Skip to main content

Doktorsvörn í mannfræði - Valgerður Stefánsdóttir

Doktorsvörn í mannfræði - Valgerður Stefánsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. desember 2023 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 18. desember ver Valgerður Stefánsdóttir doktorsritgerð sína Án táknmáls er ekkert líf: Upp með hendur! Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 13:00 og er öllum opin.

Leiðbeinandi Valgerðar er dr. Gísli Pálsson, prófessor emeritus við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.Í doktorsnefnd sitja dr. Pamela Joan Innes prófessor í Wyomingháskóla og dr. Rósa Signý Gísladóttir dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Andmælendur eru dr. Hallfríður Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Mirru, fræðslu- og rannsóknaseturs og dr. Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands. Vörninni stýrir dr. Ólafur Rastrick, deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.

Efni ritgerðar - meginmál

Uppruni og þróun íslensks táknmáls (ÍTM), sem fræðimenn hafa almennt talið að komi úr dönsku táknmáli, er viðfangsefni doktorsverkefnisins. Um er að ræða fyrsta heildstæða yfirlitið og rannsóknina á ÍTM.

Heyrnarlausum Íslendingum er fylgt eftir í gegnum söguna og skoðað hvenær leiðir þeirra liggja saman, hvenær döff samfélag og menning gat myndast og ÍTM gat flust frá einni kynslóð til annarrar. Skoðað er hvaða þættir styrktu lífvænleika íslensks táknmáls og hvaða þættir gætu leitt til útrýmingar málsins og döff menningar, því þrátt fyrir að vera viðurkennt í lögum er ÍTM talið vera í útrýmingarhættu.

Af rannsókninni má meðal annars draga eftirtaldar ályktanir.

Í fyrsta lagi varð íslenskt táknmál til í íslenskum veruleika en kom ekki úr dönsku táknmáli. Mál byrjaði að þróast innan skóla sem voru starfræktir hér á landi frá árinu 1867. Á 19. öldinni er ekki hægt að sjá að hér hafi orðið til málsamfélag þar sem málið gat þróast áfram eftir að kennslu lauk. Ætla má að fyrstu málgerðirnar sem urðu til hafi dáið út. Uppruna íslensks táknmáls, sem talað er í dag, má rekja til Málleysingjaskólans eins og hann var starfræktur eftir 1944. Meðal nemenda þar varð til sjálfsprottið mál úr veruleika nemenda, án tengingar við önnur mál. Málið varð flóknara með hverjum nýjum nemendahópi sem bættist við og ekki tók nema nokkrar kynslóðir að fullmóta málið.

Í öðru lagi benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að það sem styrki íslenskt táknmál hafi verið fjölbreytileg samskipti á málinu og til þess að það lifi áfram þurfi nýir málhafar að bætast við. Málið varð til meðal nemenda og þroskaðist síðan áfram og styrktist innan döff samfélags og menningar. Döff menning er óaðskiljanleg frá ÍTM og innan hennar þarf máltaka barna að fara fram. Aðrir þættir sem hafa styrkt íslenskt táknmál eru aukin menntun og aukin þátttaka döff fólks í íslensku samfélagi. Kennsla ÍTM og rannsóknir sem gerðar hafa verið, til dæmis vegna námsefnisgerðar, hafa einnig eflt málið.

Í þriðja lagi er niðurstaða rannsóknarinnar að neikvæð hugmyndafræði ráðandi afla og vantraust á ÍTM og málhöfum þess gangi eins og rauður þráður í gegnum söguna. Þessir ósýnilegu kraftar eru alvarlega ógn við tilvist ÍTM.

Fræðilegt gildi rannsóknarinnar felst fyrst og fremst í því að niðurstöður hennar skapa nýja þekkingu og bæta við skilning okkar á nýju fræðasviði hér á landi. Þekking á þessu sviði hefur hingað til verið búin til af heyrandi fólki fyrir heyrandi fólk og ekki verið samhljóða upplifunum og reynslu döff fólks. Í sögunni sem hér er sögð koma fram sjónarmið og reynsla döff fólks sem ekki hefur verið sagt frá á sama hátt áður og eru andsvar gegn ríkjandi orðræðu.

Valgerður Stefánsdóttir fæddist þann 8. september 1953. Hún lauk B.Ed. námi frá Kennaraháskóla Íslands 1977. Hún lauk námi sem kennari heyrnarlausra frá Högskolan för lärarutbildning i Stokkhólmi og lauk síðan M.A. prófi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands 2005. Hún hóf doktorsnám í mannfræði við Háskóla Íslands árið 2012, með vinnu, en hefur frá 2019 eingöngu sinnt náminu ásamt stundakennslu við sama skóla. Hún var forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra 1990 – 2019 og kennari við Heyrnleysingjaskólann 1977 –1989. Valgerður er gift Sigurði Guðna Valgeirssyni og eiga þau fjögur börn, Stefán, Valgeir, Guðna og Hrefnu og átta barnabörn.

Doktorsvörn í mannfræði - Valgerður Stefánsdóttir