Skip to main content

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Sigríður Júlía Quirk

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Sigríður Júlía Quirk - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. apríl 2019 10:00 til 12:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þriðjudaginn 30. apríl næstkomandi ver Sigríður Júlía Quirk doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Serotype and molecular epidemiology of pneumococci in Iceland before and after pneumococcal vaccination. Hjúpgerða- og sameindafræðileg faraldsfræði pneumókokka á Íslandi fyrir og eftir pneumókokka bólusetningu.

 

Andmælendur eru dr. William Hanage, dósent við Harvard School of Public Health, og Mark van der Linden, forstöðumaður German Nationale Reference Center for Streptococci, Aachen í Þýskalandi.

 

Umsjónarkennari var dr. Karl G. Kristinsson, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi dr. Gunnsteinn Haraldsson, fræðimaður.  Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Ásgeir Haraldsson, prófessor við Læknadeild, dr. Martha Á. Hjálmarsdóttir, dósent við sömu deild, og dr. Angela B. Breggermann, prófessor við University of Oxford.

 

Engilbert Sigurðsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni.

 

Ágrip af rannsókn

Pneumókokkar eru mikilvægir sýkingarvaldar í mönnum um allan heim. Í apríl 2011 var tíu-gilda pneumókokka próteintengda bóluefnið (PHiD-CV) innleitt í ungbarnabólusetningar á Íslandi. Bóluefninu er ætlað að veita vörn þeim hjúpgerðum sem eru líklegastar til að valda alvarlegum sýkingum. Í þessari ritgerð eru áhrif bóluefnisins metin með því að skoða dreifingu hjúpgerða, arfgerða og sýklalyfjanæmi pneumókokka sem ræktast frá heilbrigðum börnum á leikskólaaldri, börnum með miðeyrnabólgu og fullorðnum einstaklingum með lungnabólgu fyrir (2009-2011) og eftir (2012-2017) innleiðingu bóluefnisins.

Algengi þess að leikskólabörn bera pneumókokka í nefkoki breyttist ekki við bólusetninguna. Stofnar af hjúpgerðum sem bóluefnið veitir vörn gegn fækkaði marktækt í öllum sýnaflokkum með samhliða fjölgun á stofnum af hjúpgerðum sem bóluefnið veitir ekki vörn gegn. Miðeyrnasýnum fækkaði og jákvæðar pneumókokkaræktanir í sýnum frá miðeyrum og neðri öndunarvegum einnig. Stofnum með minnkað næmi fyrir penisilíni fækkaði eftir bólusetningu í miðeyrnasýnum vegna fækkunar stofna af hjúpgerð 19F sem var megin orsök ónæmis. Hjarðónæmi hjá eldri óbólusettum einstaklingum var sýnilegt innan fjögurra ára frá innleiðingu bóluefnisins.

Árangur af bólusetningunni með PHiD-CV var mjög góður. Áframhaldandi eftirlit með dreifingu hjúpgerða er þó afar mikilvægt vegna valþrýstings frá bóluefnunum og fjölbreytileika bakteríunnar þar sem aðrar hjúpgerðir geta náð sér á strik. Afar mikilvægt er að tryggja að þau bóluefni sem standa til boða veiti vörn gegn þeim hjúpgerðum sem eru í umferð hverju sinni.

Um doktorsefnið

Sigríður Júlía Quirk er fædd á Englandi árið 1976. Foreldrar hennar eru Sigríður Ketilsdóttir og John B. Quirk. Börn hennar eru Júlía Nótt, Indíana Líf og Atli Jökull. Hún lauk BSc-gráðu í lífeindafræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og viðbótardiplómu til starfsréttinda í sömu grein ári síðar frá sama skóla. Hún hóf meistaranám við Læknadeild Háskóla Íslands, sem var stækkað í doktorsverkefni og unnið í samvinnu við háskólana í Oxford og Cambridge á Englandi.

Sigríður Júlía Quirk

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Sigríður Júlía Quirk