Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Ólöf Jóna Elíasdóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Ólöf Jóna Elíasdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
5. júní 2020 10:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 5. júní ver Ólöf Jóna Elíasdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Vörninni verður streymt hér.

Ritgerðin ber heitið: Faraldsfræði heila- og mænusiggs á Íslandi 2002–2007. Epidemiology of multiple sclerosis in Iceland 2002–2007.

Andmælendur eru dr. Elisabeth Gulowsen Celius, prófessor við Háskólann í Ósló, og dr. Ólafur Árni Sveinsson, sérfræðingur í taugalækningum við Landspítala-háskólasjúkrahús.

 Aðalleiðbeinandi var dr. Elías Ólafsson, prófessor við Læknadeild, en auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Haukur Hjaltason, prófessor við Læknadeild, dr. Sigurjón Stefánsson, sérfræðilæknir við Landspítala-háskólasjúkrahús, og dr. Jan Lycke, prófessor við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 10:00.

Ágrip

Heila- og mænusigg (multiple sclerosis, MS) er sjálfsofnæmissjúkdómur sem veldur bólgu í miðtaugakerfinu sem getur leitt til umtalsverðrar fötlunar. Nýlega hafa komið fram lyf sem virðast hægja á gangi sjúkdómsins. Orsök sjúkdómsins er óþekkt. Í þessari doktorsritgerð er leitast við að varpa ljósi á hversu algengur MS sjúkdómurinn er á Íslandi, dánartíðni MS sjúklinga og husanlegar orsakir sjúkdómsins. Kannað var hvort einstaklingar sem eru fæddir að vori til séu í aukinni áhættu á því að fá MS síðar á lífsleiðinni en fyrri rannsóknir hafa bent til þess. Talið er hugsanlegt að skortur á D vítamíni hjá mæðrum sem ganga með börn sín yfir vetrarmánuðina geti valdið aukinni hættu á MS hjá afkvæminu síðar á lífsleiðinni. Flestar fyrri rannsóknir hafa hins vegar ekki tekið tillit til þess að fjöldi fæðinga er öllu jafna hærri á vorin en á öðrum árstímum og fjöldi fæðinga er breytilegur á milli staða og ára. Eftir að hafa leiðrétt fyrir þessum þáttum hafði árstími fæðingar engin áhrif á áhættuna að fá MS síðar á lífsleiðinni. Það er gagnlegt að hafa upplýsingar um tíðni MS sjúkdómsins, meðal annars svo hægt sé að skipuleggja meðferð með skilvirkum hætti. Komist var að þeirri niðurstöðu að tíðni MS sjúkdómsins er há á Íslandi (nýgengi og algengi), líkt og á hinum Norðurlöndunum. Sjúkdómurinn var algengari hjá konum en körlum. Meðalaldur við greiningu var 36 ár. Dánartíðni MS sjúklinga á Íslandi var tvöfalt hærri en hjá íslensku meðalþýði þegar leiðrétt var fyrir kyni og aldri. Þetta endurspeglar trúlega aukna áhættu á fylgikvillum tengdum sjúkdómnum þar sem sýkingar, fyrst og fremst lungnabólga, var algengasta dánarorsökin. Vonir standa til þess að nýjar meðferðir muni leiða til þess að dánartíðni sjúklinga með MS lækki í framtíðinni.

Abstract

Multiple sclerosis (MS) is an autoimmune disease that causes damage in the central nervous system. We aimed to assess the occurrence (incidence and prevalence) and mortality of MS in Iceland as well as the potential association between month of birth and risk of developing MS later in life. The main finding of this thesis is that the incidence and prevalence of MS is high in Iceland, consistent with reports from the other Nordic countries. Birth month does not affect the risk of developing MS risk later in life. The mortality of Icelandic MS patients was two times higher than in the general population, after correction for age and gender.

Um doktorsefnið

Ólöf Jóna Elíasdóttir er fædd árið 1982. Hún lauk læknisprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 2008 og sérfræðiprófi í taugalækningum í Svíþjóð árið 2016. Ólöf hefur samhliða doktorsnámi sinnt sérnámi í taugalækningum og klínískri vinnu við Taugalækningadeild Sahlgrenska sjúkrahúsins í Gautaborg ásamt kennslu við Háskólann í Gautaborg. Hún starfar nú sem taugalæknir við Taugalækningadeild Sahlgrenska sjúkrahússins. Foreldrar Ólafar eru Elías Ingvarsson og Guðný Margrét Ólafsdóttir. Maki Ólafar er Eyþór Örn Jónsson og synir þeirra eru Jón Ingvar 10 ára, Elías Kári 6 ára og Ari 1 árs.

 

Föstudaginn 5. júní ver Ólöf Jóna Elíasdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands kl. 10:00.

Doktorsvörn í læknavísindum - Ólöf Jóna Elíasdóttir