Skip to main content

Doktorsvörn í sagnfræði: Æsa Sigurjónsdóttir

Doktorsvörn í sagnfræði: Æsa Sigurjónsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. mars 2024 13:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þriðjudaginn 12. mars 2024 fer fram doktorsvörn við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Þá ver Æsa Sigurjónsdóttir doktorsritgerð sína í sagnfræði, Postnational Identities, Icelandicness and Icelandicity: Transnational and Environmental Strategies in Contemporary Art in Iceland. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Andmælendur við vörnina verða Anna Näslund, prófessor í listasögu við háskólann í Stokkhólmi og Ann-Sofie Nielsen Gremaud, dósent í dönsku við Háskóla Íslands.

Sverrir Jakobsson, deildarforseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skoða á hvaða hátt heimsvæðing listheimsins hefur mótað samtímalistir á Íslandi. Um er ræða þverfaglega nálgun sem samþættir umræðu um þjóðernishyggju, hvítleika, femínisma, og vistfræði. Hér verða rannsökuð sérkenni íslenskrar myndlistar sem byggja annars vegar á sögulegri þjóðernisvitund og hins vegar á ímyndinni um Ísland. Hvernig hafa listamenn andmælt auðkenningu og þjóðgervingu íslenskrar samtímalistar? Hvernig hafa þeir gert verndun umhverfisins að baráttumáli og viðfangi verka sinna? Með því að byggja á kenningum Rolands Barthes um merkingarauka hugmyndafræði og menningar er gerður strúktúralískur greinarmunur á því íslenska og hinu íslenskulega og sýnt fram á hversu mikil áhrif hið íslenskulega hefur haft á sjónmenningu og samtímalist. Varpað er ljósi á menningarleg áhrif ímyndasköpunar auk þess sem rætt verður hvernig innlendar liststofnanir, sem í senn eru framleiðendur og túlkendur lista, hafa tilhneigingu til að óvirkja fjölbreytt form menningarlegs andófs.

Um doktorsefnið

Æsa Sigurjónsdóttir lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og licence, maîtrise og D.E.A. í listfræði frá Université Paris-I-Panthéon Sorbonne. Hún er dósent í listfræði við Háskóla Íslands.

Æsa Sigurjónsdóttir.

Doktorsvörn í sagnfræði: Æsa Sigurjónsdóttir