Skip to main content

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Martina Ceolin

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Martina Ceolin - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. ágúst 2020 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 24. ágúst 2020 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Martina Ceolin doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, The Multiple Facets of Time. Reckoning, Representing, and Understanding Time in Medieval Iceland. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. 

Andmælendur við vörnina verða dr. Heather O‘Donoghue, prófessor í fornnorrænu við Oxford háskóla, og dr. Viðar Pálsson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Torfa H. Tulinius, prófessors í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands, og dr. Massimiliano Bampi, dósent í germanskri fílílógíu við Ca’ Foscari háskóla í Feneyjum.

Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Þessi doktorsritgerð fjallar um hvernig gerð er grein fyrir margþættum og síkvikum tíma í þremur íslenskum ritum frá miðöldum. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvaða mynstur má lesa út úr framsetningu tímans í textanum og hvernig tímanum er gerð skil í formi frásagnar. Annað markmið, sem leiðir af hinu fyrra, er að byggja upp fræðilegan skilning á því hvernig þau sem stóðu að þessum ritum, og væntanlega samtímamenn þeirra, reiknuðu, skipulögðu og skildu tímann.

Frumheimildarnar sem greindar voru í þessum tilgangi eru Íslendingabók og tvær Íslendingasögur, Eyrbyggja saga og Laxdæla saga. Íslendingabók er gagnorð saga Íslands frá landnámi um 870 til ársins 1118. Hún var samin af prestinum Ara Þorgilssyni fróða (1067/68–1148) á árunum 1122–33. Eyrbyggja saga og Laxdæla saga eru báðar frá 13. öld, en segja frá atburðum frá landnámi fram yfir Kristinitöku, árið 999/1000. Þær eiga þennan tíma sameiginlegan með Íslendingabók, þótt frásögn Íslendingabókar nái töluvert lengra. Í ritunum þremur má skynja svipaða tilfinningu fyrir fortíðinni, og þau lýsa og sviðsetja tímann þannig að víðtækur samanburður á tímamynstrum er mögulegur. Auk þess eru bæði bein og óbein tengsl milli textanna. Samhliða þessari greiningu, er litið til ritunartíma textanna í leit að dýpri skilningi á því hvernig Íslendingar á miðöldum mældu tímann, stjórnuðu honum og skildu hann. Þetta gerir kleift að meta betur hugmyndafræðilegar forsendur fyrir framsetningu á tímanum í þessum textum og þau ferli sem bjuggu undir þeirri endursköpun á liðnum tíma sem þar átti sér stað.

Í greiningunni er viðfangsefnið nálgast frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum, í senn frásagnarfræðilegu, félagslegu og heimspekilegu. Þessi greiningaraðferð miðar að því að gera grein fyrir fjölþættu og samsettu tímahugtaki á Íslandi á miðöldum. Enn fremur leitast hún við að brúa bil milli fræðigreina sem fást við þetta viðfangsefni og leggja grunn að frekari rannsóknum á tíma í íslensku samfélagi og bókmenntum á miðöldum, en jafnframt í reynslu og tilvist miðaldafólks.

Um doktorsefnið

Martina Ceolin er með BA-próf í enskum og þýskum tungumálum og bókmenntum frá Ca’ Foscari Háskólanum í Feneyjum og MA-próf í germanskri fílílógíu frá sama skóla. Hún hefur kennt íslenskar miðaldabókmenntir við Háskóla Íslands og verið gestadoktorsnemi við Manitoba-háskóla í Kanada. Martina kennir einnig íslensku við tungumálaskóla.

Martina Ceolin

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Martina Ceolin