Skip to main content

Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Anett Blischke

Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Anett Blischke - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. maí 2020 14:00 til 16:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Nánar 
Fjöldatakmörkun: Einungis 20 manns geta verið í salnum á meðan dokorsvörninni stendur

Vörninni verður streymt: https://www.youtube.com/user/HIvarp/live

Doktorsefni: Anett Blischke

Heiti ritgerðar: Jan Mayen svæðið og Íslandssléttan: Jarðfræðileg uppbygging, tektóník, eldvirkni og þróun framsækinna rekbelta (The Jan Mayen microcontinent and Iceland Plateau: Tectono-magmatic evolution and rift propagation.)

Andmælendur: Dr. Jenny Collier, prófessor við Jarðvísinda- og verkfræðideild Imperial College London, Bretlandi

Dr. Sylvie Leroy, forstöðumaður rannsókna við Institut des Sciences de la Terre de Paris, Sorbonne-háskóla, Frakklandi

Leiðbeinandi: Bryndís Brandsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans

Aðrir í doktorsnefnd:
Dr. Martyn S. Stoker, gistivísindamaður við Australian School of Petroleum and Energy Resources, University of Adelaide, Ástralíu.
Dr. Carmen Gaina, prófessor og forstöðumaður Jarðfræðaseturs Óslóarháskóla, Noregi.
Dr. Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor og deildarforseti Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands.

 

Ágrip

Meginmarkmið þessa verkefnis var að auka skilning okkar á uppruna og þróun Jan Mayen svæðisins (JMMC) og rekbelta Íslandssléttunnar (Iceland Plateau Rift, IPR), í samhengi við opnunarferli og reksögu NA-Atlantshafssvæðisins, norðan Íslands. Myndunarsaga JMMC er tvískipt; rek eftir Ægishrygg, við opnun Atlantshafsins, klauf miðhluta Austur-Grænlands frá Noregi, og IPR-rekbeltið innan Íslandssléttunnar, vestan Ægishryggjar, klauf JMMC frá Austur Grænlandi. IPR-rekbeltið skiptist í fjögur aðskilin svæði, í tíma og rúmi. Endurskoðað og ítarlegra líkan af jarðlagafræði, eldvirkni og jarðskorpuhreyfingum svæðisins byggir á samtúlkun jarðfræðilegra, jarðeðlisfræðilegra og jarðefnafræðilegra gagna sem aflað var á árunum 1960 til 2017; fjölgeislamælingum; endurkast- og bylgjubrotsgögnum; þyngdar-, og segulmælingum, borholugögnum og bergsýnum, sem og samanburði við aðlæg svæði. Jarðlagastafli tertíer- og kvartertímans skiptist í ellefu jarðlagasyrpur sem afmarkast af tíu mismunandi mislægjum. Sex tengjast stærri, jarðsögulegum atburðum í reksögu Norður-Atlantshafssvæðisins, önnur svæðisbundnari rofmislægjum. Reksaga svæðisins skiptist í sjö tímabil eldvirkni og skerhreyfinga, sem endurspegla óstöðugleika í jarðskorpuhreyfingum yfir 30 milljón ára tímabil, frá því Atlantshafið opnaðist um Ægishrygg og innan framsækna, skástíga, IPR rekbeltisins. Upprunalega tengdist IPR rekbeltið Grænlands-(Íslands)-Færeyjahrygg en færðist síðan til norðurs, og hóf að éta sig inn í meginlandsskorpu Jan Mayenhryggjar. Samhliða þróun IPR-rekbeltisins minnkaði rekhraði á sunnanverðum Ægishrygg. Í hnotskurn er þróunarsagan eftirfarandi: (1) Gliðnun innan Laurasíuflekans hófst á paleósentímabilinu (fyrir ~63-56 milljónum ára). Upphaflega myndaðist mikill sigdalur norðan og austan JMMC, sem samanstóð af lægum brotabeltum. Áframhaldandi tog varð til þess að meginlandsskorpan slitnaði og úthafsskorpa myndaðist við öflugt uppstreymi möttulefnis og mikil flæðigos sem mynduðu stór basaltsvæði (North Atlantic Igneous Province). (2) Byrjun eósentímans (fyrir ~55-53 milljónum ára), einkenndist af myndun mikilla flæðibasaltlaga, innan skástígra gosbelta sem þróuðust frá norðri til suðurs eftir norðausturbrún JMMC. Flæðibasaltlögunum (seaward dipping reflectors) hallar í átt að Ægishrygg í Noregsdjúpi. Svæðið opnaðist eftir með NV-SA-lægum brotabeltum, hraun runnu á landi og í sjó, með móbergsmyndunum og móbergssetlögum á grunnsævi. (3) Í kjölfar þess að Ægishryggur aðskilur Grænland frá Noregi snemma á eósen (~53-50 Ma), þróast framsækið rekbelti (IPR-I) við suðurenda hryggjarins, og norðurbrún Íslands-Færeyjahryggjarins. (4) Gosbeltaflutningar á mið og seinni hluta eósen (∼49-36 Ma) og myndun Íslandssléttunnar. Landrek með innskotavirkni frá SSV til NNA eftir IPR-I og síðan IPR-II rekásunum innan Íslandssléttunnar, yfirtekur suðurhluta Ægishryggjar, þar sem gliðnun og jarðskorpumyndun minnka til muna. (5) Eósen-ólígósen (∼36-25 Ma): IPR-III rekásinn með SV-NA stefnu klífur suðurenda Jan Mayen frá Lyngvahrygg við Hlésund og Suðurhryggir Jan Mayen verða til. Tímabilinu fylgdi aukið uppstreymi kviku til norð-norðausturs, undir áhrifum frá Íslands heita reitnum með tilheyrandi aukningu í innskota- og eldvirkni samfara myndun flæðigossyrpna meðfram sigdölum gosbeltanna. (6) Síð-ólígósen (∼25-22 Ma): Landrek meðfram vesturbrún JMMC innan IPR-IV rekássins með flæðisgossyrpum, IPR-IV er fyrirrennari Kolbeinseyjarhryggjar sem markar upphaf norðausturlandsgrunns Íslands. (7) Míósen til nútíma (22-0 Ma): Með myndun Kolbeinseyjarhryggjar slitnar JMMC endanlega frá Grænlandi og úthafsskorpa verður til. Verkefnið hefur varpað nýju ljósi á 30 milljón ára þróunarsögu JMMC, og hvernig suðurhryggirnir urðu til, í framsæknu gosbelti innan Íslandssléttunnar, undir áhrifum af Íslands heita reitnum, sem yfirtók rek á sunnanverðum Ægishrygg. Öflug innskotavirkni og eldvirkni innan skástígra goskerfa, einkenna innviði Íslandssléttunnar og endurspegla fjölþættar gliðnunar- og skerhreyfingar eftir flekaskilunum sem rekja má í endurkastsgögnunum. Tektónísk þróun rannsóknarsvæðisins er í mörgu lík Íslandi í dag, bæði einkennast af óstöðugum, framsæknum rekbeltum, með innskotavirkni í gegnum eldri jarðlagastafla.

