Skip to main content
16. júní 2015

75 ár frá vígslu Aðalbyggingar

Þjóðhátíðardaginn 17. júní verða 75 ár frá því að Aðalbygging Háskóla Íslands, elsta háskólabygging landsins, var vígð. Byggingin skipar sérstakan sess í byggingarsögu þjóðarinnar því við framkvæmdir var stuðst við íslenskt hugvit og ýmis efni úr íslenskri náttúru voru nýtt í fyrsta sinn í byggingarframkvæmdum.

Háskóli Íslands er eins og kunnugt er nokkru eldri en Aðalbyggingin en hann var stofnaður árið 1911. Í nærri þrjá áratugi var skólinn til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll en á fyrstu tveimur áratugunum í starfi skólans komu fram ýmsar hugmyndir um staðsetningu háskólabyggingar og útlit hennar. Í bókinni „ Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands“, sem Páll Sigurðsson tók saman og gefin var út í tilefni af 75 ára afmæli Háskóla Íslands, má lesa um þessar metnaðarfullu hugmyndir á fyrstu áratugum skólans. Meðal þeirra má nefna hugmynd Rögnvalds Ólafssonar húsameistara að háskólabyggingu í burstabæjarstíl við Arnarhól frá árinu 1913, hugmynd Guðjóns Samúelssonar, arkítekts og síðar húsameistara ríkisins, um háskólabyggingu við suðausturenda tjarnarinnar frá árinu 1914 og hugmynd Einars Jónssonar myndhöggvara frá svipuðum tíma um háskólabyggingu og stúdentagarða á Skólavörðuholtinu. Þá má ekki gleyma frægum hugmyndum Guðjóns Samúelssonar um Háborg íslenskrar menningar á Skólavörðuholtinu þar sem gert var ráð fyrir að helstu stofnanir landsins yrðu staðsettar, þar á meðal Háskóli Íslands.

Teikning Guðjóns Samúelssonar af Háborg íslenskrar menningar frá árinu 1924.

Happdrætti Háskóla Íslands ruddi brautina

Skriður komst hins vegar ekki á byggingarmál Háskóla Íslands fyrr en á fyrri hluta fjórða áratugar síðustu aldar þegar Alþingi samþykkti lög sem heimiluðu landsstjórninni að reisa byggingu fyrir Háskóla Íslands og borgaryfirvöld úthlutuð háskólanum lóð á Melunum. Á sama tíma var grunnurinn lagður að Happdrætti Háskóla Íslands en samkvæmt heimildum mun Guðjón Samúelsson hafa átt hugmyndina að því að fjármagna háskólabygginguna með því að koma á fót hlutaveltu meðal þjóðarinnar. Fyrsti útdrátturinn í Happdrætti Háskóla Íslands fór fram á árinu 1934 og naut það strax mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar og hefur gert alla tíð síðan. Það hefur aftur gert háskólanum kleift að byggja flestar þær byggingar sem nú eru á háskólasvæðinu.

Frá fyrsta drætti í Happdrætti Háskóla Íslands í mars 1934. Mynd fengin af aldarafmælisvef Háskóla Íslands.

Þessi mikla velgengni happdrættisins í upphafi þýddi að fljótlega var hægt að fara að huga að teikningu bygggingarinnar. Var Guðjóni Samúlessyni falið það verk og sömuleiðis að draga upp framtíðarskipulag á háskólalóðinni. Háskólinn fékk svo lóðina, sem Aðalbyggingin stendur á, formlega í upphafi árs 1936 og síðar það ár hófust framkvæmdir við bygginguna. Grunninn að byggingunni grófu stúdentar við skólann með einungis skóflur og haka að vopni en það gekk svo vel að hornsteinn var lagður að byggingunni 1. desember 1936.

Mynd af Aðalbyggingu Háskóla Íslands sem Freymóður Jóhannsson listmálari gerði eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar.

