Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum 6. júní kl.13.00 - Þórarinn Árni Bjarnason

Doktorsvörn í læknavísindum 6. júní kl.13.00 - Þórarinn Árni Bjarnason - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. júní 2019 13:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þórarinn Árni Bjarnason ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Sykursýki 2 og brátt kransæðaheilkenni - Greining, áhrif á æðakölkun og horfur. Type 2 Diabetes Mellitus in the Acute Coronary Syndrome - Diagnosis, effect on atherosclerotic burden and prognosis.

 

Andmælendur eru dr. Hrafnhildur Soffía Guðbjörnsdóttir, prófessor við Háskólann í Gautaborg, og dr. Gunnar Þór Gunnarsson, lektor við Háskóla Íslands.

 

Umsjónarkennari var dr. Karl Andersen, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi var dr. Vilmundur G. Guðnason, prófessor við Læknadeild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Guðmundur Þorgeirsson, prófessor emeritus, dr. Rafn Benediktsson, prófessor við Læknadeild, og dr. Thor Aspelund, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum.

 

Dr. Ingibjörg Harðardóttir, prófessor og varaforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

 

 

Ágrip af rannsókn

Sykursýki 2 (SS2) og forstig SS2 eru þekktir áhættuþættir æðakölkunar og alvarlegra fylgikvilla hjarta- og æðasjúkdóma.

Markmið þessarar ritgerðar var þríþætt. Í fyrsta lagi að finna áreiðanlega aðferð til að greina SS2 og forstig SS2 hjá sjúklingum með BKH. Í öðru lagi að meta áhrif truflaðra sykurefnaskipta á magn æðakölkunar hjá sjúklingum með BKH. Að lokum að meta aukna áhættu á fylgikvillum hjarta- og kransæðasjúkdóma hjá sjúklingum með BKH og trufluð sykurefnaskipti.

Rannsóknin leiddi í ljós að unnt sé að greina með öryggi SS2 hjá sjúklingum með BKH með endurteknum mælingum á HbA1c og FPG þar sem greining SS2 eykst ekki að marki með viðbót sykurþolsprófs. Nýgreint forstig SS2 og SS2 hjá sjúklingum með BKH eru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir æðakölkun í hálsslagæðum þar sem hækkað blóðglúkósa-gildi tveim klukkustundum eftir inntöku glúkósa hefur sterk tengsl við aukna æðakölkun. Að lokum: sjúklingar með nSS2 og þSS2 eru í aukinni dánar- og hjartadrepsáhættu sem og aukinni hættu á alvarlegum fylgikvillum hjarta- og æðasjúkdóma, samanborið við BKH sjúklinga með eðlileg sykurefnaskipti.

 

 

Um doktorsefnið

 

Þórarinn Árni Bjarnason er fæddur árið 1988. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík 2008. Hann lauk BS-prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2011 og Cand. med. gráðu frá sama skóla árið 2014. Þórarinn Árni hefur samhliða doktorsnáminu unnið sem sérnámslæknir, fyrst hjá Landspítala og nú við University of Iowa Hospital and Clinics í Bandaríkjunum. Foreldrar Þórarins Árna eru Bjarni Jóhannesson og Auður Þórarinsdóttir. Maki Þórarins Árna er Ína Valgerður Pétursdóttir og eiga þau dæturnar Auði Emblu 4 ára og Vigdísi Maríu 2 ára.

 

Þórarinn Árni Bjarnason

Doktorsvörn í læknavísindum 6. júní kl.13.00 - Þórarinn Árni Bjarnason