Skip to main content
21. maí 2024

Áform um háskólanám í skapandi sjálfbærni á Austurlandi

Áform um háskólanám í skapandi sjálfbærni á Austurlandi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla undirrituðu á dögunum samstarfssamning um að flytja nám í skapandi sjálfbærni, sem hefur verið í boði við síðarnefnda skólann, á háskólastig frá haustinu 2025. Umsjón með verkefninu verður í höndum Menntavísindasviðs HÍ. 

Undirbúningur fyrir flutning námsins á háskólastig hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Samningurinn sem nú er gerður byggist m.a. á skýrslu sérstaks samstarfshóps um fýsileika og framvindu yfirfærslunnar og viljayfirlýsingar sem undirrituð var á milli háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Háskóla Íslands og Hallormstaðaskóla seint á síðasta ári.

Samkvæmt hinum nýja samningi verður það hlutverk verkefnisstjóra í sköpun og sjálfbærni, sem ráðinn verður við Menntavísindasviðs Háskóla Íslands en með starfsstöð í Hallormsstaðaskóla, að fylgja eftir flutningi námsins á háskólastig og tryggja frekari þróun þess. Sú vinna mun fara fram skólaárið 2024-2025 í nánu samstarfi við Bryndísi Fionu Ford, skólameistara Hallormstaðaskóla. Sérstök námsstjórn, skipuð fimm fulltrúum Menntavísindasviðs HÍ og Hallormsstaðaskóla, mun hafa yfirumsjón með framkvæmd samningsins og tryggja m.a. að námið uppfylli gæðaviðmið háskóla.

Gert er ráð fyrir að kennsla í skapandi sjálfbærni á háskólastigi geti svo hafist við Hallormsstaðaskóla haustið 2025 í samstarfi við Háskóla Íslands. Með þessu opnast tækifæri fyrir nemendur HÍ að sækja sérhæft og verklegt staðbundið nám á sviði sjálfbærni, hönnunar, umhverfis- og loftlagsbreytinga, matvælagerðar og fleiri greina. 

Samninginn undirrituðu þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.

„Hér er um að ræða fyrsta staðbundna háskólanámið á Austurlandi sem brýtur sannarlega blað,” segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og bætir við: „Hallormsstaðaskóli hefur sterkar rætur í austfirsku samfélagi og er saga skólans mjög merkileg. Ég fagna því þessum áfanga.“ 

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, tekur undir þau orð: „Hér er um að ræða spennandi tækifæri fyrir ungt fólk til að taka eins árs þverfræðilegt grunnnám í stórkostlegu umhverfi Hallormstaðaskógar og læra til fræða og faglegs handverks. Við sjáum fyrir okkur að námið geti orðið hluti af frekara háskólanámi, s.s. sem aukafag í kennaranámi eða öðru námi við HÍ,“ undirstrikar hún.

„Sérstaða þess náms sem hefur verið þróað síðustu ár í Hallormsstaðaskóla byggist á sterkum grunni stofnenda skólans. Við fögnum því að Háskóli Íslands sjái tækifæri í að fullgilda námið á háskólastig,“ segir Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla.
 

Kolbrún Pálsdóttir, Jón Atli Benediktsson og Bryndís Fiona Ford við undirritun samstarfssamningsins í Háskóla Íslands.