Skip to main content

Tengsl meðgöngukvilla móður og ADHD hjá börnum

Helga Zoëga, dósent í lýðheilsuvísindum

„Við teljum að um se að ræða einstakt tækifæri til að svara mikilvægum spurningum um hugsanlegt samband á milli algengra sjúkdóma á meðgöngu og tauga- og námsþroska barna. ADHD telst nú meðal algengustu geðheilsuvandamála barna á skólaaldri en 5–10% skólabarna glíma við einkenni þessarar röskunar. Ljóst er að mikilvægt er að finna áhættuþætti,“ segir Helga Zoëga, dósent í lýðheilsuvísindum. Hún skoðar nú hvort samband finnst milli háþrýstings og sykursýki hjá móður á meðgöngu og taugaþroska og námsframvindu barna með áherslu á athyglisbrest og ofvirkni, eða ADHD eins og það er kallað í daglegu tali.

Helga Zoëga

Helga skoðar nú hvort samband finnst milli háþrýstings og sykursýki hjá móður á meðgöngu og taugaþroska og námsframvindu barna með áherslu á athyglisbrest og ofvirkni, eða ADHD eins og það er kallað í daglegu tali.

Helga Zoëga

Helga lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2011 en þar rannsakaði hún notkun ADHD-lyfja á Norðurlöndunum og áhrif lyfjameðferðar við röskuninni á námsárangur. „Í doktorsnáminu varð mér ljóst að áhrifaþættir ADHD væru að miklu leyti óþekktir og að enn minna væri vitað um áhrif umhverfisþátta í móðurkviði á taugaþroska barna. Ég vildi nýta þau einstöku gagnasöfn sem við búum yfir á Íslandi til að færa fram þekkingu á þessu sviði. Hér höfum við upplýsingar um allar meðgöngur og fæðingar á landinu, námsárangur barnanna og lyfjanotkun við meðferð á ADHD og getum fylgt eftir einstaklingum úr móðurkviði fram til unglingsaldurs,“ útskýrir Helga.

Í rannsókninni, sem nú stendur yfir, skoðar Helga gögn sem ná til allra barna á Íslandi fæddra á árunum 1989–2004, samtals rúmlega 65.000 barna. „Í svona rannsókn fer mjög mikill tími í að undirbúa gögn, dulkóða og tengja saman á milli gagnagrunna. Sú vinna er í fullum gangi og er unnin í mjög góðu samstarfi við Embætti landlæknis og Námsmatsstofnun. Að samtengingu lokinni fáum við rannsakendur loks gögn, með öllu ópersónurekjanleg, og hefjumst þá strax handa við að vinna niðurstöður,“ segir Helga sem býst við fyrstu niðurstöðum á árinu 2014.

Rannsóknin hefur mikla þýðingu því að háþrýstingur og sykursýki á meðgöngu hafa orðið æ algengari á síðari árum og haldist í hendur við að verðandi mæður verða sífellt þyngri og eldri, eins og Helga bendir á. „Áætlað er að 6–8% kvenna glími nú við einkenni háþrýstings og sykursýki á meðgöngu. Þróunin kallar á að fólk sé upplýst um hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir börnin bæði til skamms og langs tíma. Þegar hefur verið sýnt fram á að bæði háþrýstingur og meðgöngusykursýki auki líkur á vandamálum við fæðingu og eftir hana en minna er vitað um langtímaáhrif þessa á þroska barna,“ segir Helga.