Skip to main content
29. janúar 2021

Áfram veginn

Áfram veginn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag (29. janúar):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Gríðarlegt verk hefur verið unnið í vikunni við að hreinsa og þurrka í þeim byggingum Háskóla Íslands sem verst urðu úti í flóðinu í síðustu viku. Eftir því sem lengra líður blasir æ betur við hversu alvarlegt tjónið er fyrir Háskólann og starf hans. Hluti af því starfi sem fram undan er felst í því að kortleggja allar skemmdir sem hafa orðið. 

Sviðsskrifstofa Félagsvísindasviðs hefur verið flutt í Odda og verið er að kanna möguleika á öðrum kennslustofum í stað þeirra sem glötuðust tímabundið á Háskólatorgi og í Gimli. Frekari upplýsingar um þetta verða veittar eins fljótt og kostur er.

Hafist var handa við að þrífa tæknirýmið í Gimli fyrr í vikunni en þar varð einna mest tjón. Viðgerð á rafmagnstöflu í Gimli gekk þó framar vonum og var einkar ánægjulegt að sjá rafmagn komast þar á að nýju í byrjun vikunnar.

Þá var loftræstisamstæða í Lögbergi gangsett á ný á þriðjudag. Haldið verður áfram að þurrka rýmin í jarðhæðinni í Lögbergi og á mörgum stöðum verður rakamælum komið fyrir í gólfplötum til að fylgjast með þornun steypunnar. Því miður eru lofræstisamstæðurnar á Háskólatorgi og í Gimli afar illa farnar og jafnvel ónýtar. 

Mikið tjón varð einnig á háskólalóðinni og hefur bygginga- og tæknideild skólans sýnt einstaka framtakssemi við að hreinsa og lagfæra í kringum byggingarnar.

Ég vil þakka öllum sem hafa unnið við hreinsun og lagfæringar á háskólasvæðinu undanfarna sólarhringa, þeirra starf er okkur afar mikilvægt. 

Þótt margt hafi dunið á okkur undanfarið, og jafnvel virst hindra okkur í fyrstu við að sinna því starfi sem er einna mikilvægast í öllum samfélögum, námi og rannsóknum, þá höfum við aldrei gefist upp. Vísindin svipta hulunni af því ókunna, leiða hið sanna í ljós og fæða iðulega af sér uppgötvanir sem færa mannkynið áfram. Þess vegna er seigla okkar og samstaða svo mikilvæg. 

Þótt okkur vegni vel þessa dagana í baráttunni við COVID-19 er alls ekki ástæða til að draga úr einstaklingsbundnum smitvörnum. Fylgjum leiðbeiningum þríeykisins sem hefur deilt með okkur mikilvægri þekkingu á fjölmörgum vísindasviðum og hvatt okkur öll til hegðunar sem dregur svo sannarlega úr smithættu.

Njótum helgarinnar en förum að öllu með gát.   

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Veggur á Háskólatorgi