Skip to main content
1. október 2021

Afl á grunni gæða í 110 ár

Afl á grunni gæða í 110 ár - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (1. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Gæðaráð íslensku háskólanna birti í gær úttekt á Háskóla Íslands sem framkvæmd var af óháðum hópi alþjóðlegra sérfræðinga og einum fulltrúa stúdenta. Það er sérstaklega ánægjulegt að alþjóðlegi úttektarhópurinn lýkur skýrslu sinni með traustsyfirlýsingu um gæði námsumhverfis og prófgráða frá Háskóla Íslands. Slík yfirlýsing er afar mikil viðurkenning fyrir allt starfsfólk skólans og stúdenta. Hún staðfestir að prófgráða frá Háskóla Íslands nýtur mikils trausts á alþjóðlegum vettvangi og mun áfram opna stúdentum ný og spennandi tækifæri innanlands sem utan.

Þetta er í annað sinn sem slíkt heildarmat er framkvæmt á Háskóla Íslands en hið fyrra fór fram árið 2015.

Auk hinnar ánægjulegu heildarniðurstöðu lýkur úttektarhópurinn lofsorði á fjölmarga þætti í starfsemi Háskólans sem lúta að rannsóknum, kennslu og stjórnunarháttum. Dregur hópurinn sérstaklega fram hversu mikils og verðskuldaðs trausts Háskóli Íslands nýtur í íslensku samfélagi og hve öflugt rannsóknarstarf skólans er á alþjóðlegan mælikvarða. Þá bendir hópurinn einnig á hve vel heppnuð viðbrögð skólans við COVID-19 voru, sem megi m.a. rekja til öflugrar innleiðingar stafrænna kennsluhátta og þess hve samstaða starfsfólks sé sterk og boðleiðir stuttar. 

Það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur í HÍ að úttekarhópurinn bendir á ýmis tækifæri til úrbóta, hvernig efla megi gæðamenningu Háskólans enn frekar. Þar leggur hópurinn ekki síst áherslu á nauðsyn þess að styrkja þverfræðilegt samstarf milli fræðasviða og deilda og tryggja betur samræmt gæðastarf milli ólíkra eininga. Í því umbótastarfi sem framundan er mun ný stefna Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ 26, varða leiðina en hún er helsta leiðarljósið í öllu gæðastarfi okkar ásamt ytri úttektum sem m.a. var byggt á við gerð hennar. 

Í HÍ 26 er áhersla á að opna Háskólann, ryðja burt hindrunum og vinna þvert á einingar. Einn liður á þeirri vegferð er nýtt og samræmt útlit kynningarefnis skólans í þágu nýju stefnunnar. Ég hvet ykkur kæru nemendur og samstarfsfólk til að kynna ykkur vandlega þær breytingar sem hafa orðið með því að skoða nýjan hönnunarstaðal HÍ. Honum var formlega hleypt af stokkum í dag. Þarna er hægt að hlaða niður nýjum merkjum skólans og öllu nauðsynlegum grunnum sem við notum á degi hverjum í starfi okkar. 

Kæra starfsfólk og stúdentar, nú á haustdögum fögnum við þeim áfanga að liðin eru 110 ár liðin frá því að kennsla hófst við Háskóla Íslands, en skólinn var stofnaður á Alþingi 17. júní 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Á þessum tímamótum er við hæfi að háskólaráð haldi októberfund sinn í Alþingishúsinu þar sem Háskólinn var til húsa fyrstu 29 starfsárin. 

Háskólinn byggir á sögunni og þeim markverðu áhrifum sem hann hefur haft á íslenskt samfélag í röska heila öld. En hann setur líka mark sitt á nútímann og framtíðina með mikilvægu starfi sínu. Þar er ykkar þáttur, hvers og eins, gríðarlega mikilvægur. Höldum áfram á sömu braut og gerum góðan háskóla enn betri. 

Góða helgi. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

""