Skip to main content

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Ingunn Gunnarsdóttir

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Ingunn Gunnarsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. desember 2020 14:00 til 16:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Stofa 023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi:  https://www.youtube.com/user/HIvarp/live

Doktorsefni: Ingunn Gunnarsdóttir

Heiti ritgerðar: Í átt að sjálfbærri orkuframtíð: sjálfbærnivísar og þátttaka hagsmunaaðila (Towards sustainable energy development: sustainability indicators and stakeholders)

Andmælendur:
Dr. Anthony Patt, prófessor í loftslagsvernd og aðlögun við ETH Zürich, Sviss
Dr. Dalia Streimikiene, rannsakandi við Orkustofnun Litháen

Leiðbeinandi: Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Ernst Worrell, prófessor við Utrecht-háskóla, Hollandi
Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Doktorsvörn stýrir:  Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands.

Ágrip

Sjálfbær orkuþróun er forsenda þess að ná sjálfbærri orkuframtíð. Óljóst er hvað sú framtíð felur í sér eða hvernig skuli ná þangað. Markmið þessarar doktorsrannsóknar var að rýna hvað sjálfbær orkuframtíð hefur í för með sér og hvernig hagsmunaaðilar geta mælt árangur í átt að sjálfbærri orkuþróun. Hugtakið sjálfbær orkuþróun er í eðli sínu óskýrt og skilningur á því hefur breyst og þróast umtalsvert í gegnum árin. Í rannsókninni var tvenns konar nálgun þróuð í þeim tilgangi að fanga merkingu hugtaksins. Yfirgripsmikil rýni á vitneskju sem er til staðar með tilvitnanagreiningu leiddi til almennrar skilgreiningar. Samtal við hagsmunaaðila leiddi til sértækrar skilgreiningar. Jafnvel þó að þessum skilgreiningum svipi hvorri til annarrar sýndi greiningin að sjálfbær orkuþróun fyrir eitt orkukerfi þarf ekki að vera heimfæranleg á annað orkukerfi. Blönduð aðferð af viðtölum, rýnihópum og Delphi-könnun getur verið nytsamleg nálgun til að greina tækifæri og aðkallandi áskoranir fyrir orkuþróun í vissu samhengi.

Ítarleg rýni á núverandi vísum fyrir sjálfbæra orkuþróun og aðferðafræði við val þeirra sýndi fram á svigrúm til úrbóta. Því var ný nálgun við val á sjálfbærnivísum þróuð sem byggist á þátttöku hagsmunaaðila. Mögulegt er að velja sjálfbærnivísa sem endurspegla viðeigandi tækifæri og áskoranir fyrir orkuþróun með samtali við hagsmunaaðila. Með því er eignarhald og skilningur hagsmunaaðila á vísunum einnig aukinn. Árangursríkt sett af sjálfbærnivísum getur mælt árangur, upplýst aðgerðir og miðlað mikilvægum upplýsingum. Með samþættingu sjálfbærnivísa, kviks kerfislíkans og rýni á margþættri ákvarðanatöku er mögulegt að greina mismunandi sviðsmyndir og bera kennsl á hverjar þeirra fela í sér sjálfbæra orkuframtíð.

Um doktorsefnið

Ingunn Gunnarsdóttir fæddist í Bandaríkjunum árið 1990 en ólst upp á Íslandi með þremur bræðrum. Eftir stúdentspróf sneri hún aftur til Bandaríkjanna og útskrifaðist með BA-gráðu í  jarð- og umhverfisfræði frá Furman-háskóla í Suður-Karólínu og MPA-gráðu í umhverfisstjórnsýslu frá Columbia-háskóla, New York. Sambýlismaður Ingunnar er Mikael Dubik tölvunarfræðingur.

Ingunn Gunnarsdóttir

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Ingunn Gunnarsdóttir