Um doktorsefnið

Anett Blischke er fædd árið 1971 og ólst upp í Austur-Berlín í Þýskalandi. Hún lauk BS-prófi í jarðfræði við Tækniháskólann í Berlín 1994 og ári seinna framhaldsnámi í jarðfræði með áherslu á fjarkönnun, bergfræði og grunnvatnsfræði. Anett lauk MS prófi í olíujarðfræði og jarðeðlisfræði frá Oklahomaháskóla í Bandaríkjunum árið 1997 og starfaði síðan hjá Phillips olíufélaginu beggja vegna Atlantshafsins, í Oklahoma, Texas og síðan hjá Conoco-Phillips í Bretlandi til ársins 2004. Hún hefur starfað sem sérfræðingur í borholujarðfræði, hafsbotnsjarðfræði og jarðeðlisfræði hjá Íslenskum orkurannsóknum á Akureyri frá árinu 2004.

Doktorsverkefni Anett grundvallast á viðamikilli samantekt jarðfræði- og jarðeðlisfræðilegra gagna af Jan Mayen-svæðinu og Íslandssléttunni. Uppistaðan í nýju líkani hennar af uppruna og þróun rekbelta svæðisins er byggð á yfir 30.000 km af endurkastsmælilínum sem Íslenskar orkurannsóknir og Orkustofnun hafa safnað í samvinnu við erlendar vísindastofnanir frá 1975.

Anett er gift Oddi Vilhelmssyni, prófessor í örverufræði við Háskólann á Akureyri, og eiga þau tvo syni. Anett hóf doktorsnám í hafsbotnsjarðfræði og jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands 2015.

Anett Blischke

Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Anett Blischke