Skip to main content

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum - Hildur Guðný Ásgeirsdóttir

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum - Hildur Guðný Ásgeirsdóttir  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. febrúar 2019 10:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir ver doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Suicidal behavior: The role of traumatic life events and macroeconomic fluctuations. Sjálfsskaðandi hegðun og sjálfsvíg: Áhrif efnahagssveiflna og annarra streituvaldandi atburða.

Andmælendur eru dr. Ellenor Mittendorfer-Rutz, dósent við Karolinska Institutet, Stokkhólmi, og Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Arna Hauksdóttir, prófessor við Læknadeild, og meðleiðbeinandi var dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við sömu deild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd þær Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild, dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, og dr. Ullakarin Nyberg, yfirgeðlæknir við Karolinska Institutet.

 

Dr. Ingibjörg Harðardóttir, prófessor og varaforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

  

Ágrip af rannsókn

Streita og áföll hafa í för með sér aukna áhættu á geðröskunum sem geta leitt til alvarlegri útkoma, eins og aukinnar áhættu á sjálfsvígshugsunum, sjálfsskaða, sjálfsvígstilraunum og sjálfsvígum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tengsl milli ýmissa persónulegra áfalla á lífsleiðinni og sjálfsskaða. Enn fremur var markmiðið að skoða áhrif samfélagslegs áfalls, nánar tiltekið áhrif efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008, á sjálfsskaða og sjálfsvíg.

Niðurstöður styðja fyrri rannsóknir sem sýnt hafa að áföll geti aukið hættu á sjálfsskaðandi hegðun og gefa auk þess til kynna að áhrifin geti verið sterkari fyrir karla en konur. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að með batnandi efnahag, og aukinni vergri landsframleiðslu, geti áhætta á sjálfsskaðandi hegðun og sjálfvígum aukist, sérstaklega meðal karla. Ólíkt því sem sést hefur í kjölfar efnahagshruna af þeirri stærðargráðu sem Íslendingar upplifðu 2008, þá jókst ekki heildartíðni sjálfsskaðandi hegðunar og sjálfsvíga í kjölfar hrunsins. Hugsanlega hefur félagsleg samheldni og seigla í samfélaginu auk aðgerðaráætlana í sterku velferðarkerfi á Íslandi haft þar áhrif.

  

Um doktorsefnið

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir er fædd árið 1980. Hún lauk B.Sc.-prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands árið 2006 og meistaragráðu í lýðheilsuvísindum frá sama skóla árið 2011. Hildur hefur unnið sem sjúkraþjálfari um árabil og sinnt kennslu við Námsbraut í sjúkraþjálfun og við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Hún er nú að hefja störf sem verkefnisstjóri sjálfsvígsforvarna á sviði Áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis. Foreldrar Hildar Guðnýjar eru Ásgeir Böðvarsson og Ólöf Ásta Ólafsdóttir. Maki Hildar er Sigurður Fjalar Sigurðarson og stjúpdóttir hennar er Ylfa Margrét, sjö ára, og sonur þeirra er Ásgeir Gauti eins árs.

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum - Hildur Guðný Ásgeirsdóttir