Skip to main content

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Sigrún Margrét Guðmundsdóttir

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Sigrún Margrét Guðmundsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
10. júní 2020 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðvikudaginn 10. júní 2020 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Sigrún Margrét Guðmundsdóttir doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum sem nefnist  „Húsið og heilinn. Um virkni reimleikahússins í The Shining og þremur íslenskum hrollvekjum“. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Andmælendur við vörnina verða dr. Björn Ægir Norðfjörð, dósent við St. Olaf College í Minnesota, og dr. Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur, prófessors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og dr. Guðna Elíssonar, prófessors í almennri bókmenntafræði við sama skóla. Með þeim í doktorsnefnd var dr. Jürg Glauser, prófessor emeritus í norrænni textafræði við Háskólann í Zürich.

Torfi H Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Hrollvekjur um reimleikahús snúast oftar en ekki um heila, enda getur verið reimt í heilanum ekki síður en í húsum. Reimleikahús taka einnig á sig ýmis persónueinkenni manna, geta orðið fráhrindandi og sjúk og stjórnað íbúum sínum með hugarlestri og klækjabrögðum. Þau eru grafreitir gotneskra leyndarmála en að sama skapi staðir þar sem leyndarmál lifna við – og ganga aftur. Í ritgerðinni er leitast við að draga fram líkindi reimleikahússins og mannsheilans, ekki síst það hvernig óhugnanlegustu leyndarmálin eru falin í hinum myrku vistarverum: heilanum og húsinu. Sérstaklega er fjallað um virkni þriggja reimleikahúsa í tveimur íslenskum kvikmyndum, Húsinu eftir Egil Eðvarsson (1983) og Rökkri eftir Erling Óttar Thoroddsen (2017) og einni íslenskri skáldsögu, Hálendinu eftir Steinar Braga (2011). Í greiningunni er stuðst við fyrirmyndartexta, The Shining eftir Stephen King (1977).

Um doktorsefnið

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og meistaraprófi í íslenskum bókmenntum við sama skóla. Hún er stundakennari við Háskóla Íslands og annar ritstjóra Ritsins: Tímarits Hugvísindastofnunar.

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir.

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Sigrún Margrét Guðmundsdóttir