Skip to main content

Um hið persónulega og hið pólitíska: Frá kvennabaráttu til mannréttinda

Um hið persónulega og hið pólitíska: Frá kvennabaráttu til mannréttinda - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. nóvember 2018 12:00 til 13:00
Hvar 

Háskólabíó - HB 5

Nánar 
Aðgangur ókeypis

MARK Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna og Heimspekistofnun Háskóla Íslands kynna:

 

Dr. Valgerður Pálmdóttir kynnir doktorsrannsókn sína sem ber heitið Perplexities of the personal and the political: how women's liberation became women's human rights.

 

Í rannsókninni fjallar Valgerður um hvernig baráttan gegn ofbeldi gegn konum hefur tekið breytingum í áranna rás. Hin femíníska orðræða sem var ráðandi á 7. áratug síðustu aldar var smám saman leyst af hólmi af orðræðu um mannréttindi kvenna. Eftir að hin alþjóðlega kvennahreyfing tileinkaði sér tungutak og aðferðir mannréttindabaráttunnar á 10. áratugnum færðist þungamiðjan frá því að efla eigin vitund og sjálfsmynd kvenna, yfir í að vekja pólitíska meðlíðan annarra. Áherslan á meðvitund kvenna og réttláta reiði yfir ranglátu kerfi vék smám saman fyrir áherslu á að auka skilning annarra á stöðu kvenna, sérstaklega aðila með stofnanalegt og pólitískt vald.

 

Í ritgerðinni skoðar Valgerður femínískar hugmyndir um persónulegan vitnisburð og hvernig hann er nýttur í kvennapólitískri baráttu. Til grundvallar leggur hún tvo svokallaða alþýðudómstóla (people’s tribunals) í málefnum er varða ofbeldi gegn konum. Hugmyndina um alþýðudómstóla fékk kvennahreyfingin frá baráttunni gegn Víetnam-stríðinu á 7. áratug síðustu aldar, en alþýðudómstólar eru nokkurs konar táknræn réttarhöld án lagalegs valds, með það að markmiði að gagnrýna ranglæti og varnarleysi jaðarsettra hópa og auka vitund þeirra um eigin stöðu.

 

Merking hins persónulega vitnisburðar er miðlæg í rannsókninni.

Rannsóknin sýnir að einkunnarorðin „hið persónulega er pólitískt“ hafa margræða þýðingu í sögu kvennabaráttunnar og að mismunandi skilningur hefur verið lagður í þau allt eftir sögulegu, pólitísku og fræðilegu samhengi. Slagorðið „hið persónulega er pólitískt“ er því ekki barn síns tíma heldur lifandi baráttutæki sem nýst getur undirskipuðum og jaðarsettum hópum í margvíslegu samhengi.

Dr. Valgerður Pálmdóttir kynnir doktorsrannsókn sína sem ber heitið Perplexities of the personal and the political: how women's liberation became women's human rights.

Um hið persónulega og hið pólitíska: Frá kvennabaráttu til mannréttinda