Skip to main content
31. maí 2021

Ásta Dís verðlaunuð fyrir að efla samstarf HÍ og atvinnulífs

Ásta Dís verðlaunuð fyrir að efla samstarf HÍ og atvinnulífs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var heiðruð fyrir að efla samstarf atvinnulífs og Háskóla Íslands á tíu ára afmæli Íslenska sjávarklasans sem fagnað var föstudaginn 28. maí. Þá er hún meðal þátttakenda í nýsköpunarverkefni sem hlaut veglegan styrk í dag.

Íslenski sjávarklasinn veitti alls sex manns viðurkenningar við þetta tilefni en þau eiga það sameiginlegt að hafa með einum eða öðrum hætti stuðlað að auknu samstarfi á ýmsum sviðum sem tengjast Íslenska sjávarklasanum. 

Athöfnin fór fram í Húsi sjávarklasans á Granda þar sem Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar afhenti viðurkenningarnar og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpaði gesti.

Ásta Dís hefur stuðlað að því í gegnum kennslu, starfsþjálfun og rannsóknir að fleiri nemendur hafa myndað tengsl við fyrirtæki í sjávarklasanum og kynnst þannig atvinnulífinu og tækifærum í bláa hagkerfinu. Hún er m.a. umsjónarkennari og skipuleggjandi námskeiðsins Rekstur í sjávarútvegi við Viðskiptafræðideild þar sem nemendur eiga m.a. stefnumót við lykilaðila í sjávarútvegi og þá er hún annar höfundur bókarinnar Fisheries and aquaculture, the food security of the future sem Elsevier gaf út árið 2020.

Við þetta má bæta að Ásta Dís hefur haft forystu um auka tækifæri nemenda við Viðskiptafræðideild til starfsþjálfunar hjá fyrirtækjum, félagasamtökum, ráðuneytum og stofnunum víða í samfélaginu en á liðnu misseri tóku vel á þriðja tug fyrirtækja þátt í samstarfinu og fleiri samstarfssamningar eru í bígerð. 

Það var Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar sem afhenti viðurkenningar Íslenska sjávarklasans og hér tekur Ásta Dís við viðurkenningunni úr hendi hennar. MYND/Eygló Gísladóttir

Ásta Dís er enn fremur meðal samstarfsaðila í verkefninu „Vestmannaeyjar, vettvangur sjávarlíftækni á Íslandi“ sem hlaut í dag hæsta styrkinn, 10 milljónir króna, þegar atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið úthlutaði Lóu - nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina. Verkefnið hverfist um þá framtíðarsýn að í Vestmannaeyjum verði höfuðstöðvar sjávarlíftæknivettvangs Íslands en sjávarlíftækni snýst um að vinna verðmætari afurðir úr hliðarafurðum og vannýttum afurðum í sjávarútvegi. 

Umsækjendur um styrkinn voru Þekkingasetur Vestmannaeyja, Rannsóknaþjónusta Vestmannaeyja, Langa og Vestmannaeyjabær og verkefnisstjóri þess er dr. Hólmfríður Sveinsdóttir. Samstarfsaðiliar í verkefninu eru auk Ástu Dísar og Margrétar Þorsteinsdóttur frá Háskóla Íslands, Rannveig Björnsdóttir frjá Háskólanum á Akureyri, Ingibjörg Sigurðardóttir frá Háskólanum á Hólum, Fóðurverksmiðjan Laxá og Háskólinn í Bergen í Noregi. 

Hér eru þau Eva Rún Michelsen, Sigurður Pétursson, Ásta Dís Óladóttir, Salóme Guðmundsdóttir, Gísli Gíslason og Vilhjálmur Hans Árnason ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við afhendingu viðurkenninganna. MYND/Eygló Gísladóttir