Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum - Björn Rúnar Egilsson

Doktorsvörn í menntavísindum - Björn Rúnar Egilsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
28. október 2022 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 28. október fer fram doktorsvörn við Deild kennslu- og menntunarfræði, Háskóla Íslands. Þá ver Björn Rúnar Egilsson doktorsritgerð sína í menntavísindum,

Þáttaskil leik- og grunnskóla frá sjónarhóli foreldra barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn

The Transition from Preschool to Primary School: Views of Parents of Children from Diverse Backgrounds in Iceland

 Andmælendur eru dr. Helena Ackesjö dósent við Linnéuniversitetet í Svíþjóð og dr. Mariana Souto-Manning forstöðumaður Erikson Institute í Bandaríkjunum.

Aðalleiðbeinandi við gerð doktorsritgerðarinnar er dr. Jóhanna Einarsdóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Sue Dockett prófessor við Charles Sturt University í Ástralíu.

Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Michel Vandenbroeck prófessor við Ghent háskóla í Belgíu.

 Dr. Karen Rut Gísladóttir, varaforseti Deildar kennslu- og menntunarfræði stjórnar athöfninni.

 Vörnin fer fram föstudaginn 28. október kl. 9.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

https://livestream.com/hi/doktorsvornbjornrunaregilsson 

 Öll velkomin

Um rannsóknina

Þáttaskil leik- og grunnskóla eru talin einn af lykilviðburðum lífsins og líkleg til að hafa áhrif á námsárangur, þroska og vellíðan langt fram eftir ævi. Þáttaskil þessi eru jafnframt talin vera tilfinningaþrunginn tími í lífi foreldra, sem sjálfir ganga í gegn um margvíslegar breytingar og tileinka sér ólík bjargráð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu foreldra barna sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn af flutningi barnanna úr leikskóla í grunnskóla. Fjórtán þátttakendum sem áttu börn við tvo samstarfsleikskóla í Reykjavík var boðið í fjögur hálfstöðluð viðtöl á 12 mánaða tímabili, frá því að börn þeirra voru að ljúka leikskólagöngu sinni og allt til loka fyrsta árs grunnskólagöngunnar. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa bæði til kynna skörun og sundurleitni í reynslu og viðhorfum foreldra til þáttaskila leik- og grunnskóla. Leikskólinn var almennt álitinn góður staður fyrir börnin en viðhorf foreldra til eigin hlutdeildar í leikskólasamfélaginu voru blæbrigðarík. Upphaf grunnskólagöngunnar einkenndist af kynnum fjölskyldnanna af samhliða lærdómssamfélögum: grunnskólanum, frístundaheimilum, skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og móðurmálsnámi. Foreldrar höfðu uppi gagnrýni á grunnskólann og frístundaheimilin og virtust virkari þegar kom að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og móðurmálsnámi. Frásagnir einstakra þátttakenda af því að grípa til eigin ráða þegar velferð barnsins var talið ógnað, af gagnrýnu endurmati og uppgjöri við eigin menningarbakgrunn og uppeldi, af berskjöldun, réttindaleysi og af skorti á náms- og starfstækifærum var einnig að finna í gögnunum. Við rannsóknina kom í ljós mikilvægi þess að öðlast skilning á ólíkum sjónarhornum foreldra og þörfin fyrir frekari rannsóknir til að styðja við jákvæð þáttaskil fyrir öll börn.

Um doktorsnefnið

Björn Rúnar Egilsson fæddist í Reykjavík árið 1984. Hann lauk stúdentsprófi frá fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík 2005. Björn lauk BA-prófi í heimspeki við Háskóla Íslands 2010 og MA-prófi í sama fagi við King’s College London 2012. Árið 2017 hóf hann doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Foreldrar Björns eru Sigríður Hildur Svava Björnsdóttir og Egill Friðleifsson. Björn er giftur Hrafnhildi Linnet Runólfsdóttur og eiga þau tvö börn, Auði Katrínu og Runólf Egil.