Skip to main content

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. mars 2019 14:00 til 16:30
Hvar 

Askja

Salur 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Finnur Freyr Eiríksson ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Lipid metabolism in cancer cells - Lípíðefnaskipti krabbameinsfrumna.

 

Andmælendur eru dr. Russell P. Grant, aðjunkt við University of Chapel Hill í Norður-Karólínu, og dr. Martin Giera, prófessor við Leiden University Medical Center (LUMC), Hollandi.

 

Umsjónarkennari var dr. Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor emeritus við Læknadeild, og leiðbeinandi var dr. Margrét Þorsteinsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd þau dr. Sesselja S. Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild, dr. Haraldur Halldórsson verkefnisstjóri og dr. Jan van der Greef, prófessor við Leiden University.

 

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

 

Ágrip af rannsókn

Lípíð voru aðeins talin þjóna þeim tilgangi að vera byggingareiningar í frumuhimnum og orkubirgðir í lífverum, en nú er ljóst að lípíð hafa margs konar virkni í líffræðilegum ferlum. Þá hefur verið sýnt fram á mikilvægi efnaskiptabreytinga í svipgerðum krabbameinsfrumna. Markmið verkefnis var að þróa aðferðir til greininga á lípíðum þar sem notaður var vökvagreinir tengdur massagreini. Þessar aðferðir voru notaðar til að svara þremur rannsóknarspurningum. Í fyrsta lagi að kanna hvort vaxtarhemjandi áhrifum protolichesterín sýru (PS), sem unnin er úr fjallagrösum, væri miðlað með hindrun á lípoxygenösum í briskrabbameinsfrumunum, en vitað var að PS hindrar virkni þessara ensíma.  Í öðru lagi, að greina lípíð í brjóstakrabbameinsfrumum í þeim tilgangi að finna lípíð lífmörk sem mætti nýta til greiningar á sýnum úr sjúklingum. Að lokum, að greina breytingar á lípíðsamsetningu í tengslum við bandvefsumbreytingu þekjufrumna, sem kemur við sögu í myndun krabbameinsmeinvarpa, í tveimur frumulíkönum úr brjóstþekjuvef. Sýnt var fram á að vaxtarhemjandi áhrifum PS er ekki miðlað með hömlun á lípoxygenösum. Heildræn greining á lípíðsamsetningu í brjóstakrabbameins-frumulínum leiddi í ljós að mögulegt er að greina á milli ólíkra frumulína og draga fram breytileika og líkindi þeirra í lípíðsamsetningu. Þannig fannst einkennandi munur á lípíðgerð í samræmi við viðurkennda undirflokka brjóstakrabbameins. Auk þess greindist breytileiki á lípíðsamsetningu innan þessara undirflokka. Þær ályktanir má draga að hægt er að greina með lípíðsamsetningu á milli allra brjóstakrabbameinsfrumulínanna sem fylgja áður skilgreindum undirflokkum og einnig fást viðbótarupplýsingar um breytileika innan þessara flokka. Miklar breytingar á lípíðum greindust í kjölfar bandvefsumbreytingar sem vert er að skoða frekar til að skýra breytta frumustarfsemi í þessu ferli.

 

Um doktorsefnið

 

Finnur Freyr Eiríksson er fæddur árið 1982. Hann lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og meistaragráðu í lyfjafræði frá sama skóla árið 2010. Finnur hefur samhliða doktorsnámi verið framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins ArcticMass og unnið þar að ýmsum rannsóknartengdum verkefnum. Foreldrar Finns Freys eru Eiríkur Brynjólfur Finnsson og Hafdís Þorvaldsdóttir. Maki Finns er Tinna Rut Traustadóttir og eiga þau son, Trausta Frey 2 ára, einnig á Finnur soninn Eirík Frey 7 ára.

 

 

Finnur Freyr Eiríksson

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum