Skip to main content
4. mars 2019

300 milljóna styrkur fyrir lífsýnasafn vegna Blóðskimunar til bjargar

Rannsóknarhópur undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðings við Landspítala, hefur hlotið 300 milljóna króna styrk til þess að byggja upp einstakt lífsýnasafn í tengslum við þjóðarátakið Blóðskimun til bjargar, eina umfangsmestu vísindarannsókn sem farið hefur fram í heiminum. Alls taka  80 þúsund manns á Íslandi þátt í rannsókninni.

Styrkurinn er veittur í gegnum Black Swan Research Initiative, verkefni innan góðgerðasamtakanna International Myeloma Foundation (IMF). Um er að ræða elsta og stærsta sjóð í heimi sem styrkir sérstaklega rannsóknir á mergæxlum en markmið hans er að stuðla að lækningu mergæxlis og bættum lífsgæðum fyrir mergæxlissjúklinga bæði með rannsóknum, fræðslu, stuðningi og ráðgjöf. Sjúkdómurinn er ólæknandi og árlega greinast um 25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 200 þúsund manns í heiminum öllum. Samfara auknum rannsóknum á sjúkdómnum og nýjum og betri lyfjum hafa horfur sjúklinga með mergæxli hins vegar batnað gríðarlega síðastliðin ár. 

Þjóðarátakinu Blóðskimun til bjargar var ýtt úr vör haustið 2016 í samstarfi Háskóla Íslands, Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands. Markmið þess er að rannsaka áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis og komast að orsökum sjúkdómsins til þess að bæta líf þeirra sem greinast með mergæxli og leita um leið lækninga við honum. Var öllum einstaklingum, sem fæddir eru 1975 eða fyrr hér á landi, boðið að taka þátt í henni.

80 þúsund manns samþykktu þátttöku í rannsókninni. Rúmum tveimur árum síðar hafa tæplega 50 þúsund sýni verið send til rannsóknarhópsins til skimunar fyrir forstigi mergæxlis. U.þ.b. 2200 manns hafa greinst með forstig mergæxlis, þar af hafa um 90 manns greinst með svokallað mallandi mergæxli, sem er eins konar millistig sjúkdómsins í þróun hans frá forstigi að mergæxli. Í gegnum rannsóknina hafa 16 manns greinst með mergæxli og tengda sjúkdóma og hafa þurft á meðferð að halda og eru komin í meðferð á Landspítala. 

Styrkurinn nú gerir Sigurði Yngva Kristinssyni og samstarfsfólki hans kleift að byggja upp einstakt lífsýnasafn í kringum verkefnið Blóðskimunar til bjargar. „Við munum geta safnað lífsýnum, eins og blóði og beinmerg, úr þátttakendum sem hægt er að nota í frekari rannsóknir varðandi greiningar og horfur á forstigi mergæxlis. Þannig verður hægt að nota nýja tækni þegar hún verður til og sækja þessi sýni í frystinn. Einnig munum við geta beitt mun næmari aðferðum til að greina með mikilli nákvæmni mergæxlisfrumur þótt þær séu eingöngu ein af milljón, bæði í beinmerg og blóði,“ segir Sigurður Yngvi enn fremur.

„Fyrst og fremst mun skapast ómetanleg vitneskja um forstig mergæxlis og eftirfylgni þess. Að geta greint mergæxli fyrr en ella mun verða til þess að sjúklingar framtíðarinnar fái nákvæmari greiningu en nú er og sjúklingar með mergæxli fá bestu meðferð við sjúkdómi sínum," segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðing við Landspítala. MYND/Kristinn Ingvarsson

Styrkurinn hefur gríðarlega þýðingu
Sigurður Yngvi bendir jafnframt á að á þessu ári muni rannsakendur byrja að hafa samband við þá sem samþykkt hafa þátttöku í rannsókninni en ekki enn gefið sýni, til að bjóða þeim í blóðprufu. „Samhliða því höldum við áfram að hitta þátttakendur sem greinast með forstig mergæxlis og fylgja þeim eftir árlega, en þá hittum við í rannsóknarsetri okkar í kjallara Krabbameinsfélags Íslands en einnig í móttökustöðvum sem við setjum upp reglulega nokkra daga í senn á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.“ 

Styrkurinn frá Black Swan Research Initiative er mikil viðurkenning á því mikla og góða vísindastarfi sem þegar hefur verið unnið í tengslum við verkefnið og undirstrikar þýðingu þess á alþjóðavettvangi. Sigurður Yngvi segir hann hafa gríðarlega þýðingu fyrir rannsóknina og geri aðstandendum hennar  m.a. kleift að ráða inn fleiri vísindamenn í teymið til að tryggja að rannsóknin verði í hæsta gæðaflokki á heimsvísu. Nú eru 15 manns í fullu starfi við verkefnið auk fimm doktorsnema og um það bil 20 meðrannsakenda. 

Hann segir enn fremur að lífsgæðahluti rannsóknarinnar sé gríðarlega mikilvægur svo hægt sé að svara meginrannsóknarspurningunni – borgar sig að skima fyrir forstigi mergæxlis? „Með frábærri þátttöku í rannsókninni og ótrúlegri svörun við þeim spurningalistum sem við biðjum alla þátttakendur um að gefa sér tíma í, skapast dýrmæt vitneskja sem er einfaldlega ekki til sem mun gefa sterkar vísbendingar um hvaða áhrif skimun eða vitneskja um mögulega sjúkdóma getur haft á líf og líðan fólks,“ segir hann. 

Verkefnið Blóðskimun til bjargar hefur því mikla þýðingu fyrir samfélagið. „Fyrst og fremst mun skapast ómetanleg vitneskja um forstig mergæxlis og eftirfylgni þess. Að geta greint mergæxli fyrr en ella mun verða til þess að sjúklingar framtíðarinnar fái nákvæmari greiningu en nú er og sjúklingar með mergæxli fá bestu meðferð við sjúkdómi sínum. Þátttakendur sem greinast með forstig mergæxlis fá auðvitað áframhaldandi eftirfylgd í eftirliti og sjúklingar með mergæxli eru meðhöndlaðir fyrr en ella. Einnig munum við geta búið til nýtt áhættulíkan sem hjálpar okkur að meta hvaða sjúklingar með forstig mergæxlis eru í mestri áhættu á að þróa með sér mergæxli. Því verður hægt að fylgjast betur með þeim og jafnvel veita lyfjameðferð.“

Hópurinn sem stendur að rannsókninni