Skip to main content
24. ágúst 2018

Alþjóðlegt samstarf stendur upp úr á ferlinum

„Það sem mér finnst standa upp úr á ferlinum er alþjóðlegt samstarf um rannsóknir á málþroska og læsi og svo einstaklega ánægjuleg samskipti við nemendur mína í gegnum árin,“ segir Hrafnhildur Ragnarsdóttur, prófessor í þroska- og sálmálvísindum við Háskóla Íslands. Rannsóknarstofa um þroska mál og læsi efndi til ráðstefnu í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð þann 16. ágúst síðastliðinn í tilefni af starfslokum Hrafnhildar.

Hrafnhildur á að baki yfir fjörutíu ára farsælan starfsferil sem kennari og fræðimaður, fyrst við Kennaraháskóla Íslands og síðar Háskóla Íslands. Rannsóknir Hrafnhildar snúast um málþroska barna, þróun málnotkunar og textagerðar frá frumbernsku til fullorðinsára og tengsl málþroska og málnotkunar við aðra þroskaþætti, einkum vit- og félagsþroska og við lesskilning og ritun.

Fyrirlesarar á ráðstefnunni voru rannsakendur á heimsvísu frá Bandaríkjunum, Noregi og Svíþjóð sem allir eru í framvarðarsveit í mál- og læsisrannsóknum. Catherine Snow, prófessor í máltöku- og læsisfræðum við Harvard-háskóla, var aðalfyrirlesari ráðstefnunnar. Catherine er meðal virtustu fræðimanna í heimi á sviði málþroska og læsis og hafa rannsóknir hennar orðið stefnumótandi fyrir lestrarkennslu í Bandaríkjunum og víðar. Rauði þráðurinn í rannsóknum Catherine hefur verið að greina hvers konar samskiptamynstur, reynsla og kennsla, bæði í skóla og heima fyrir, stuðla helst að góðum námsárangri barna og unglinga. Hún hefur sérstaklega beint sjónum sínum að þeim börnum sem eru í áhættuhópi vegna félagslegra aðstæðna eða vegna þess að móðurmál þeirra er annað en það sem notað er í skólanum. Hin síðari ár hefur Catherine beitt sér fyrir nýrri og spennandi nálgun í menntarannsóknum þar sem fræðimenn, skólayfirvöld, kennarar og námsefnishöfundar vinna náið saman að lausn viðfangsefna sem skilgreind eru af skólafólki á vettvangi.

Næst í röðinni var Vibeke Gröver, prófessor og fyrrum forseti Menntavísindasviðs Oslóar-háskóla. Í erindi sínu fjallaði Vibeke almennt um aðferðir sem hafa reynst vel til að örva málþroska og undirstöður lesskilnings. Vibeke kynnti jafnframt umfangsmikla og einkar athyglisverða rannsókn sem hún hefur stýrt í Noregi sem nær til barna frá fjölmörgum þjóðlöndum. Vibeke og Hrafnhildur Ragnarsdóttir aðhyllast báðar sömu hugmyndir um eðli góðrar málörvunar og mikilvægi þess að leggja grunn lesskilnings á leikskólaárunum. Í rannsóknum sínum hafa þær báðar lagt áherslu á orðaforða, málfræði, hlustunarskilning, frásagnarhæfni og tengslum alls þessa við aðra þroskaþætti.

Diana Leyva, dósent í sálfræði við Davidson College í Carolina í Bandaríkjunum var þriðji fyrirlesarinn á svið. Meginfræðavettvangur Diönu, rétt eins og hjá Vibeke, er málþroski og læsi barna með annað móðurmál en skólamálið. Sjálf er Diana frá Kólumbíu og hefur einbeitt sér að rannsóknum á málþroska og læsi spænskumælandi barna í Suður- og Norður-Ameríku. Diana tengdi erindi sitt á áhugaverðan hátt við matarmenningu en hún og hennar samstarfsfólk hafa þróað aðferðir þar sem foreldrar eru virkjaðir og þeim leiðbeint um það hvernig þeir geta eflt málþroska, læsi og stærðfræðiþekkingu barna sinna í daglegum samskiptum við matarborðið, í ferðum í búðina og víðar.