Stuðst við íslenskt hugvit og byggingarefni

Aðalbygging Háskóla Íslands er um margt sérstök í íslenskri byggingarsögu því við framkvæmdir voru gerðar ýmsar tilraunir með íslenskt byggingarefni og margt því prófað í fyrsta sinn. Þannig er klæðningin á byggingunni úr kvarsblöndu samkvæmt aðferð sem Guðjón Samúlesson þróaði og tröppur við inngang úr hrafntinnu. Grænar hellur fyrir utan aðaldyrnar eru svo úr blöndu af grænu líparíti og hrafntinnu. Veggir í anddyri Aðalbyggingar eru þaktir hellum sem búnar eru til úr skeljum af Suðurnesjum og steinlími og hvelfingin í anddyrinu er úr hinu sjaldgæfa silfurbergi. „Er þvílíkt skraut ekki til í neinu öðru húsi á jörðinni,“ segir í ritinu „Íslensk bygging“ um hvelfinguna. Á gólfi anddyris eru hellur úr grásteini sem sóttur var í Öskjuhlíð og fyrir framan Hátíðasal byggingarinnar eru hellur úr rauðu líparíti. 

Stúdentar og verkamenn sem unnu við að grafa grunn Aðalbyggingar. Guðjón Klemensson læknir átti myndina.

Þess má geta að Guðjón Samúelsson lagði ekki aðeins mikið á sig við hönnun sjálfrar byggingarinnar heldur teiknaði hann einnig borð og bekki inn í kennslustofur. Stór hópur kom auk þess að framkvæmdum við bygginguna sem tóku, eins og áður sagði, tæp fjögur ár.

Vígsla í skugga heimsstyrjaldar og hernáms

Þann 17. júní 1940 var Aðalbygging Háskóla Íslands vígð við athöfn sem fram fór í Hátíðasalnum. Þeir vályndu tímar sem voru í heiminum vörpuðu þó nokkrum skugga á hátíðahöldin og bentu ræðumenn m.a. á að á meðan sprengjum rigndi yfir menntasetur margra evrópskra ríkja vígðu Íslendingar sér menntasetur. Því voru engin veisluhöld vegna vígslunnar. Íslendingar höfðu heldur ekki farið varhluta af þessum ólgutímum enda höfðu Bretar þá nýverið nýverið hermumið landið. Breski herinn lagði undir sig fjölmargar byggingar í miðborginni, þar á meðal Stúdentagarða háskólans við Hringbraut, en hins vegar lét hann einhverra hluta vegna Aðalbyggingu háskólans algjörlega vera. 

Frá hátíðahöldum vegna vígslu Aðalbyggingar 17. júní 1940. Mynd/Vignir

Þegar Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 voru nemendur aðeins 45 en þeir voru hins vegar orðnir fimmfalt fleiri þegar starfsemi skólans fluttist í Aðalbyggingu haustið 1940. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikil bylting flutningurinn úr Alþingishúsinu á Austurvelli yfir í nýbygginguna á Melunum hefur verið bæði fyrir starfsmenn og stúdenta. 

Kennsla hefur farið fram í Aðalbyggingu alla tíð síðan og í dag er hún í senn kennsluhúsnæði og skrifstofuhúsnæði fyrir bæði kennara og almennt starfsfólk Háskóla Íslands. 

Heimildir: 

- Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands. 1986. Páll Sigurðsson tók saman.

- Íslenzk bygging: brautryðjandastarf Guðjóns Samúelssonar. 1957. Texti og ritstjórn: Jónas Jónsson og Benedikt Gröndal.

- Svipmyndir úr sögunni. Vefur um sögu Háskóla Íslands (áratugurinn 1931-1940): http://aldarafmaeli.hi.is/aratugur/1911-1920

Óhætt er að segja að Aðalbygging Háskóla Íslands sé orðin tákn skólans í hugum margra.
Aðalbyggingin er elsta háskólabygging landsins en 75 ár eru frá því að hún var vígð.
Frá vígsluathöfninni í Hátíðasal. MYND/Vignir