Skip to main content
11. ágúst 2021

Áhersla á að skólahald verði með sem eðlilegustum hætti 

Áhersla á að skólahald verði með sem eðlilegustum hætti  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (11. ágúst):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Ég vona svo sannarlega að þið hafið notið sumarsins. Þótt sól sé enn hátt á lofti og hlýindi víða um land er haustið ekki langt undan og skammt í að skólaárið hefjist að nýju í Háskóla Íslands. 

Því miður er enn töluverður fjöldi af COVID-smitum í samfélaginu en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi allra og gæði námsins í anda nýrrar og metnaðarfullrar stefnu Háskóla Íslands til næstu fimm ára, HÍ26, sem samþykkt var í sumarbyrjun og kynnt verður ítarlega í haust. 

Markmið okkar eru skýr, við viljum skapa framsækið og lifandi þekkingarsamfélag innan og utan skólans en það verður best gert með því að hafa í heiðri öflugt staðnám sem fléttað er saman við fjarnám eftir þörfum. Ætlun okkar er eftir sem áður að skapa öflugt samfélag sem ryður brautina með fjölbreyttum hugmyndum og ólíkum sjónarmiðum sem leiða af sér nýja þekkingu. Við ætlum líka að halda uppi öflugri og notendamiðaðri þjónustu í Háskólanum í vetur. Við höfum sveigjanleika og kjark til að breytast og munum í því skyni þróa og nýta stafrænar lausnir eftir þörfum. 

Í gær kom fram hjá stjórnvöldum að gildandi sóttvarnatakmarkanir innanlands verði framlengdar um tvær vikur í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Kennsla og annað starf innan skólans mun því lúta almennum sóttvarnarreglum þar til annað verður ákveðið og í gildi verður 200 manna samkomutakmörkun og 1 metra nálægðarregla til og með 27. ágúst nk. Nauðsynlegt er að notast við grímu þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra nándarmörk. 

Við munum á allra næstu dögum funda með menntamálayfirvöldum um nánari útfærslu á sóttvarnarreglum. Stjórnvöld leggja áherslu á að skólahald verði með sem eðlilegustum hætti við upphaf haustmisseris á öllum skólastigum, með áherslu á staðnám. Um það ríkir einnig samhugur meðal stjórnenda á ólíkum skólastigum. Enn er þó verið að skoða nokkur atriði, s.s. hvernig brugðist verði við ef upp koma smit í skólum og hvernig komið verði til móts við þá sem ekki geta sótt nám vegna COVID, t.d. þá sem lenda í einangrun. Ég mun að sjálfsögðu upplýsa ykkur, kæru nemendur og samstarfsfólk, um niðurstöður um leið og þær liggja fyrir. 

Eins og kunnugt er hefur staðan í samfélaginu orðið önnur en vonast var til og er það sannarlega högg að sjá áframhaldandi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónaveirunnar. Eftir sem áður stöndum við þó vel að vígi sökum þess hversu hátt hlutfall þjóðarinnar er bólusett en rannsóknir sýna að bóluefnin veita vörn gegn nýjum afbrigðum veirunnar og alvarlegum sýkingum af hennar völdum. Því hvet ég alla sem ekki eru bólusettir að leita eftir bólusetningu við fyrsta mögulega tækifæri. Ég geri mér grein fyrir að kvíða setur að sumum þegar svona háttar á en við þurfum nú að standa saman, ekki bara innan Háskólans heldur einnig sem þjóð. Hugum því áfram hvert að öðru og að okkur sjálfum. 

Höfum eitt af meginstefum nýrrar framtíðarstefnu Háskóla Íslands, HÍ26, að leiðarljósi og verum ábyrg og meðvituð, kæru nemendur og samstarfsfólk. Hugum jafnframt sérstaklega að einstaklingsbundnum sóttvörnum. 

Ég hlakka mikið til að sjá ykkur á háskólasvæðinu á næstu dögum og vikum.“

Nemendur við Veröld - hús Vigdísar