Skip to main content

Náttúrulegar varnir lungnaþekju efldar

Skarphéðinn Halldórsson, doktorsnemi í Líf- og umhverfisvísindadeild

„Ég vil skilja betur hvernig náttúrulegum vörnum lungnaþekjunnar er stjórnað, hvernig efla megi varnir með lyfjagjöf og hugsanlega berjast gegn sýkingum án notkunar hefðbundinna sýklalyfja," segir Skarphéðinn Halldórsson, doktorsnemi í líffræði. Hann er í rannsóknahóp með líffræðingum og læknum.

Skarphéðinn Halldórsson

„Kveikjan að verkefninu er sú hugmynd að lyfjagjöf geti haft áhrif á þessar varnir í lungnaþekjunni, hjálpað þekjunni að hjálpa sér sjálfri."

Skarphéðinn Halldórsson

Yfirborð líkamans, húðin, meltingarvegurinn og lungnaþekjan búa yfir ákveðnum varnareiginleikum. Þessi líffæri hindra óheftan aðgang sýkla að líkamanum. Varnirnar eru tvíþættar. Annars vegar hindrar bygging líffæranna þennan aðgang og hins vegar er um að ræða kemískar varnir sem hindra vöxt sýkla á yfirborði líkamans.

„Kveikjan að verkefninu er sú hugmynd að lyfjagjöf geti haft áhrif á þessar varnir í lungnaþekjunni, hjálpað þekjunni að hjálpa sér sjálfri," segir Skarphéðinn. Rannsóknin tekur á ört vaxandi vandamáli, sem er lyfjaónæmi margra sýkla. Einnig mætti hugsa sér að nýta sér niðurstöður gegn erfiðum sýkingum sem hefðbundin sýklalyf vinna illa á. Skarphéðinn bendir á að rannsóknirnar séu á grunnstigi og erfitt sé að sjá fyrir hvert þær leiða. Þær muni vonandi gagnast við áframhaldandi rannsóknir um tengd efni.

Leiðbeinandi: Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor í Líf- og umhverfisvísindadeild