Skip to main content

Hádegisfundur Heimspekistofnunar: Ásetningur og þekking í skapandi ferli

Hádegisfundur Heimspekistofnunar: Ásetningur og þekking í skapandi ferli - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. nóvember 2018 12:00 til 13:00
Hvar 

Oddi

Stofa 206

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 15. nóvember kl. 12:00 flytur Jóhannes Dagsson erindi á Hádegisfundi Heimspekistofnunar í stofu 206 í Odda. Erindi hans ber heitið: Ásetningur og þekking í skapandi ferli.

Listaverk eru afsprengi skapandi ferlis. Einn þeirra þátta sem hefur áhrif þetta ferli er þekking gerandans sem við köllum oft listamann eða höfund. Sú þekking getur verið hvort heldur sem er verkleg eða fræðileg. Ásetningur listamanns eða höfundar er einn af þeim verufræðilegu kennimörkum sem við beitum á listaverk og er mikilvægur þáttur í því hvaða merkingu við gefum listaverkum. Ásetningur höfundar og þekking eru um margt samofin í skapandi ferlum.

Í erindinu verður samband ásetnings og þekkingar skoðað annarsvegar í samhengi við hugmyndir um áhrif þekkingar á skynjun og hinsvegar við hugmyndir um athafnir sem framkvæmdar eru af ásetningi. Veitt verður innsýn í rannsókn sem er ennþá í mótun og áheyrendum gefst þannig tækifæri til að hugsa með rannsakandanum og taka þátt í hugleiðingum sem ekki er útséð um hvert muni leiða. Erindið byrjar á stuttri kortlagningu á því landslagi sem verkefnið er staðsett í, þar næst verður ramminn þrengdur og lykilspurningar dregnar upp. Að lokum er boðið upp á opnar umræður um viðfangsefnið.

Jóhannes Dagsson er heimspekingur og myndlistarmaður og lektor við Listaháskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá University of Calgary í Kandada árið 2012. Rannsóknir hans liggja á mörkum hugspeki, málspeki og fagurfræði og fást einkum við spurningar um merkingu og skynjun í samhengi listaverksins. Erindið er hluti af rannsókn sem fer fram í rannsóknarleyfi höfundar við Listaháskóla Íslands.

Jóhannes Dagsson.

Hádegisfundur Heimspekistofnunar: Ásetningur og þekking í skapandi ferli