Ageliki Nicolopoulou, prófessor í sálfræði við Lehigh-háskóla í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, fjallaði því næst um frásagnir barna, þróun þeirra og mikilvægi fyrir þroska og nám. Hún hefur um árabil rannsakað þátt frásagnarinnar í þroska barna og unglinga, bæði frásögnina sem slíka en líka áhrif þess að segja og lesa sögur fyrir börn á alhliða þroska þeirra og þróun sjálfsmyndarinnar.

Nokkrir fyrrverandi nemendur Hrafnhildar tóku einnig til máls á ráðstefnunni. Rannveig Oddsdóttir, sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, fjallaði um ritun í yngstu bekkjum grunnskóla. Rannveig hefur kannað hvernig rituð textagerð þróast hjá íslenskum börnum á aldrinum 6-9 ára og hver áhrif sjálfsstjórnar, málþroska og læsis eru á þróunina. Rannsóknin var hluti af víðtækri langtímarannsókn sem Hrafnhildur stýrði undir heitinu Þroski leik- og grunnskólabarna: málþroski, sjálfstjórn og læsi. Með rannsókn sinni braut Rannveig ákveðið blað því áður hafði ritun og textagerð íslenskra barna verið lítt rannsökuð og ekki í því víða þroska- og námssamhengi sem rannsókn hennar byggðist á.

Victoria Johansson, dósent í málvísindum við Háskólann í Lundi í Svíþjóð, var næst á dagskrá en Victoria hefur helgað sig þróun málnotkunar í gegnum gjörvallt lífshlaup mannsins með sérstakri áherslu á ritun, ritunarferlið og textagerð. Í erindi sínu kynnti hún gögn úr þversniðsrannsóknum með þátttakendum sem búa yfir margvíslegri og ólíkri getu í ritun. Victoria hefur m.a. rannsakað ritun hjá atvinnuriturum, t.d. blaðamönnum og rithöfundum og borið saman við leikmenn á ritvellinum.

Að lokum hélt Sigríður Ólafsdóttir, nýráðinn lektor í máltöku- og læsisfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fyrirlestur þar sem sjónum var beint að þeim tækifærum sem börn fá til að efla tjáningarfærni sína í skólastarfi. Enn fremur greindi hún frá verkefni í 10. bekk í tveimur íslenskum grunnskólum þar sem markmiðið var að efla orðaforða nemenda.

Ráðstefnustjóri var Oddný Sturludóttir, verkefnisstjóri á skrifstofu forseta Menntavísindasviðs. Þess má geta að uppselt var á ráðstefnuna og voru þáttakendur á þriðja hundrað manns.

„Ég á vini og samstarfsfólk bæði hér og erlendis sem er að gera merkilega hluti í sambandi við undirstöður og langtímaþróun lesskilnings og læsis. Mig langaði til að láta fyrrverandi nemendur mína, kennarana í skólunum og almenning, njóta þess áður en ég yfirgef sviðið,“ sagði Hranhildur að leiðarlokum.

Myndir frá ráðstefnunni

Um Hrafnhildi Ragnarsdóttur

Hrafnhildur Hanna Ragnarsdóttir hefur gegnt fastri stöðu sem fræðimaður, fyrst við Kennaraháskóla Íslands og síðar Menntavísindasvið, frá árinu 1976. Hún gegndi fjölmörgum ábyrgðarstöðum fyrir Kennaraháskóla Íslands á sínum starfsferli. Hún sat m.a. lengi í skólaráði, var aðstoðarrektor og stofnaði og veitti forstöðu fyrstu rannsóknarstofu skólans. Hún sat einnig i stjórn Rannís, ESF og NorFa um árabil. Eftir sameiningu KHÍ og HÍ stofnaði Hrafnhildur Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi barna og unglinga og hefur stýrt henni fram á þennan dag. Hrafnhildur hefur dvalið langdvölum við erlenda háskóla og lengi verið í eldlínunni í rannsóknum á sviði þroska- og sálmálvísinda hér á landi. Hrafnhildur er afkastamikill fræðimaður og hefur birt ótal greinar í íslenskum og erlendum tímaritum og bókum.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands þakkar Hrafnhildi góð störf í þágu sviðsins og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, ásamt Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Lilja flutti ávarp við setningu ráðstefnunnar.