Skip to main content
18. janúar 2022

Anna Sigríður kennir fólki að nærast og njóta á RÚV

Anna Sigríður kennir fólki að nærast og njóta á RÚV - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nærumst og njótum er heitið á nýjum sjónvarpsþáttum sem Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur unnið og sýndir eru á RÚV á mánudagskvöldum. Markmið þeirra er m.a. að kynna einfaldar leiðir og verkfæri í kringum matarlífið sem stuðla að vellíðan og betra fæðuvali. Matarlíf nær utan um allt sem snýr að þeim fjölmörgu og oft flóknu atriðum sem tengjast því að nærast.

Þættirnir eru sex talsins og var sá fyrsti sýndur mánudaginn 11. janúar. Í þáttunum er fylgst með matarlífi sjö fjölskyldna, allt frá fólki sem býr eitt til stórra samsettra fjölskyldna, sem skoða næringar- og matarvenjur sínar og vinna að breytingum í þeim tilgangi að nærast betur og njóta um leið. Þá er einnig rætt við ýmsa sérfræðinga á sviði neyslu og næringar um vísindin á bak við matinn, þar á meðal vísindafólk innan Háskóla Íslands, og við fólk á förnum vegi um hugmyndir þess um mat og næringu. 

„Þættirnir eru mannlegum og hvetjandi nótum og efniviðurinn varð meðal annars til fyrir tilstilli þeirra frábæru fjölskyldna sem lögðu okkur lið, búa til söguþráðinn í þáttunum og veita okkur innsýn í sitt matarlíf. Matur er nefnilega rauður þráður í gegnum líf okkar en fæst borðum við þó bara til að halda lífi. Við borðum líka til að njóta og matur er órjúfanlegur hluti líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu,“ segir Anna Sigga eins og hún kölluð. 

Anna Sigga er afar afkastamikill vísindamaður og hefur unnið að fjölmörgum rannsóknum tengdum næringu og lífsvenjum sem miða m.a. að bæta heilsu og líðan ólíkra hópa í samfélaginu. Þar má nefna svokallaða Bragðlaukaþjálfun, þar sem unnið er á matvendni hjá börnum með og án taugaþroskaraskana, þ.e. ADHD og raskanir á einhverfurófi, og RED-Í verkefnið sem miðar að því að vinna gegn svokölluðum hlutfallslegum orskuskorti hjá íslensku íþróttafólki. 

Anna Sigga hefur unnið að þáttunum undanfarið ár eftir að hafa tekið þátt í Hugmyndadögum á vegum RÚV fyrir um þremur árum. „Upphaflega urðu þættirnir til sem drög að bók fyrir næstum 20 árum síðan en efniviðurinn hefur þróast í gegnum störf mín og rannsóknir og allt það frábæra samstarfsfólk sem ég hef haft í gegnum tíðina,“ segir Anna Sigga og nefnir þar sérstaklega til sögunnar Sigrúnu Þorsteinsdóttur, heilsu- og barnasálfræðing og doktorsnema hennar, sem m.a. hefur unnið með Önnu Siggu í Bragðlaukaþjálfunarverkefninu og kemur fram í þáttunum. 

„Aðrir samstarfsfélagar koma fram í þáttunum, ritrýndu handritið, hvöttu mig áfram og/eða léttu á mér þegar önnur verkefni skullu á samhliða þessu stóra ævintýri sem reyndist mun meiri vinna en ég hafði gert mér grein fyrir í fyrstu - en er sannarlega ferðalag sem mun skila sér margfalt í reynslubankann og er svo nátengt öllu því sem ég geri í mínu daglega vafstri í kennslu og rannsóknum,“ segir Anna Sigga.

Ráð og leiðir í aðstæðum sem margir ættu að kannast við

Í nýrri stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er lögð áhersla á að fjölga milliliðalausum leiðum til miðlunar og samtals vísindamanna við samfélagið og óhætt er að segja að þættirnir séu mjög í þeim anda. „Ég hef lært ótrúlega margt gagnlegt í vísindamiðlun á þessu ferðalagi sem hófst þegar ég kynnti Nærumst og njótum fyrst á Hugmyndadögum RÚV 2019 og var valin til áframhaldandi vinnu með verkið. Það er lærdómsríkt að setja vísindin í búning handa almenningi og vinna handritið með reynsluboltum Sagafilm í framleiðslu,“ segir Anna Sigga og vísar þar til framleiðanda þáttanna en þess má einnig geta að Anna Sigga hlaut styrk til verkefnisins úr sjóði Háskóla Íslands sem ætlað er styðja við virka þátttöku akademísks starfsfólks í samfélaginu og samfélagsumræðu.

Anna Sigga segist vonast til að þættirnir geti orðið áhorfendum hvatning til að skoða sínar matarvenjur út frá ýmsum sjónarhornum og að þeir finni einhverjar leiðir og verkfæri sem henta þeim. „Við reyndum að velja þátttakendur út frá því að vekja forvitni og hafa skemmtilega viðmælendur en um leið ná utan um viðfangsefni sem við vitum að eru algeng og margir spyrja sig hvernig sé best að nálgast. Ég held ég geti fullyrt að í hverjum þætti séu til dæmis einhverjar aðstæður hjá þátttakendum sem ég þekki líka mig og mína í og reikna með að þannig sé það hjá fleirum,“ bætir hún við.

Aðspurð hvaða ráðleggingar hún hafi fyrir vísindamenn sem langar til að miðla rannsóknum og vísindum í meira mæli leggur Anna Sigga áherslu á samstarf og mikilvægi ólíkra sjónarhona á viðfangsefnið. „Ég hef haft áhuga á og sinnt almenningsfræðslu í aldarfjórðung og brenn fyrir viðfangsefninu. Með því að vinna með fagfólki í miðlun sem er að tileinka sér viðfangsefnið á meðan við skrifum handritið saman fékk ég aðra nálgun á viðfangsefni sem ég lifi og hrærist í bæði í rannsóknum mínum og kennslu. Það getur verið krefjandi að koma fagþekkingunni á framfæri í formi dægradvalar, vera ekki of fastur í fræðsluforminu og orðavali sem einkennir fagið manns. Svona vinna er ekki eins manns verk heldur krefst þess að horft sé á efnið frá mörgum sjónarhornum þar sem fólk kemur að borðinu með ólíka þekkingu og styrkleika. Það þarf að ætla sér tíma í verkið og leyfa efninu að þróast í ferlinu, taka leiðsögn og njóta ferðalagsins,“ segir hún.

Hér er hægt að horfa á fyrsta og annann þáttinn af Nærumst og njótum á spilara RÚV en eins og fyrr segir eru þeir alls sex talsins og verða frumsýndir á mánudögum á RÚV.

Anna Sigríður Ólafsdóttir