Skip to main content
12. febrúar 2021

Afhending prófskírteina fram undan

Afhending prófskírteina fram undan - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag (12. febrúar):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Eftir röska viku, laugardaginn 20. febrúar nk., munu á fimmta hundrað kandídatar fagna merkum áfanga þegar þeir fá prófskírteini sín afhent í Háskólabíói. Í stað hefðbundinnar brautskráningar býðst kandídötum að sækja prófskírteini sín samkvæmt auglýstri tímaáætlun og er þessi breyting til komin vegna samkomutakmarkana. Af þessum sökum er því miður ekki unnt að bjóða aðstandendum að vera viðstaddir við afhendingu prófskírteina.

Við leggjum kapp á að skapa hátíðabrag í Háskólabíói þótt athöfnin sé ekki með sama sniði og venjulega. Við vonumst til þess að sjá sem flesta kandídata í Háskólabíói því þetta er í senn gleði- og uppskeruhátíð jafnt þeirra sem Háskóla Íslands.

Afhendingu prófskírteina verður skipt upp eftir fræðasviðum og mun Verkfræði- og náttúruvísindasvið ríða á vaðið kl. 10-11, Hugvísindasvið kl. 11-12, Heilbrigðisvísindasvið og Menntavísindasvið kl. 12-13 og loks verða prófskírteini frá Félagsvísindasviði afhent kl. 13-14. Kandídatar hafa fengið sendar frekari upplýsingar og leiðbeiningar með tölvupósti.

Háskóli Íslands leggur áherslu á að sköpun og miðlun þekkingar hafi sem víðtækust áhrif í samfélagi og atvinnulífi. Þess vegna erum við afar stolt af þeim glæsta hópi sem nú er að brautskrást. Við erum sannfærð um að þau sem nú brautskrást muni setja mark sitt á samfélagið og láta gott af sér leiða á næstu árum og áratugum.

Hér má sjá nánari upplýsingar um afhendingu prófskírteina og reglur sem ber að fylgja

Sóttvarnareglur stjórnvalda voru nýlega rýmkaðar nokkuð og gaf það okkur færi á að opna tækjasal, búningsaðstöðu og sturtur nú í vikunni í íþróttahúsi Háskóla Íslands með ákveðnum skilyrðum. Hámarksfjöldi iðkenda er 20 í hverju rými, þ.e. í íþróttasal, tækjasal og búningsaðstöðu. Bóka þarf þátttöku fyrirfram. Hér er hægt að kynna sér nánar reglur um íþróttaiðkun í íþróttahúsinu.

Við fögnum að sjálfsögðu þeim mikla árangri sem náðst hefur hérlendis í baráttunni við kórónuveiruna það sem af er ári. Þann árangur má fyrst og fremst þakka samstöðu okkar allra í sóttvörnum. Höldum markvisst áfram á sömu braut og förum að öllu með gát.

Góða helgi, kæru nemendur og samstarfsfólk.

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Frá brautskráningu