Skip to main content
27. september 2023

Áskoranir í alþjóðastarfi ræddar á fundi norrænna rektora í HÍ

Áskoranir í alþjóðastarfi ræddar á fundi norrænna rektora í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á sjötta tug háskólarektora og stjórnenda háskólasamtaka á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum kom saman til fundar í Hátíðasal Aðalbyggingar HÍ þriðjudaginn 26. september til þess að ræða þær áskoranir sem blasa við í alþjóðlegu samstarfi. Að fundinum stóð Samstarfsvettvangur norrænna háskóla (NUS – det nordiske universitetssamarbejde) en Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er í forsæti fyrir vettvanginn á árunum 2022-2024. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland leiðir NUS en auk samráðs um stefnumótun á sviði háskóla og rannsókna stendur NUS m.a. fyrir ráðstefnum annað hvert ár með norrænni áherslu og þá í landi forystuþjóðarinnar. Öllum rektorum háskóla á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum er boðið til ráðstefnunnar og að þessu sinni bar hún yfirskriftina „Challenges of Nordic and Baltic Universities in International Collaboration“.

Fundurinn hófst á ávörpum Jóns Atla Benediktssonar og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en viðburðurinn er jafnframt hluti af formennsku Íslands innan Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Lykilfyrirlesari ráðstefnunnar var Gunhild Hoogensen Gjörv, prófessor í friðar- og átakafræðum við Háskólann í Tromsö, sem fjallaði um hlutverk háskóla í þjóðaröryggi út frá eflingu trausts og seiglu í gegnum menntun og rannsóknir.

Á ráðstefnunni var auk þess boðið upp á fleiri erindi, umræður í minni hópum og pallborðsumræður þar sem m.a. var rætt um stöðu smáríkja, áskoranir í alþjóðastarfi fyrir minni háskóla, ábyrga alþjóðavæðingu og rannsóknasamstarf, hlutverk háskóla í lýðræðissamfélögum og stjórnmál eftirsannleiks.

Ráðstefnunni lauk svo með móttöku í boði forseta Íslands á Bessastöðum.  
 

Rektorar og aðrir stjórnendur háskóla á fundinum.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og forseti NUS, ávarpar fundargesti.
Gestir á fundinum
Gestir á fundinum
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarpar fundaargesti.
Gestir á fundinum