Meistaravörn í lyfjafræði - Tinna Harðardóttir | Háskóli Íslands Skip to main content

Meistaravörn í lyfjafræði - Tinna Harðardóttir

Hvenær 
16. maí 2019 9:05 til 9:30
Hvar 

Askja

stofa 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 16. maí ver Tinna Harðardóttir MS verkefni sitt í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið “Hvert viljum við stefna?”: Staða lyfjafræðinga í apótekum á Íslandi

Prófdómarar eru dr. Guðrún Þengilsdóttir í yfirstjórn og gæðadeild Distica og dr. Bergþóra Sigríður Snorradóttir, lektor við Lyfjafræðideild.

Leiðbeinandi og umsjónarkennari verkefnisins var dr. Anna Bryndís Blöndal, lektor við Lyfjafræðideild.

Ágrip af rannsókn

Á síðustu áratugum hefur hlutverk lyfjafræðinga í apótekum tekið breytingum frá framleiðslu og dreifingu lyfja í átt að faglegri þjónustu lyfjafræðings sem gegnir mikilvægum þætti í heilbrigðiskerfinu. Markmið verkefnisins var því að rannsaka núverandi stöðu lyfjafræðinga í apótekum á Íslandi. Kannað var hvort þurfi og þá hvernig hægt sé að auka hlutverk apótekslyfjafræðinga í tengslum við aukna faglega þjónustu. Auk þess var viðhorf lyfjafræðinga til lækna rannsakað og núverandi samskipti þeirra á milli könnuð. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þættir sem hafa áhrif á að fagleg þjónusta lyfjafræðings standi til boða í apótekum hérlendis voru: skortur á lyfjafræðingum á vakt, tímaskortur lyfjafræðings, greiðsla þjónustunnar, samstarf lækna og lyfjafræðinga, uppsetning apóteka og, færni og klínísk þjálfun lyfjafræðings til að veita faglega lyfjafræðiþjónustu. Jafnframt sýndu niðurstöðurnar að samskipti lækna og apótekslyfjafræðinga eru góð en snúast fyrst og fremst um praktísk atriði en ekki klínísk.

Um nemandann

Tinna Harðardóttir er fædd þann 15. mars árið 1990 í Reykjavík, eldri af tveimur börnum foreldra sinna. Foreldrar hennar eru Hörður Gunnarsson, skipstjóri og viðskiptafræðingur og Sigurjóna Valdís Sævarsdóttir, garðyrkjufræðingur. Tinna er í sambúð með Jóni Auðuni Auðunarsyni, viðskiptafræðingi, sem starfar sem skipamiðlari í Gáru. Saman eiga þau tvo syni, Alexander 8 ára og Benedikt 1 árs.
Eftir grunnskóla var Tinna mjög óviss um hvað sig langaði til að gera í framtíðinni. Því lá leið hennar í Tækniskólann í Reykjavík þegar hún var 16 ára þar sem hún skráði sig í hársnyrtinám. Þegar leið á námið fann Tinna það að þessi starfsgrein hentaði henni ekki. Hinsvegar heillaði efnafræði hárlitunar Tinnu mikið og var hún nokkuð vel að sér á því sviði. Árið 2011 útskrifaðist hún með sveinspróf úr hársnyrtiiðn og í framhaldi af því fór hún í fæðingarorlof með eldri syni sínum sem fæddist sama ár. Árið 2012 skráði Tinna sig í háskólabrú Keilis á Verk-og raunvísindabraut og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf 2013.
Þegar kom að því að velja námsleið við Háskóla Íslands árið 2014 varð lyfjafræði fyrir valinu þar sem námsskráin innihélt mikla efnafræði og aðrar raungreinar. Tinna segist svo sannarlega ekki sjá eftir þeirri ákvörðun þar sem áhugi hennar á greininni hefur bara aukist við námið. Tinna segir námsárin sín við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands hafa verið mjög þroskandi, lærdómsrík og skemmtileg.
Að loknu meistaranámi stefnir Tinna á að vinna sem lyfjafræðingur í apóteki. Önnur framtíðarplön eru óráðin en Tinna hefur áhuga á því að prófa ýmis svið innan lyfjafræðinnar, hvort sem það verður við áframhaldandi nám í greininni eða önnur störf.

Fimmtudaginn 16. maí ver Tinna Harðardóttir MS verkefni sitt í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið “Hvert viljum við stefna?”: Staða lyfjafræðinga í apótekum á Íslandi

Meistaravörn í lyfjafræði - Tinna Harðardóttir