Meistaravörn í lyfjafræði - Aron Elvar Gylfason | Háskóli Íslands Skip to main content

Meistaravörn í lyfjafræði - Aron Elvar Gylfason

Hvenær 
16. maí 2019 13:15 til 13:40
Hvar 

Askja

stofa 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 16. maí ver Aron Elvar Gylfason MS verkefni sitt í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Content and distribution of usnic acid enantiomers in three Icelandic lichen taxa

Prófdómarar eru dr. Sophie Jensen hjá Matís, og dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild.

Leiðbeinendur Arons Elvars voru dr. Maonian Xu, nýdoktor við Lyfjafræðideild og Bergþóra Sigríður Snorradóttir, lektor við Lyfjafræðideild, en hún var jafnframt umsjónarkennari verkefnisins.

Ágrip af rannsókn

Fléttutegundir voru notaðar sem hefðbundin lyf fyrir uppgötvun pensillínsýklalyfja og aukið fjöllyfja ónæmi hefur endurnýjað áhugann á þeim. Úsnínsýra er eitt algengasta og um leið mest rannsakaða innihaldsefni fléttutegunda. (+)-Handhverfan af úsnínsýru hefur öflugri örverudrepandi virkni (sérstaklega gegn Gram-jákvæðum bakteríum) á meðan (-)-handhverfan sýnir væga sveppaeyðandi virkni og mikil plöntueituráhrif. Markmið verkefnisins var að ákvarða heildarinnihald úsnínsýru og dreifingu úsnínsýruhandhverfa í þremur algengum fléttum á Íslandi, maríugrösum (Flavocetraria nivalis), hreindýramosa (Cladonia arbuscula) og skollakræðu (Alectoria ochroleuca). UPLC-PDA-MS-aðferð var þróuð og gilduð fyrir ákvörðun á heildarinnihaldi úsnínsýru í fléttum. Innihald úsnínsýru var á bilinu 1,77% til 4,50%. Hlutfall (+)- og (-)-úsnínsýru var verulega breytilegt milli tegunda. Flavocetraria nivalis innihélt meðalhlutfallið 1,76%:98,24%, Cladonia arbuscula innihélt meðalhlutfallið 96,77%:3,23% og Alectoria ochroleuca innihélt einungis (-)-úsnínsýru.

Um nemandann

Aron Elvar er fæddur á Akranesi 15. október árið 1993 en ólst upp í Reykjavík til 6 ára aldurs og flutti þaðan til Danmerkur þar sem hann bjó til ársins 2004. Hann lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum árið 2012 og hóf nám í lyfjafræði haustið 2013. Foreldrar Arons eru Gylfi Þór Bragason og Sigrún Gliese Jónsdóttir. Aron hóf störf hjá Lyfjaver ehf um haustið 2017 og mun starfa þar sem lyfjafræðingur eftir útskrift.

Fimmtudaginn 16. maí ver Aron Elvar Gylfason MS verkefni sitt í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Content and distribution of usnic acid enantiomers in three Icelandic lichen taxa

Meistaravörn í lyfjafræði - Aron Elvar Gylfason