Skip to main content

Doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild: Þorgeir Sigurðsson

Doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild: Þorgeir Sigurðsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. júní 2019 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 21. júní 2019 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Þorgeir Sigurðsson doktorsritgerð sína í íslenskri málfræði sem nefnist Hin ólæsilega Arinbjarnarkviða, varðveisla, bragform og endurgerður texti (The unreadable poem of Arinbjǫrn, preservation, meter, and a restored text). Andmælendur eru Matthew James Driscoll, prófessor við Árnastofnun í Kaupmannahafnarháskóla, og Klaus Johann Myrvoll, dósent við Háskólann í Stafangri.

Doktorsritgerðin er unnin undir leiðsögn Kristjáns Árnasonar, prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Aðrir í doktorsnefnd eru Guðvarður Már Gunnlaugsson, Jón Axel Harðarson og Þórhallur Eyþórsson.

Torfi Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Rannsóknin tekur á álitamálum um Arinbjarnarkviðu Egils Skallagrímssonar. Kviðan er aðeins varðveitt aftan við Egils sögu í Möðruvallabók og er ólæsileg með berum augum. Til eru gamlar pappírsuppskriftir eftir Möðruvallabók. Álitamál eru meðal annars um hvort kvæðið hafi allt verið skráð í Möðruvallabók, um aldur þess og um gæði textans. Leitað er svara við spurningum um þessi álitamál með endurskoðun hugmynda um elstu pappírsafskriftir, með endurskoðun kenninga um hátt kviðunnar og með nýjum fjölrásamyndum af Möðruvallabók. Segja má að heildarniðurstaða rannsóknarinnar sé að kviðan sé gömul og betur varðveitt en almennt hefur verið talið. Almennar niðurstöður eru einnig dregnar, meðal annars um hátt kviðunnar (kviðuhátt) og hvernig hann nýtir áherslulaus sérhljóð í fornu máli.

Doktorsefnið

Þorgeir Sigurðsson lauk M.S.-prófi í rafmagnsverkfræði frá DTU í Kaupmannahöfn 1983. Hann lauk B.A.–prófi í íslensku frá  H.Í. 1991 og  M.A.–prófi í íslenskum fræðum frá sama skóla 2003. Á námstímanum hlaut hann styrk frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Hann vinnur nú ásamt Hauki Þorgeirssyni að útgáfu Snorra-Eddu fyrir Hið íslenska fornritafélag.

Þorgeir Sigurðsson.

Doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild: Þorgeir Sigurðsson