Skip to main content

Læknis- og bókmenntafræði hönd í hönd

Ásdís Egilsdóttir og Dagný Kristjánsdóttir, prófessorar við Íslensku- og menningardeild, og Bryndís Benediktsdóttir, prófessor við Læknadeild

Ótal margt annað en sjúkdómar valda veikindum og vanlíðan, segja þær Bryndís Benediktsdóttir, prófessor í samskiptafræði, Ásdís Egilsdóttir og Dagný Kristjánsdóttir, prófessorar í íslenskum bókmenntum, sem vinna ásamt fleirum að framgangi nýrrar fræðigreinar sem byggist á samstarfi lækna og bókmenntafræðinga og kallast á ensku ´Narrative medicine‘ eða frásagnarlæknisfræði.

„Reynslan sýnir að þrátt fyrir að uppgötvanir raunvísindanna hafi á síðustu áratugum gjörbreytt þekkingu manna á mannslíkamanum og gefið áður óþekkt tækifæri til greiningar og meðhöndlunar sjúkdóma er ljóst að raunvísindi nýtast ekki sem skyldi ef ekki er samtímis hugað að mannlegri upplifun þeirra sem veikir eru og lögð áhersla á að lækna manneskjuna í heild en ekki einungis að gera við biluð líffæri,“ segir Bryndís. Fræðigreinin er m.a. sprottin af þörf læknanema að læra um samskipti við sjúklinga.

„Til að skoða og ræða samskipti og lifa sig inn í aðstæður þarf frásögn af reynslu sem hvergi er betur lýst en í fagurbókmenntum. Því var fljótlega farið að nota bókmenntatexta sem umræðugrundvöll um aðferðir í samskiptum, sem virtust nýtast vel, til að benda á það sem miður fór, ræða tilfinningar sem vakna, upplifun samkenndar og fagmennsku í starfi,“ segir Ásdís sem er í viðtali í sjónvarpsþáttaröðinni Fjársjóður framtíðar þar sem fjallað er um tengsl bókmennta og sjúkdóma.

Kveikjan að samstarfi Læknadeildar og Hugvísindasviðs á þessu sviði var útvarpsviðtal við Ásdísi sem Bryndís heyrði fyrir tilviljun vorið 2012 en þar sagði Ásdís frá norrænu tengslaneti fræðimanna og lækna á þessu sviði.

Ásdís Egilsdóttir, Dagný Kristjánsdóttir og Bryndís Benediktsdóttir

„Til að skoða og ræða samskipti og lifa sig inn í aðstæður þarf frásögn af reynslu sem hvergi er betur lýst en í fagurbókmenntum.“

Ásdís Egilsdóttir, Dagný Kristjánsdóttir og Bryndís Benediktsdóttir

„Það var eins og himnasending að heyra að hér innan Háskóla Íslands reyndust fleiri hafa sama áhuga,“ segir Bryndís en auk hennar og Ásdísar kemur Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum, einnig að samstarfinu ásamt læknum og doktorsnemum úr íslenskum bókmenntum.

Læknadeild og Hugvísindasvið hafa unnið saman að mörgum verkefnum tengdum fræði- greininni. Þau felast m.a. í því að læknanemar lesa texta úr fagurbókmenntum og greina hann með hjálp læknis og bókmenntafræðings.

„Til dæmis hefur verið lesinn kafli úr JóJó, bók Steinunnar Sigurðardóttur, en þar er samtal læknis og sjúklings skoðað og greint og skapast þá gjarnan umræður um hvernig sé vænlegast að nálgast vanda sjúklings,“ segir Dagný og bætir við að þótt samstarfið hafi einkum beinst að kennslu læknanema og erindum fyrir lækna nýtist aðferðin sem slík öllum heilbrigðisstéttum og fagfólki í félagsþjónustu.

Þær stöllur segja greinina ört vaxandi og ánægjulegt hafi verið að finna áhuga ungs fólks, bæði læknanema og bókmenntafræðinema, á þessu fagi.

„Læknavísindin og læknislistin, bókmenntir og mannvísindi verða að fara saman hönd í hönd til að ná árangri í læknisfræði. Þetta mannlega sjónarhorn er ekki bara mikilvægt í læknisfræði heldur í heimi raunvísinda og í samfélaginu almennt og það sama gildir í heimi hugvísindanna,“ segja þær að lokum.