hér staldrað við framtíðarsýn Háskóla Íslands vegna þess að ég tel það skipta höfuðmáli fyrir háskóla – en líka fyrir okkur sem einstaklinga – að setja sér skýr og raunhæf markmið og stefna einbeitt að þeim.  Nýr og spennandi kafli í lífi ykkar hefst einmitt hér í dag.  Ég veit að þið eruð full starfsorku og eftirvænting ykkar er mikil.  Ég þykist þó líka vita að margt leitar á hugann, og er sumt af því íþyngjandi.  Áskoranir blasa við hvert sem litið er, í loftslagsmálum, þróun lýðræðis, upplýsingamengun og misskiptingu auðs og valda.  Þetta er sá veruleiki sem þið takið við af okkur sem eldri erum og reynt höfum að gera okkar besta, auðvitað með misjöfnum árangri.  Ég vona svo sannarlega að úrlausnarefni samtímans virki starfsorku ykkar og baráttugleði fremur en að ala á deyfð og vonleysi. „Mannshöfuð er nokkuð þungt,“ kvað skáldið Sigfús Daðason og bætti við „en samt skulum við standa uppréttir.“  Með þekkinguna að vopni getið þið sannarlega borið höfuðið hátt og eruð reiðubúin að mæta lífinu upprétt í öllum sínum fjölbreytileika bæði ein og í samvinnu við aðra.  Ég vil því ljúka máli mínu á því að hvetja ykkur til góðra verka og að láta gott af ykkur leiða hvar sem þið munið hasla ykkur völl. Ég vona að ykkur muni auðnast að hlusta ætíð á rödd skynseminnar, halda áfram að þroska dómgreindina og láta menntahugsjónina góðu ráða för.  Þá mun framtíðin verða björt. 

Til hamingju með daginn!

Jón Atli Bendiktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpar kandídata og gesti við brautskráningu í Laugardalhöll.