Skip to main content
8. maí 2020

Að lokinni fyrstu viku eftir opnun Háskóla Íslands

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Nú líður að lokum fyrstu vinnuviku eftir að byggingar Háskóla Íslands voru opnaðar á ný. Vonandi var það kærkomið fyrir flesta að snúa aftur og hitta samstarfsfólk og námsfélaga. Eflaust hafa þetta verið viðbrigði fyrir þá sem kunnu að meta þann sveigjanleika sem fylgir heimavinnu. Jafnframt kann einhverjum að þykja erfitt að snúa aftur, t.d. vegna smitvarna. Gleymum ekki að vanda okkur í þeim efnum og fara í einu og öllu eftir ráðleggingum stjórnvalda.

Þeir sem þurfa að halda sig fjarri öðru fólki, t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóma, munu vinna áfram heima. Ég vil biðja alla um að huga sérstaklega að þessum hópi og sýna honum nærgætni.

Höfum hugfast að kvíði og áhyggjur eru oft eðlileg viðbrögð við óvenjulegum aðstæðum. Það er því mikilvægt að huga að mikilvægi hreyfingar, hollrar næringar, góðs svefn og félagslegra tengsla. 

Ég vil benda á svæði á Uglu um vinnu á tímum COVID-19 en þar er m.a. minnt á að:
•    Hafa samskipti sem mest rafræn eða í síma. 
•    Nýta eins og kostur er samskiptaforrit á borð við Teams, Skype og Zoom fyrir fundi og samtöl. 
•    Takmarka samneyti við aðra á kaffistofum og í öðrum sameiginlegum rýmum.  
•    Gæta fyllsta hreinlætis, þvo hendur og snertifleti vel og nota handspritt í samræmi við leiðbeiningar þar um. 
•    Vinna við eigin starfsstöð og nota ekki síma, heyrnartól, lyklaborð, mýs, tölvur, skjái eða annað sem tilheyrir öðru starfsfólki. Halda starfstöðvum snyrtilegum til að auðvelda þrif.

Á vefsíðu er Velvirk er líka að finna ýmsar gagnlegar ábendingar um atriði sem hafa þarf í huga þegar snúið er aftur á vinnustað. 

Feltferðir

Nú er vorið í veðurkortum og hópur starfsfólks og nemenda að halda í árstíðabundnar feltferðir. Ég minni á sérstök viðmið sem sett hafa verið um slíkar ferðir.

Sumarstörf fyrir nemendur

Liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 er sérstakt átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að skapa í sumar um 3.300 tímabundin störf fyrir námsmenn hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Samkvæmt könnun starfsmannasviðs er áhugi á að ráða til Háskóla Íslands um 350 nemendur í sumar. Í lok maí mun liggja fyrir hversu mörgum störfum Háskólinn fær úthlutað og er ráðgert að nemendur komi til starfa eftir 8. júní.

Sumarnám

Sumarnám er í undirbúningi. Gert er ráð fyrir að það hefjist um 1. júní og ljúki um 15. ágúst. Í boði verða einingabær valnámskeið, auk ýmissa námskeiða fyrir þá sem ekki hafa nægan undirbúning fyrir háskólanám eða vilja styrkja sig á tilteknum sviðum, s.s. í stærðfræði, fræðilegum skrifum eða ensku. Námskeiðin eru fjölbreytt bæði hvað varðar efni, einingarfjölda og tímalengd. 

Einnig verður boðið upp á sérstök úrræði fyrir þá sem hafa íslensku sem annað mál og hyggja á háskólanám hérlendis. Kynning á sumarnáminu mun hefjast í næstu viku. Sumarnámskeiðin standa öllum nemendum Háskóla Íslands til boða og er stefnt að því að skráning hefjist innan tíðar.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Við höfum lært margt á undanförnum vikum. Ég vil enn og aftur þakka ómetanlegt framlag ykkar við að láta allt ganga upp í Háskóla Íslands. Þetta er ekki bara mikilvægt fyrir skólann sjálfan heldur samfélagið allt og framtíðina. 

Innan tíðar getum við litið til baka með stolti yfir því hvernig okkur farnaðist í verkefnum sem í fyrstu virtust jafnvel yfirþyrmandi ráðgáta. Ég hef trú á því að við komum ekki bara reynslunni ríkari úr þessum aðstæðum heldur sterkari til að takast á við nýjar áskoranir og margt munum við nýta okkur áfram í vinnulagi.

Sumarið er tíminn söng Bubbi Morthens. Njótum nú sólar um helgina af bestu getu þrátt fyrir álag á mörgum sviðum. Höfum áfram augu á því sem skiptir mestu máli í lífinu. 

Gangi ykkur vel. 

Með kærri kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor“