Skip to main content

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Remina Dilixiati

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Remina Dilixiati  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. mars 2019 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Remina Dilixiati ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: MITF og umritun í sortuæxlum - The role of MITF in regulating transcriptional cell states in melanoma.

Andmælendur eru dr. Melissa L. Harris, lektor við Háskólann í Alabama, Birmingham, og Sigurður Ingvarsson, prófessor við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr.Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd þau Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, dr. Erna Magnúsdóttir, dósent við Læknadeild, Lionel Larue, prófessor við Institut Curie í París, og Þórunn Rafnar, yfirmaður krabbameinsrannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Dr. Ingibjörg Harðardóttir, prófessor og varaforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni.

 

Ágrip af rannsókn

Litfrumur (e. melanocytes) eiga uppruna sinn í taugakambi (e. neural crest) sem forverafrumur sem fjölga sér og ferðast til áfangastaða sinna þar sem þær sérhæfast og mynda litarefnið melanín. Litfrumur geta ummyndast í æxlisfrumur og myndað sortuæxli. Umritunarþátturinn MITF (Microphthalmia-associated transcription factor) er nauðsynlegur fyrir myndun og starfsemi litfruma en er einnig mikilvægur fyrir ummyndun þeirra í sortuæxli. Hlutverk þess í því ferli er ekki að fullu ljóst.

Í rannsókninni var MITF genið slegið út í sortuæxlisfrumum með hjálp CRISPR-tækni og áhrif á hegðun frumanna og tjáningu gena skoðuð. Í ljós kom að frumur án MITF skipta sér hægar en viðmiðunarfrumur vegna áhrifa á tjáningu gena sem eru mikilvæg fyrir frumuhringinn. Frumurnar höfðu einnig mun minni fareiginleika en viðmiðunarfrumurnar en í ljós kom að þegar MITF vantar eykst tjáning gena sem tengjast utanfrumuefni (e. extracellular matrix) og viðloðun fruma, svo sem paxillin (PAX) og Focal Adhesion Kinase (FAK). Þetta útskýrir að hluta til hegðun frumanna. Auk þessa kom í ljós að gen sem tákna fyrir histón umbreytingarensímunumPRDM7og SETDB2voru mun minna tjáð í frumum sem skortir MITFen í viðmiðunarfrumum ásamt meðfylgjandi breytingum á histónum og í tjáningu gena. Tap á MITF leiðir því til þess að frumurnar hætta að skipta sér en um leið tjá þær ýmis utanfrumuefni og viðloðunarprótein og geta því ekki ferðast. Áhrifin sem við sjáum eru bæði vegna beinna áhrifa MITF á tjáningu gena en einnig vegna áhrifa á tjáningu umbreytingarensíma sem aftur hafa áhrif á histón og tjáningu gena.

Um doktorsefnið 

Remina er fædd 5. janúar árið 1988 í borginni Karamay í XinJiang-héraði í Kína. Hún lauk BS-prófi í líftækni árið 2011 frá Háskólanum í Camerino á Ítalíu og meistaraprófi í líftækni frá sama skóla árið 2012. Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2013. Foreldrar hennar eru Dilshat Memet (faðir) og Risalet Yasen (móðir). Remina mun halda áfram rannsóknum sínum sem nýdoktor á rannsóknastofu Eiríks Steingrímssonar.

Remina Dilixiati

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Remina Dilixiati